Hjukrun.is-print-version

Íslensk þýðing WHODAS 2.0 og próffræðilegir eiginleikar hennar

2. tbl. 2020
Ritrýnd grein: Hafdís Hrönn Pétursdóttir, Ragnheiður Harpa Arnardóttir og Guðrún Pálmadóttir

Hafdís Hrönn Pétursdóttir, Ragnheiður Harpa Arnardóttir og Guðrún Pálmadóttir

Inngangur
Í hugmyndafræði alþjóðlega flokkunarkerfisins um færni, fötlun og heilsu (ICF) er áhersla lögð á færni fólks við þær aðstæður sem það býr. WHODAS 2.0 spurningalistinn, WHO Disability Assessment Schedule 2.0, var saminn til að mæla færni og fötlun í takt við ICF, óháð mál- og menningarsvæðum eða þeim heilsufarsvanda sem að baki býr. Markmið rannsóknarinnar voru að þýða WHODAS 2.0 og staðfesta próffræðilega eiginleika íslensku þýðingarinnar.

Aðferð
WHODAS 2.0 var þýtt úr ensku. Þá var það lagt fyrir og rætt í rýnihópi fólks í endurhæfingu og leiddi það til minniháttar breytinga. Bakþýðing staðfesti samhljóm íslensku útgáfunnar við upprunalegu ensku útgáfuna. Þýðingin var þá lögð fyrir tvo hópa. Fyrri hópurinn (n = 81) var fólk sem var að hefja endurhæfingu en það svaraði WHODAS einu sinni auk þess að svara SF-36v2-spurningalistanum. Í síðari hópnum (n = 67) var fólk í viðhaldsþjálfun sem glímdi við hjarta- eða lungnasjúkdóma. Það svaraði WHODAS 2.0 tvisvar með 2 vikna millibili. Innri áreiðanleiki var prófaður með Cronbachs-alfa, áreiðanleiki endurtekinna mælinga með innanflokksfylgnistuðli og samtímaréttmæti við SF-36v2 var prófað með
fylgnistuðli Spearmans.

Niðurstöður
Innri áreiðanleiki var á bilinu 0,83–0,98 fyrir mælitækið í heild og alla undirkvarða þess. Áreiðanleiki endurtekinna mælinga reyndist 0,77–0,94. Fylgni milli WHODAS 2.0 og SF-36v2 var marktæk fyrir alla undirkvarða sem snúa að skyldum heilsutengdum þáttum (r = –0,25 til –0,7, p < 0,05) eða í 36 af 48 tilfellum.

Ályktanir
Próffræðilegir eiginleikar íslensku þýðingarinnar á WHODAS 2.0 eru góðir. Íslenska þýðingin er framlag til heilbrigðisþjónustu og rannsókna á Íslandi og auk þess opnast möguleikar á þátttöku Íslands í alþjóðlegum rannsóknum á færni og fötlun.

Lykilorð
WHODAS 2.0, íslenska, réttmæti, áreiðanleiki, SF-36v2

2. tbl. 2020: Íslensk þýðing WHODAS 2.0 og próffræðilegir eiginleikar hennar

Fagið

Ritrýnd grein

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála