Kvíði hjá öldruðum. Greining og meðferð
Kvíði lýsir sér þannig að fólk hefur miklar áhyggjur sem erfitt er að stjórna. Þessar áhyggjur fara að hafa áhrif á daglegt líf fólksins. Líkamleg einkenni geta líka fylgt, eins og óþægindi frá maga, hröð og grunn öndun og þyngsli eða verkur fyrir brjósti. Einkenni eins og ógleði, svefntruflanir, hægðatregða og áhyggjur af ýmsu, t.d. heilsu, eru algengari meðal aldraðra (Kennedy-Malone o.fl., 2019). Kvíði er algengur hjá öldruðum en er oft vangreindur og því ekki meðhöndlaður (Bandelow o.fl., 2017). Þeir sem eru með kvíða eiga frekar á hættu að fá hjarta og æðasjúkdóma en ókvíðnir (Emdin o.fl., 2016). En hverjir eru það sem fá helst kvíða og hvað er hægt að gera? Hverju þurfum við að vera vakandi fyrir?
Hverjir fá kvíða og hversu algengur er hann?
Allir geta fengið kvíða en milli 3 og -14% aldraðra eru með greinda kvíðaröskun (Kennedy-Malone o.fl., 2019). Þeim er hættara við kvíða sem hafa lent í miklum áföllum í lífinu, þurft að búa við fátæk, lent í ofbeldi og fundið fyrir mikilli streitu á yngri árum. Nýleg áföll, missir og aðskilnaður eru allt áhættuþættir fyrir kvíða hjá öldruðum. Ýmsir sjúkdómar ýta einnig undir kvíða, eins og geðsjúkdómar, þunglyndi, vitglöp, hjartasjúkdómar og öndunarfærasjúkdómar. Konur eiga frekar á hættu að fá kvíða (Andreescu og Varon, 2015 ). Rannsóknir sýna að konur geta verið allt að tvisvar sinnum líklegri til að fá kvíða en karlar (Catuzzy og Beck, 2014).
Til eru margar mismunandi gerðir kvíðaröskunar en algengast er að aldraðir séu með almenna kvíðaröskun, einfalda fælni, félagslegan kvíða og kvíða sem fylgir lyfjaáhrifum eða læknisfræðilegu ástandi.
Til eru margar mismunandi gerðir kvíðaröskunar en algengast er að aldraðir séu með almenna kvíðaröskun, einfalda fælni, félagslegan kvíða og kvíða sem fylgir lyfjaáhrifum eða læknisfræðilegu ástandi. Á öldrunarheimilum áttar starfsfólk sig oft ekki á einkennum kvíða. Það heldur að einkennin séu eðlileg og að þau tengist öldrun, en á hjúkrunarheimilum er algengt að fólk sé með ógreindan kvíða (Kennedy-Malone o.fl., 2019).
Hvers vegna fá aldraðir kvíða?
Það að eldast getur haft margt í för með sér, eins og að missa heilsu, missa maka og nána vini og breytingar verða á heila. Ýmsir nýir streituvaldar fara að hafa áhrif, sjálfstæði minnkar, hræðsla við að detta og brotna og fjárhagsáhyggjur. Þetta getur allt verið orsök fyrir kvíða hjá öldruðum. Margir aldraðir sem fá kvíða hafa verið með kvíða frá yngri árum en hann versnar svo þegar aldurinn færist yfir. Þó fá sumir aldraðir kvíða sem hafa ekki fengið hann áður (Kennedy-Malone o.fl., 2019).
Hvernig greinum við kvíða?
Til að greina kvíða er mikilvægt að hlýða vandlega á sjúkrasöguna. Spyrja þarf út í neyslu koffíns, áfengis og lyfja en óhófleg neysla getur leitt til einkenna sem líkjast kvíða. Taka þarf blóðprufur til að skoða t.d skjaldkirtilsvirkni (Kennedy-Malone o.fl., 2019). Ýmis einkenni þurfa að vera til staðar til að greinast með kvíðaröskun, t.d. mikill kvíði, áhyggjur sem erfitt er að stjórna og svo þurfa að vera a.m.k þrjú önnur einkenni til staðar. Þau einkenni geta verið erfiðleikar við að einbeita sér, pirringur, eirðarleysi, erfiðleikar með svefn, verða oft og auðveldlega þreyttur og vöðvaspenna (Clifford o.fl., 2015). Þegar einhver er með einkenni kvíða eða grunur leikur á kvíða þarf að leggja fyrir hann áreiðanlegan greiningarkvarða til að staðfesta kvíðann og hversu alvarlegur hann er. Til eru margir kvarðar sem hægt er að nota en einn þeirra er Hospital Anxiety and Depression Scale (HADS). Í HADS er spurningarlisti sem er notaður til að skima eftir þunglyndi og kvíða. Þetta er listi með 14 spurningum, 7 tengdar kvíða og 7 tengdar þunglyndi. Hver spurning gefur fjóra svarmöguleika og 0-3 stig. Stigin eru svo tekin saman, þunglyndi sér og kvíði sér. Hægt er að fá minnst 0 stig og mest 21 stig. Því fleiri stig því alvarlegri kvíði eða þunglyndi. Þetta er einfaldur spurningarlisti sem fljótlegt er að leggja fyrir (Breeman o.fl., 2015).
Einnig er til greiningarkvarði sem hentar vel fyrir aldraða en það er Geriatric anxiety Inventory (GAI). GAI var búinn til sérstaklega fyrir aldraða. Hann er mjög einfaldur í notkun, með stuttum og einföldum spurningum. Hann inniheldur 20 spurningar sem er annað hvort svarað með já eða nei. GAI-kvarðinn hentar mjög vel til að greina kvíða hjá öldruðum og hefur reynst vel við gerð rannsókna til að kanna hve kvíði er algengur (Pachana og Byrne, 2012).
Meðferð við kvíða
Lyfjameðferð er oftast fyrsti kosturinn en einnig getur verið gott að nota sálfræðimeðferð eða blanda aðferðunum saman. Hvaða meðferð er notuð fer eftir því hversu alvarlegur kvíðinn er og hvað hentar hverjum og einum. Þegar sett er upp meðferðaráætlun þarf að huga að nokkrum atriðum: hvað vill einstaklingurinn, kostnaður, hvernig virkar meðferðin, aukaverkanir og milliverkanir lyfja (Bandelow o.fl., 2017). Til eru margir meðferðarkostir við kvíða en hér verður fjallað stuttlega um lyfjameðferð og hugræna atferlismeðferð.
Lyfjameðferð
Fara þarf varlega í að setja aldraða á lyf því líkaminn starfar öðruvísi þegar hann eldist, frásog er minna og efnaskipti hægari. Aldraðir eru oft á mörgum lyfjum og því þarf að gæta að milliverkunum. Byrja þarf á litlum skömmtum og fara rólega í að stækka skammta. Gott er að byrja á helmingi þess sem ráðlagt er fyrir fullorðna. Mikilvægt er að vera vel vakandi fyrir aukaverkunum en um 25% -fólks hættir á kvíðalyfjum vegna aukaverkana (Clifford o.fl., 2015; Kennedy-Malone o.fl., 2019).
Algengast er að byrja á SSRI-lyfjum (selective serotonin reuptake inhibitors) en þau virka vel á aldraða. Ef byrjað er á of stórum skammti geta þau aukið einkenni kvíða. Einnig geta þau lækkað natríummagn í blóði og því þarf að vera vakandi fyrir einkennum eins og svima og þreytu. SNRIS-lyf (serotonin-norepinephrine reuptake inhibitors) hafa einnig reynst vel. Ekki er mælt með að nota benzodiazepines-lyf og alls ekki í langan tíma en aldraðir geta verið í fallhættu og truflun getur orðið á vitrænni getu þeirra. Þau gætu þó hjálpað með að brúa bilið þangað til SSRI- eða SNRIS-lyfin byrja að virka. Stundum líða nokkrar vikur þangað til lyfin ná fullri virkni (Andreescu og Varon., 2015; Bandelow o.fl., 2017).
Hugræn atferlismeðferð
Hugræn atferlismeðferð (HAM) hefur góð áhrif á kvíða hjá öldruðum en meðferðin er notuð m.a. við þunglyndi og ýmiss konar kvíðaröskun. Þetta er sálfræðimeðferð sem hefur reynst vel hjá þeim sem eru með kvíða. (Bandelow o.fl., 2017; Dear o.fl., 2015). Áhugi fólks á HAM fer sívaxandi. Meðferðin byggist á því að breyta hugarfari og hegðun sem stuðla að einkennum. Fólk er þjálfað í að takast betur á við áreiti sem veldur einkennum. Notuð eru viðtöl og gerð heimavinna. HAM-meðferð sem er sérstaklega ætluð til að minnka streitu hefur verið notuð hjá öldruðum með góðum árangri og hentar vel þeim sem eru með langvarandi heilsufarsvandamál. Þá er beitt hugleiðslu, öndunaræfingar og jóga. Það hefur sýnt sig að HAM-meðferð meðal aldraðra minnkar kvíða, bætir vitræna getu og dregur úr áhyggjum (Crane o.fl., 2017; Lenze o.fl., 2014). Sálfræðingar og fleiri fagaðilar eru með HAM- námskeið víðs vegar á Íslandi, t.d. á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, en til þess að skrá sig þarf tilvísun frá lækni (Heilsugæslan, e.d.).
Til að meta árangur og bæta batahorfur þarf að gefa hinum aldraða nægan tíma, leyfa honum að tala, sýna honum virðingu og samhug. Það þarf að leyfa honum að spyrja en forðast skal flókin orðasambönd við útskýringar.
Hvernig er árangur metinn?
Til að meta árangur og bæta batahorfur þarf að gefa hinum aldraða nægan tíma, leyfa honum að tala, sýna honum virðingu og samhug. Það þarf að leyfa honum að spyrja en forðast skal flókin orðasambönd við útskýringar. Fylgjast þarf með hvort hinum aldraða líður betur eftir að meðferð hófst og hvort einkenni eru farin að minnka eða jafnvel horfin. Mikilvægt er að einstaklingurinn fái félagslegan stuðning og geti þannig náð betri stjórn á streitu. Fræða þarf hinn aldraða og aðstandendur hans um kvíðann og hvernig best er að stjórna honum. Gott er að afhenda bæklinga með nægilega stóru letri og útskýra þá vel og biðja hinn aldraða um að endurtaka það sem sagt var til að ganga úr skugga um að hann hafi skilið allt (Kennedy-Malone o.fl., 2019).
Lokaorð
Ljóst er að kvíði er algengur hjá öldruðum en oft ómeðhöndlaður. Hann getur aukið hættu á hjarta- og æðasjúkdómum og því er mikilvægt að hann sé greindur og meðhöndlaður. Hjúkrunarfræðingar þurfa að vera vakandi fyrir einkennum kvíða og hverjir eru í meiri hættu en aðrir. Aldraðir eru búnir að reyna ýmislegt í gegnum lífið, eins og ástvinamissi og heilsutap. Við þurfum að gefa okkur tíma í að hlusta og spyrja um líðan. Lyf geta oft hjálpað en það þarf að fylgjast með virkni þeirra á kvíðann, aukaverkunum og milliverkunum. Hugræn atferlismeðferð hefur góð áhrif á aldraða og er mikilvæg fyrir þá sem eru með kvíða og einhvers konar geðröskun. Mikilvægt er að aldraðir hugi að heilsueflingu og kunni að minnka streitu svo að þeir geti notið betri lífsgæða.
Höfundur: Kristrún Anna Skarphéðinsdóttir
*Grein skrifuð undir handleiðslu dr. Ingibjargar Hjaltadóttur sem verkefni í námskeiði um klínísk viðfangsefni í öldrunarhjúkrun við HÍ.
Heimildaskrá
Andreescu, C. og Varon, D. (2015). New research on anxiety disorders in the elderly and an update on evidence-based treatments. Current Psychiatry Reports, 17, (53). doi:10.1007/s11920-015-0595-8
Bandelow, B., Michaelis, S. og Wedekind, D. (2017). Treatment of anxiety disorders. Dialogues Clin Neurosci, 19(2), 93-107.
Breeman, S., Cotton, S., Fielding, S. og Jones, G., T. (2015). Normative data for the hospital anxiety and depression scale. Qual life res, 24, 391-398. doi:10.1007/s11136-014-0763-z
Catuzzy, J. E. og Beck, K. D. (2014). Anxiety vulnerability in women: A two-hit hypothesis. https://doi.org/10.1016/j.expneurol.2014.01.023
Clifford, K., Duncan, N., Heinrich, K. og Shaw, J. (2015). Update on managing generalized anxiety disorder in older adults. Journal of Gerontological Nursing, 41(4), 10-20. doi:10.3928/00989134-20150313-03
Crane, R. S., Brewer, J., Feldman, C., Kabat-Zinn, J., Santorelli, S., Williams, J. M. G. og Kuyken, W. (2017). What defines mindfulness-based programs? The warp and the weft. Psychological Medicine, 47, 990–999. doi:10.1017/S003329171600331
Dear, B. F. Zou, J. B., Ali, S., Lorian, C. N., Johnston, L., Sheehan, L., ...Titov, N. (2015). Clinical and cost-effectiveness of therapist-guided internet-delivered cognitive behavior therapy for older adults with symptoms of anxiety: A randomized controlled trial. Behavior Therapy, 46, 206-217.
Emdin, C. A., Odutayo, A., Wong, C. X., Tran, J., Hsiao, A. J. og Hunn, B. H. (2016). Meta-analysis of anxiety as a risk factor for cardiovascular disease. The American Journal of Cardiology, 118(4), 511-519. doi:10.1016/j.amjcard.2016.05.041
Heilsugæslan (e.d.). Það er engin heilsa án geðheilsu. Hugræn atferlismeðferð-Hópar. Sótt á https://www.heilsugaeslan.is/thjonusta-stodvanna/salfraedithjonusta/#Tab1
Kennedy-Malone, L., Martin-Plank, L. og Duffy, E. G. (2019). Advanced practice nursing in the care of older adults (2. útgáfa). Psychosocial Disorders, 428-468. F.A. Davis Company, Philadelphia.
Lenze, E. J., Hickman, S., Hershey, T., Wendleton, L., Ly, K., Dixon, D. ... Wetherell, J. L. (2014). Mindfulness-based stress reduction for older adults with worry symptoms and co-occurring cognitive dysfunction. International Journal of Geriatric Psychiatry, 29(10), 991-1000. doi:10.1002/gps.4086
Pachana, A. N. og Byrne, J. G. (2012). The Geriatric Anxiety Inventory: International use and future directions. Australian Psychologist, 47, 33-38. doi:10.1111/j.1742-9544.2011.00052.x