„Hjúkrunarfræðingar eru og hafa verið hryggjarstykkið í heilbrigðiskerfinu“
2. tbl. 2020
Þegar kórónafaraldurinn, covid-19, var í hámarki var hringt í um 600 manns á dag og allt að 20 manns komu á dag á covid-19-göngudeildina sem komið var upp í kjölfar fjölgunar smita. Göngudeildin var með aðstöðu í húsinu Birkiborg á lóð Landspítala í Fossvogi og veitti Sólveig Hólmfríður Sverrisdóttir hjúkrunardeildarstjóri göngudeildinni forstöðu.
Hjúkrunarfræðingar tóku forystu
Í upphafi faraldursins hringdu smitsjúkdómalæknar og hjúkrunarfræðingar á göngudeild smitsjúkdóma í smitaða einstaklinga. „Við á göngudeildinni minni komum snemma að þeirri vinnu sem vatt hratt upp á sig eftir því sem smitum fjölgaði. Hjúkrunarfræðingar tóku fljótt forystu í þessari vinnu og tók ég að mér skipulag hennar. Í framhaldinu var ákveðið að koma upp aðstöðunni í Birkiborg og þá varð ekki aftur snúið. Lá því beinast við að ég tæki það að mér líka,“ segir Sólveig.Úthringingaver hjúkrunarfræðinga
Covid-göngudeildin var í upphafi símaver þar sem hjúkrunarfræðingar hringdu í smitaða með covid-19. Þar er veitt gríðarlega mikilvæg hjúkrun þar sem andlegir og líkamlegir þættir eru metnir eftir sérstöku kerfi sem var skipulagt af læknum og hjúkrunarfræðingum eftir því sem sjúkdómnum vatt fram og einkennum fjölgaði, segir Sólveig. Í símtölunum mátu hjúkrunarfræðingar andlegt og líkamlegt ástand sjúklings og sendu áfram til læknis eða í sálgæslu hjá prestum og geðteymi spítalans, ef þörf var á. Læknir tók ákvörðun um hvort sjúklingur kæmi til frekara mats og meðferðar í Birkiborg, að sögn Sólveigar.Stöðufundur var klukkan 9 á hverjum morgni þegar mest var. Síðan hófust hringingarnar og metið var hvort þyrfti að hringja daglega eða sjaldnar. Fljótlega kom í ljós að andleg líðan fólks var misjöfn, segir Sólveig, og hringt var oftar í þá sem sýndu merki um kvíða og andlega vanlíðan.
Sérstaklega hlúð að andlegri líðan fólks
Fyrst voru teknar í notkun fjórar skoðunarstofur á neðri hæð hússins en síðan var ákveðið að bæta eftri hæðinni við. Á efri hæðinni var sett upp nokkurs konar dagdeildarstofa með meðferðarstólum þar sem skjólstæðingar deildarinnar gátu verið meðan þeir biðu eftir niðurstöðum úr rannsóknum, fengu vökva í æð og þess háttar. Deildin hafði sjö skoðunarstofur auk dagdeildarherbergis. Stöðufundur var klukkan 9 á hverjum morgni þegar mest var. Síðan hófust hringingarnar og metið var hvort þyrfti að hringja daglega eða sjaldnar. Fljótlega kom í ljós að andleg líðan fólks var misjöfn, segir Sólveig, og hringt var oftar í þá sem sýndu merki um kvíða og andlega vanlíðan. „Allir fengu símanúmer sem þeim var uppálagt að hringja í ef eitthvað breyttist, og reyndist vera mikið öryggi í því. Í Birkiborg var tekið á móti sjúklingum frá 8 á morgnana til 11 á kvöldin og þegar mest var komu 18 sjúklingar sama daginn. Hver heimsókn tók ekki minna en eina klukkustund,“ segir Sólveig.Göngudeildin er við öllu búin
Að sögn Sólveigar var álagið vel viðráðanlegt og þess vegna hafði deildin allgóða stjórn á flæðinu inn á spítalann. „Okkar tilfinning er sú að vegna þessa skipulags hafi sjúklingar sem lögðust inn ekki verið eins veikir og víða erlendis, t.d. þegar þeir lögðust inn á gjörgæslu.“ Nú þegar hægt hefur verulega á kórónufaraldrinum hefur smátt og smátt verið dregið úr starfsemi deildarinnar. „Já, við erum bæði að draga úr starfseminni í hringingunum og á Birkiborg. Við getum ekki lokað alveg og þurfum að hafa áætlun um hvernig við keyrum starfið upp aftur ef smitum fjölgar, sú áætlun er til. Fyrirhugað er að nota húsnæðið og hugmyndafræðina áfram við meðhöndlun annarra sjúkdóma,“ segir Sólveig.Kraftaverkafólk á deildinni
Sólveig hrósar sínu starfsfólki í hástert og talar um kraftaverkafólk í því sambandi sem lýsti því best að frá fyrsta degi hafi allir verið tilbúnir að leggja allt frá sér til að taka þátt í þessu verkefni. Setningin: „Nei, þetta er ekki hægt,“ heyrðist aldrei. „Starfsfólkið á covid-göngudeildinni skapaði verklagið kringum vinnuna eftir því sem starfinu vatt fram. Mjög góður andi var frá fyrsta degi og sérstaklega ánægjulegt að taka þátt í og stýra þessu verkefni.“Enginn smitast af starfsfólki deildarinnar
Starfsfólk deildarinnar þurfti að sjálfsögðu að klæðast viðeigandi hlífðarfatnaði við störf sín, hvernig gekk það? „Já, það er rétt, starfsfólkið í Birkiborg þurfti að vera í hlífðarbúnaði. Þetta er mjög óþægilegur klæðnaður, þungt og heitt. Það sem líka er áhugavert við hlífðarbúnaðinn er samskiptin við sjúklingana sem verða svipbrigðalaus og ópersónuleg.“ En var Sólveig aldrei verið sjálf hrædd um að smitast eða hennar starfsfólk á deildinni? „Það kom nokkrum sinnum upp á Birkiborg að hjúkrunarfræðingar og læknar héldu að þeir væru komnir með covid-19. Þá var sent sýni og viðkomandi fór í sóttkví þar til niðurstaða kom. Enginn greindist jákvæður sem betur fer.“„Já, ég held að það hafi ekki komið hjúkrunarfræðingum á óvart að þeir mundu taka til hendinni í þessum faraldri. Það virðist samt vera að það sé að renna upp ljós fyrir ýmsum öðrum. Hjúkrunarfræðingar eru og hafa verið hryggjarstykkið í heilbrigðiskerfinu. Það verður ekki rekið án þeirra.“
Hjúkrunarfræðingar eru hryggjarstykkið
Sólveig segir að í faraldrinum hafi mikilvægi hjúkrunarfræðinga komið mjög skýrt í ljós. „Já, ég held að það hafi ekki komið hjúkrunarfræðingum á óvart að þeir mundu taka til hendinni í þessum faraldri. Það virðist samt vera að það sé að renna upp ljós fyrir ýmsum öðrum. Hjúkrunarfræðingar eru og hafa verið hryggjarstykkið í heilbrigðiskerfinu. Það verður ekki rekið án þeirra. Vonandi verður þetta til þess að hjúkrunarfræðingar verði metnir sem sú vel menntaða fagstétt sem hún er og launakjör endurspegli það.“Sólveig hefur starfað á Landspítala allar götur frá útskrift. „Ég er Landspítalakona, ég hef alltaf starfað þar og vil hvergi annars staðar vera.“ Hún hefur lengst af starfað sem deildarstjóri, fyrst á bæklunarskurðdeild á Hringbraut sem síðan var flutt inn í Fossvog árið 2000. Þegar hrunið kom var ákveðið að setja upp dagdeild á skurðlækningasviði en hún tók þátt í uppbyggingu hennar. „Ég var deildarstjóri á dagdeild A5 þar til ég tók við göngudeild skurðlækninga þar sem ég starfa nú,“ segir hún.
Langþráð hvíld fram undan
Sólveig er fædd og uppalin á Akureyri þar sem henni þótti gott að alast upp. Þar hafi alltaf verið gott veður þó svo allt væri á kafi í snjó. Hún stundaði sund af miklum móðog náði bara nokkuð góðum árangri. Hún átti mörg Akureyrarmet og æfði og keppti með landsliðinu í sundi um tíma. Eftir stúdentspróf frá MA flutti Sólveig til Reykjavíkur til að fara í háskólann. Hún er gift og á tvær dætur. Helsta áhugamál henna er handavinna og þá helst prjónaskapur. Fjölskyldan er að koma sér upp sumarbústað þar sem hún sér fyrir mér fallega náttúru, útivist og enn þá meiri prjónaskap. Í sumar hyggst hún taka til hendinni í bústaðnum og ferðast innanlands, og ekki síst að hvílast eftir langa vinnutörn. „Mig langar að lokum að þakka fyrir þetta tækifæri og ég held ég tali fyrir hönd allra sem tóku þátt í þessu verkefni. Stuðningur stjórnenda spítalans og það traust sem okkur var sýnt er ómetanlegt.“Viðtal: Magnús Hlynur Hreiðarsson.