Hjukrun.is-print-version

„Allir lögðu sig fram við að læra nýja dansinn“

2. tbl. 2020
Hjúkrunarfræðingar í framlínunni á tímum covid-19

„Þessi tími er svo óraunverulegur og mér líður stundum eins og ég sé stödd í bíómynd,“ segir Sólveig Gylfadóttir, en hún er einn af fjöldamörgum hjúkrunarfræðingum sem staðið hafa í framlínunni undanfarið vegna kórónufaraldursins, eða covid-19. Það er óhætt að segja að miklar breytingar hafi orðið á daglegum verkefnum fjöldamargra heilbrigðisstarfsmanna en Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga auglýsti eftir reynslusögum hjúkrunarfræðinga sem staðið hafa í framlínunni til að fá innsýn í áður óþekkt starfsumhverfi og reynslu.

Samhugur í verki og vilji til að leggja sitt af mörkum

Þrátt fyrir að ástand undanfarinna vikna hafi tekið á marga þá er einkennandi samhugur í verki og vilji til að leggja sitt af mörkum. Frá því í marsbyrjun hefur starf Áslaugar Sölku Grétarsdóttur, verkefnastjóra á heilbrigðisupplýsingasviði embættis landlæknis, meira og minna snúist um covid-19. „Við höfðum samband við þá sem greindust með covid-19, fórum með kerfisbundnum hætti yfir hvenær einkenni hófust, hverja þeir umgengust á þeim tíma sem þeir hefðu getað verið smitandi og settum þá einstaklinga í sóttkví. Þetta gátu verið löng og flókin símtöl og mikilvægt var að velta upp álitamálum með teyminu. „Það er aðdáunarvert hvað fólk brást vel við símtölum frá okkur í rakningateyminu, bæði þeir sem voru að komast að því að þeir voru smitaðir, sem og þeir sem þurftu að fara í sóttkví. Við vorum að hringja í fólk með íþyngjandi kröfur um einangrun og sóttkví en var nánast alltaf mætt með skilningi og þakklæti fyrir okkar störf,“ segir Áslaug Salka.

„Við vorum að setja okkur í hættu með því að sinna þessu fólki, og maður hefur það alltaf á bak við eyrað hversu mikilvægt það er fyrir okkur að huga því sérstaklega vel að hlífðarbúnaði og hreinlæti. Þetta hefur einnig haft töluverð áhrif á líf manns utan vinnunnar.“
Erla Björnsdóttir, mannauðsráðgjafi fræðslu og starfsþróunar og hjúkrunarfræðingur á Sjúkrahúsinu á Akureyri, segir óvissu hafa ríkt á þessum tíma sem hafi kallað á skjót viðbrögð, enda hafi ákvarðanir breyst frá degi til dags, en hún var lykilstarfsmaður viðbragðsstjórnar sjúkrahússins á Akureyri vegna covid-19. „Það gat verið erfitt að líta í öll horn á slíkum hraða, og ákvarðanir sem teknar voru í dag gátu verið breyttar á morgun,“ segir hún. Þrátt fyrir að ástandið hafi verið eins grafalvarlegt og það var hefur Ólöf Sólrún Vilhjálmsdóttir, hjúkrunarfræðingur á smitsjúkdómadeild A7 í Fossvogi, aldrei notið þess jafn mikið að vinna á spítalanum. „Við vorum að setja okkur í hættu með því að sinna þessu fólki, og maður hefur það alltaf á bak við eyrað hversu mikilvægt það er fyrir okkur að huga því sérstaklega vel að hlífðarbúnaði og hreinlæti. Þetta hefur einnig haft töluverð áhrif á líf manns utan vinnunnar, en til að mynda þurfti ég að takmarka heimsóknir mínar til fólksins í kringum mig til muna,“ segir hún. Ástandið hafi sannarlega tekið á, jafnt andlega sem líkamlega, og hún viðurkennir það að hafa grátið reglulega vegna aðstæðnanna. „Það er þó engin skömm í því þar sem við erum jú öll mennsk og þetta fylgir bara þessu starfi.“

Thelma Rut Bessadóttir, 4. árs nemandi á smitsjúkdómadeild Landspítala, segist vera afar þakklát fyrir þann hlífðarbúnað sem við höfum, „og ég viðurkenni það að ef við hefðum ekki þennan hlífðarbúnað myndi ég ekki sinna þessum skjólstæðingum,“ en Thelma er barnshafandi að sínu öðru barni. „Þar sem ég er gengin nokkuð á leið var ég alls ekki viss fyrst hvort ég ætlaði yfirhöfuð að taka þátt í hjúkrun þessara skjólstæðinga vegna þess að ég vissi í raun ekkert hvernig þessi veira getur haft áhrif á meðgöngu.“

Það hefur tekið á margan að klæðast hlífðarbúnaði til lengri tíma og ekki hvað síst hefur það tekið á andlegu hliðina, segir Ólöf. Sólveig tekur í sama streng og segir: „Mér finnst það reyna mikið á að vera manneskjuleg í þessum hlífðarfatnaði og geta ekki haldið í hönd á sjúklingnum mínum án þess að vera í hanska þegar ég reyni að sýna honum stuðning og samhygð,“ segir Sólveig.

Mun hjúkrun breytast í kjölfar covid-19?

En hvað tekur svo við? Mun hjúkrun breytast til frambúðar? „Í raun ekki þar sem við erum jú að sinna grunnþörfum einstaklinganna núna jafnt og áður,“ segir Thelma Rut. „Það sem mér finnst að eigi ef til vill eftir að breytast í kjölfar þessa faraldurs er að meiri samvinna verður eflaust milli deilda og það eykur líkur á að sjúklingurinn fái betri þjónustu.“ Ólöf tekur í sama streng: „Hjúkrun mun alltaf vera eins í grunninn, þ.e. að sýna umhyggju og hjúkra veiku fólki og veita því þá aðstoð sem þörf er á.“ Hún telur aftur á móti að fólk muni almennt kunna að meta hjúkrun og störf hjúkrunarfræðinga betur en það gerði áður. „Það áttar sig jafnvel betur á hvað það er sem felst virkilega í starfi hjúkrunarfræðinga á hverjum einasta degi,“ segir Ólöf.

„Það var bara eins og það hefði verið sett nýtt lag á fóninn sem allir lögðu sig fram við að læra dansinn við. Allir lögðu sig fram við að dansa í takt og samvinna allra þessara aðila passaði upp á að allir á ballinu vissu hvaða lag væri í spilun,“ segir Hrafnhildur Lilja.
„Hjúkrun er í stöðugri þróun. Ég er ekkert viss um að þessi faraldur valdi einhverri stökkbreytingu í hjúkrun sem slíkri þó ég voni að við munum áfram eftir því hve mikilvægt er að vinna saman út fyrir stofnanir. Þetta hefur sýnt okkur hversu sterk við getum verið ef við stöndum saman,“ segir Hrafnhildur Lilja Jónsdóttir, sérfræðingur í bráðahjúkrun og kennslu og þjálfunarstjóri deildar mennta og vísinda á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Snemma í ferlinu fengu þær Rut Guðbrandsdóttir sýkingavarnahjúkrunarfræðingur og Hrafnhildur Lilja það verkefni að skrifa viðbragðsáætlun covid-19 fyrir Sjúkrahúsið á Akureyri. „Það var bara eins og það hefði verið sett nýtt lag á fóninn sem allir lögðu sig fram við að læra dansinn við. Allir lögðu sig fram við að dansa í takt og samvinna allra þessara aðila passaði upp á að allir á ballinu vissu hvaða lag væri í spilun,“ segir Hrafnhildur Lilja.

Rut segir þetta hafa verið stórt verkefni sem vatt upp á sig og nánast ekkert annað en undirbúningur fyrir covid-19 komst að. „Á þessum tíma hefur verið í gríðarlega mörg horn að líta því sýkingavarnir koma nánast alls staðar að í ferlinu,“ segir Rut, en hún er eini sýkingarvarnarhjúkrunarfræðingurinn á Sjúkrahúsinu á Akureyri. „Þó að hugað hafi verið að sýkingavörnum fyrir faraldurinn þá tel ég að heilbrigðisstarfsfólk muni eftir þennan tíma taka meira til sín hve þáttur sýkingavarna er mikilvægur í hjúkrun. Einnig hve mikilvægt er að starfsmenn upplifi sig örugga í starfi,“ segir Rut jafnframt.

Teymisvinna er lykilorðið

Áslaug Salka telur að þessi faraldur sýni að hjúkrunarfræðingar séu enn nauðsynlegri en almenningur og stjórnvöld hafi gert sér grein fyrir hingað til. „Fýsísk viðvera hjúkrunarfræðinga er svo mikilvæg í meðferð þeirra mest veiku. Það mun ekki breytast í bráð. Hins vegar held ég að þessi faraldur sýni einnig hversu mikilvægir hjúkrunarfræðingar eru skipulagningu og undirbúningi viðbragða heilbrigðisstofnana,“ segir hún.

Frá því að fyrsta covid-tilfellið greindist hefur fjarheilbrigðisþjónusta aukist verulega. Erla telur að hjúkrunarfræðingar muni taka meiri þátt í fjarheilbrigðisþjónustu og að þar muni reynsla og þekking hjúkrunarfræðinga nýtast vel. Að mati Áslaugar Sölku er teymisvinna lykilorð í þessum samhengi. Allar heilbrigðisstéttir sinni fjarheilbrigðisþjónustu en hjúkrunarfræðingar ættu að vera í lykilhlutverki í skipulagningu og utanumhaldi á henni. „Hjúkrunarfræðingar eru lykillinn að fjarheilbrigðisþjónustu.“

„Hjúkrunarfræðingar eru nefnilega alltaf til taks, burtséð frá því hvort heimsfaraldur er í gangi eða ekki. Fólk glímir jú við veikindi af ýmsum toga allt árið um kring, hvort sem það er á sunnudegi, helgidögum eða á öllum öðrum dögum ársins. Já, við erum nefnilega það mögnuð og ómissandi starfsstétt!“
„Við lifum svo sannarlega sögulega tíma og ég hef aldrei verið jafn stolt og hreykin af því að vera hjúkrunarfræðingur eins og núna. Það hefur verið mögnuð reynsla að fá að leggja sitt af mörkum í baráttunni við faraldurinn og finna að maður er að sinna gífurlega mikilvægu og þörfu starfi á degi hverjum,“ segir Ólöf. „Hjúkrunarfræðingar eru nefnilega alltaf til taks, burtséð frá því hvort heimsfaraldur er í gangi eða ekki. Fólk glímir jú við veikindi af ýmsum toga allt árið um kring, hvort sem það er á sunnudegi, helgidögum eða á öllum öðrum dögum ársins. Já, við erum nefnilega það mögnuð og ómissandi starfsstétt!“ segir Ólöf. „Eins fordæmalaus og þessi tími er þá er hann mjög lærdómsríkur,“ segir Erla. Verkefnin eru mjög mörg, reyna mikið á, en það er ótrúlega lærdómsríkt og gefandi að sjá hvað gerist þegar allir leggjast á eitt og vinna saman í spítalaþjónustunni, innan – sem og utan. Það er besti lærdómurinn, allir í keðjunni eru jafn mikilvægir og ég er þakklát fyrir alla í keðjunni.“

Þakklæti og aftur þakklæti

Þakklæti er greinilega ofarlega í huga margra hjúkrunarfræðinga þegar sér nú fyrir endann á þessu fordæmalausa tímabili. „Ég er þakklát fyrir að vera partur af þessu tímabili,“ segir Thelma. „Samvinna er eitthvað sem ég sé mikið af þessa dagana, allir eru í tilbúnir til þess að vinna saman að því að komast í gegnum þetta ástand. Oft hef ég verið stolt af því að vera að mennta mig inn í þessa stétt en í dag er ég 100% viss um að ég valdi rétt þegar ég tók ákvörðun að skrá mig í hjúkrunarfræði. Að sjá samstarfsfélaga mína leggja allt á sig til þess að auðvelda skjólstæðingum og samstarfsfólki að komast í gegnum þetta tímabil er eitthvað sem ég mun búa að alla mína tíð. Ég neita því ekki að þetta eru krefjandi og erfiðir tímar þar sem gott er að hafa góðan stuðning bæði í vinnu og heima fyrir því þetta tekur á andlega. Mér gengur vel að takast á við breyttar vinnuaðstæður og tel þetta munu eiga góðan þátt í því hvernig hjúkrunarfræðingur ég verð í framtíðinni,“ segir Thelma. „Eitt sinn hjúkrunarfræðingur, ávallt hjúkrunarfræðingur,“ segir Laufey Steindórsdóttir bráðahjúkrunarfræðingur en hún skráði sig í bakvarðasveit eftir tíu ára hlé frá hjúkrunarstörfum. „Nú er rétti tíminn til að leggja hönd á plóg. Stöndum saman og munum eftir að hver og einn skiptir máli. Við erum öll að fylgja hvert öðru heim."

„Það hefur verið ótrúlega mikilvægur þáttur í þessu ferli að finna fyrir þeim gríðarlega mikla stuðningi sem almenningur og þjóðin öll hefur sýnt okkur og framlínunni á þessum erfiðu tímum. Ég skynja svo sterkt að við erum öll í þessu saman. Samtakamáttur samfélagsins gegn þessum faraldri er svo fallegur.“
Þakklæti og stolt er efst í huga Erlu. „Ég er þakklát fyrir þríeykið í framlínunni, Ölmu, Víði og Þórólf, ég er þakklát fyrir teymið mitt í viðbragðsstjórn Sjúkrahússins á Akureyri og þakklát fyrir alla starfsmennina sem leggjast á eitt. Svo er ég stolt af því að vera hjúkrunarfræðingur. Við erum mikilvæg stétt og sýnum hvers við erum megnug alla daga.“ Ólöf tekur í sama streng. „Það hefur verið ótrúlega mikilvægur þáttur í þessu ferli að finna fyrir þeim gríðarlega mikla stuðningi sem almenningur og þjóðin öll hefur sýnt okkur og framlínunni á þessum erfiðu tímum.“ Og þakklæti er ofarlega í huga Áslaugar Sölku. „Mér finnst mikilvægast að nálgast verkefnin mín með þakklæti. Ég skynja svo sterkt að við erum öll í þessu saman. Samtakamáttur samfélagsins gegn þessum faraldri er svo fallegur.“ Sólveig segist sömuleiðis vera ómetanlega þakklát fyrir alla þá reynslu sem hún hefur öðlast í kringum það að hafa unnið svona mikið með þennan nýja sjúkdóm og þakklát fyrir styrk og hvatningu frá samstarfsfélögum og samfélaginu.

Helga Ólafs tók saman. 

Pistlar og viðtöl

Heilbrigðiskerfi

Mönnunarmál

Sýkingar og smit

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála