Hjukrun.is-print-version

Ritstjóraspjall

2. tbl. 2020
Helga Ólafs

Samvinna og samhugur í verki hefur einkennt undangengna mánuði. Heilbrigðisstarfsfólk víðs vegar um heiminn hefur deilt myndböndum á samfélagsmiðlum af sér að dansa til að létta undir á þessum erfiðu tímum og gleyma sér í smástund. Heilbrigðisstarfsfólk hér á landi lét ekki sitt eftir liggja og fjölmörgum myndum og myndskeiðum var deilt í fjölmiðlum þar sem framlínufólkið okkar tók létt spor í hlífðarbúnaði frá toppi til táar. Dansinn eykur bæði gleði, brýtur upp erfiða vinnudaga og veitir auk þess orku til að komast í gegnum daginn. Og dansandi heilbrigðisstarfsfólk fékk okkur hin sem á horfðu til að brosa.

Vinnuumhverfi heilbrigðisstarfsfólks breyttist dag frá degi og allir lögðust á eitt að læra og aðlagast nýjum verkferlum í áður óþekktum aðstæðum. Samlíking Hrafnhildar Lilju Jónsdóttur, sérfræðings í bráðahjúkrun á Sjúkrahúsinu á Akureyri, um hvernig starfsfólk dansaði sig í gegnum ferlið á svo einkar vel tíðarandann. „Það var bara eins og það hefði verið sett nýtt lag á fóninn sem allir lögðu sig fram við að læra dansinn. Allir lögðu sig fram við að dansa í takt og samvinna allra þessara aðila passaði upp á að allir á ballinu vissu hvaða lag væri í spilun.“

Og það var ekki bara dansað – heldur var lögð hjartalaga lykkja bæði í lofti og á sjó til þess að þakka heilbrigðisstarfsfólki í framlínunni fyrir þeirra störf. Flugvél Icelandair myndaði hjarta yfir höfuðborgarsvæðið á leið sinni til landsins með tugi tonna af lækningavörum. Herjólfur gerði slíkt hið sama á sjóferð sinni. Við hin tjölduðum heima í stofu og sefuðum og hvöttum aðra til að gera slíkt hið sama með söng.

Fyrsta tilfelli covid-19 greindist hér á landi í lok febrúar þessa árs en sá hinn sami var jafnframt fyrstur til að leggjast inn á smitsjúkdómadeild A7 á Landspítala. Inniliggjandi covid-sjúklingum fjölgaði hratt og þegar mest var lágu 14 á deildinni. Sjúklingum fjölgaði á skömmum tíma og þurfti því snör handtök en loka þurfti deildinni fyrir almennar innilagnir. Í þessu tölublaði rekur Berglind Guðrún Chu, sérfræðingur í hjúkrun smitsjúkdóma, sögu fyrstu covid-19 legudeildinnar í máli og myndum og gerir grein fyrir helstu viðfangsefnum sem starfsfólk smitsjúkdómadeildarinnar þurfti að takast á við.

„Seiglan, fagmennskan og samstaðan kom okkur í gegnum þetta,“ segir Fjóla Bjarnadóttir, deildarstjóri hjúkrunarheimilisins Bergs í Bolungarvík, en þriðjungur íbúa fór í sóttkví og yfir 60 veiktust þegar heimsfaraldur covid-19 braut sér leið vestur á firði. Það þurfti því snör handtök en á tveimur dögum var hefðbundnu hjúkrunarheimili breytt í covid-deild. Fjölmargir hjúkrunarfræðingar hafa staðið vaktina í framlínunni undanfarið og þeir brugðust skjótt við í kjölfar þess að Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga auglýsti eftir reynslusögum þeirra. Þessar sögur hafa verið birtar á samfélagsmiðlum félagsins og stiklað á stóru í þessu blaði. Kærar þakkir til ykkar.

Sérstakar þakkir til Þorkels Þorkelssonar, ljósmyndara Landspítala, sem hefur fangað fólkið í framlínunni á filmu og fyrir að veita okkur leyfi til að nota þessa glæsilegu ljósmynd eftir hann til að prýða forsíðuna.

Félagið

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála