Hjukrun.is-print-version

Smitsjúkdómar í áranna rás

2. tbl. 2020
Christer Magnusson

Nú þegar heimsfaraldur geisar er tækifæri til að minna á að smitsjúkdómar hafa fylgt okkur alla tíð. Félagsleg og hagfræðileg áhrif hafa sett sín spor á heimssöguna. Eftir að bólusetningar og sýklalyf komu til sögunnar hafa aðrir sjúkdómar orðið meira í brennidepli en smit milli manna er áfram stórt heilbrigðisvandamál og ekki síst þar sem samgöngur hafa stóraukist. Christer Magnusson rifjar upp nokkrar pestir sem herjað hafa á mannkynið. Sumar þeirra eru nú gleymdar en kannski ekki alltaf alveg geymdar.

Helmingur landsmanna féll í svartadauða

Svartidauði, kannski best þekkti faraldur sögunnar, herjaði í Evrópu um miðja fjórtándu öld en kom fyrst til Íslands 1402. Fræðimenn telja að í það minnsta um helmingur íbúa Íslands hafi látist af völdum hans þá. Pestin kom svo aftur tæpri öld síðar og var jafn skæð þá. Hagfræðiáhrifin munu hafa verið gífurleg en mörg býli lögðust í eyði og fiskútflutningur stórminnkaði. Sökudólgurinn er bakterían Yersinia pestis. Vegna verslunartengsla við Asíu varð pestin mjög slæm á Ítalíu en hugsanlega hafi þrír fjórðu íbúa látist þar. Frægar eru grímurnar sem læknar fóru að bera og við notum nú á grímuböllum. Svartidauði hefur líklega verið álíka smitandi og COVID-19 en í báðum sjúkdómum er stutt á milli smits og veikinda.

Reyndar á Yersinia pestis líklega sök á flestum andlátum í sögu smitsjúkdóma í heiminum. Á árunum 541-542 gekk slík pest yfir Tyrkland og Austur-Miðjarðarhafssvæðið og kom svo aftur í bylgjum næstu tvö hundruð árin. Talið er að látist hafi allt að 50 milljónir þessi ár og hugsanlega 200 milljónir í svartadauða á fjórtándu og fimmtándu öld. Tala látinna í þessum tveimur faröldrum á síðmiðöldum gæti því verið allt að 250 milljónir. Áhrif þessa faraldra á sögu Evrópu hafa verið gífurleg.

Bólusetning fyrst notuð við bólusótt

Bólusótt var mjög skæður sjúkdómur af völdum veirunnar Variola. Dánartíðnin var mjög há og margir þeirra sem lifðu af urðu alsettir örum. Veikin hefur nokkrum sinnum náð til Íslands, sérstaklega 1707-1709 þegar um 17.000 manns létust. Í Evrópu lést fjöldi manns árlega og smám saman byggðist upp ákveðið hjarðónæmi, jafnvel áður en byrjað var að bólusetja. Orðið bólusetning vísar til þess að aðferðin var fyrst notuð við bólusótt. Enska orðið vaccination er komið til af því að upphaflega var notaður vessi úr kúabólu sem er skyldur sjúkdómur í kúm og myndar ónæmi fyrir bólusótt. Latneska orðið vaccinus þýðir „úr kúm“. Sjúkdómurinn var óþekktur í Ameríku áður en hvíti maðurinn kom þangað og því ekkert ónæmi til staðar. Gert er ráð fyrir að um 90% af frumbyggjum Ameríku hafi látist úr bólusótt og hún þannig aðstoðað nýlendumenn við að leggja undir sig heimsálfuna. Sjúkdómurinn telst endanlega horfinn síðan 1977 eftir stórátak Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

Sullaveiki var útbreiddur sjúkdómur í íslenskum sveitum

Sullaveiki var mjög útbreiddur sjúkdómur á sveitabæjum en er nú talinn upprættur á Íslandi. Latneska heitið er echinococcosis og skaðvaldurinn er bandormur af nokkrum tegundum. Egg ormsins berast úr hundum og sauðfé en orma er helst að finna í lifrinni og stundum í lungum og heila. Þar myndast vökvablöðrur sem voru kallaðar sullur. Stórt átak var gert seinnipart nítjándu aldar við að kenna og upplýsa bændur og halda hundum frá við slátrun og stórminnkaði það nýgengi sjúkdómsins. Orminum hefur þó ekki verið útrýmt og geta því tilfelli komið upp ef hreinlætis er ekki gætt.

Holdsveiki var landlægur sjúkdómur í nokkrar aldir

Annar sjúkdómur, sem var landlægur á Íslandi í nokkrar aldir, er holdsveiki. Byrjað var að takast á við hann að krafti á sama tíma og baráttan hófst við sullaveiki. Meinvaldurinn er bakterían Mycobacterium leprae en hún er í sömu ætt og berklabakterían. Hún er ekki bráðsmitandi og meðgöngutíminn er talinn í árum. Sjúkdómurinn veldur skemmdum í taugum og á útlimum, t.d. á fingrum, og andliti, t.d. nefi. Auðvelt var því að sjá hverjir voru veikir og voru þeir útskúfaðir og settir í einangrun. Fyrir tilstilli Oddfellow-reglunnar í Danmörku var 1898 reistur holdsveikraspítali í Laugarnesi og var holdsveikum safnað saman um allt land og þeir sendir í Laugarnes. Þangað kom frá Danmörku Christophine Bjarnhéðinsson, fyrsta lærða hjúkrunarkonan á Íslandi og síðar formaður Félags íslenskra hjúkrunarkvenna. Í Laugarnesi var veitt hjúkrun og meðferð eftir föngum og fjörutíu árum seinna voru mjög fáir holdsveikir eftir á Íslandi.

Spænska veikin talin hafa borist með bandarískum hermönnum

Holdsveiki olli ekki faraldri en tuttugu árum eftir að Laugarnesspítali var byggður kom annar mjög skæður faraldur til Íslands. Sjúkdómurinn fékk nafnið spænska veikin þó að talið sé að hann hafi átt upptök sín í Bandaríkjunum og komið til Evrópu með bandarískum hermönnum. Ítarlega hefur verið fjallað um þennan faraldur í Tímariti hjúkrunarfræðinga. Á heimsvísu létust um 50 milljón manns 1918-1919. Spænska veikin var óvenjuskæð flensa en inflúensa hefur lengi verið árlegur viðburður.
Svokölluð svínaflensa, sem herjaði 2009, var af sömu undirtegund og spænska veikin, en meinvaldar Hong Kong-flensunnar 1968-1970 og Asíu-flensunnar 1957-1958 voru aðeins öðruvísi veirur. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælir nú gegn því að heimsfaröldrum séu gefin nöfn eftir staðarheitum þannig að allar þessar flensur hafa nöfn sem vísa í veiruafbrigði og stundum ártöl, líkt og COVID-19.

Á sama tíma og byrjað var að taka holdsveiki föstum tökum áttuðu menn sig á að gera þurfti það sama við annan bakteríusjúkdóm. Sama ár og Laugarnesspítali tók til starfa kom út bæklingur um berklaveiki og fimm árum seinna voru sett lög um sjúkdóminn og í framhaldinu reglugerð með ýmsum ákvæðum um hreinlæti og einangrun.
Á sama tíma og byrjað var að taka holdsveiki föstum tökum áttuðu menn sig á að gera þurfti það sama við annan bakteríusjúkdóm. Sama ár og Laugarnesspítali tók til starfa kom út bæklingur um berklaveiki og fimm árum seinna voru sett lög um sjúkdóminn og í framhaldinu reglugerð með ýmsum ákvæðum um hreinlæti og einangrun. Byggð voru berklahæli og smám saman fjölgaði meðferðarúrræðum þó að lyf gegn Mycobacterium tuberculosis hafi ekki komið að gagni fyrr en upp úr 1940. Menn telja að berklar hafi verið til á Íslandi frá landnámi en að sjúkdómurinn hafi verið frekar fátíður þangað til fólk fór að búa þröngt í þorpum og sjávarplássum. Frá um 1880 og fram undir 1940 má tala um faraldsfræðilega útbreiðslu þó að aukninguna megi að einhverju leyti rekja til bættrar skráningar. Um 1930 voru um 20% dauðsfalla vegna berklaveikinnar. Berklastöð Líknar frá 1919 (rekin af hjúkrunarkonum), ný berklaverndarlög 1921 og endurskipulagning berklavarna 1935 áttu stóran stóran þátt í að hægja á og smám saman stöðva útbreiðsluna.

Bakteríusýkingar eins og kólera valda núorðið síður heimsfaröldrum þó að þær geti verið landlægar. Í staðinn hafa komið fram nýar veirusýkingar. Upp úr 1980 greindist veira sem svo fékk nafnið HIV. Hún eyðileggur ónæmiskerfið og veldur smám saman alnæmi en nú hafa 32 milljónir manna látist af völdum sjúkdómsins. Hann er ólæknanlegur og ómeðhöndlaður leiðir hann til dauða en nú eru til lyf sem halda veirunni í skefjum. Fyrir tæpum tuttugu árum kom svo fram stuttur heimsfaraldur kallaður SARS og tíu árum seinna annar undir heitinu MERS. Báðir þessir sjúkdómar eru af völdum kórónuveira eins og COVID-19.

Þegar yfirstandandi covid-faraldur hefur rénað höfum við lært margt nýtt um hvernig veirur hegða sér og getum vonandi nýtt þessa þekkingu til þess að vera betur undirbúin næst. Þó að okkur takist að búa til bóluefni við þessari sótt þá munu koma nýjar sóttir. Því megum við ekki sofna á verðinum.

Mislingar bráðsmitandi veirusjúkdómur

Mislingar eru vel þekktur veirusjúkdómur sem nánast hefur tekist að útrýma í Evrópu og ætti að vera hægt að útrýma á heimsvísu. Á seinni árum hefur tilfellum því miður fjölgað þar sem æ fleiri foreldrar telja það óþarfa eða óæskilegt að láta bólusetja börnin sín. Mislingar eru bráðsmitandi og því þarf mikið hjarðónæmi til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu en það gerðist til dæmis á Íslandi í fyrra að mislingar smituðust út fyrir fjölskyldu. Mislingaveiki veldur langverandi truflun á ónæmiskerfinu og gæti því mislingasmit hugsanlega verið áhættuþáttur fyrir COVID-19.

Þegar yfirstandandi covid-faraldur hefur rénað höfum við lært margt nýtt um hvernig veirur hegða sér og getum vonandi nýtt þessa þekkingu til þess að vera betur undirbúin næst. Þó að okkur takist að búa til bóluefni við þessari sótt þá munu koma nýjar sóttir. Því megum við ekki sofna á verðinum.

Höfundur: Christer Magnusson


Pistlar og viðtöl

Saga

Sjúkdómar

Sýkingar og smit

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála