Hjukrun.is-print-version

Tæpitungulaust: Ekki slaka á kröfunum

2. tbl. 2020
Steinunn Ólína Thorsteinsson

Í meira en áratug hefur almenningur á Íslandi horft upp á baráttu heilbrigðisstétta fyrir bættum kjörum og viðunandi vinnuaðstæðum. Andspyrna stjórnvalda hefur verið með ólíkindum. Kröfum starfsfólks hefur verið mætt af skilningsleysi, niðurskurður hefur verið með þeim endemum að eftir standa ófyllt göt sem hafa sýnilega komið niður á starfsþreki heilbrigðisstarfsfólks og lýðheilsu almennings. Starfsfólk bráðamóttöku hefur því miður oft og tíðum þurft að taka svo djúpt í árinni að líkja ástandi á spítalanum við stríðsástand án þess að við því sé brugðist af stjórnvöldum. Maður hefur óneitanlega spurt sig hvað þurfi að ganga á til að hlustað verði á fólkið á bráðamóttöku og annað heilbrigðisstarfsfólk til þess að það geti leyst sín störf sem best af hendi? Nú vitum við það.

„Ég endurtek: Það þurfti alheimskrísu til að ýta við ráðamönnum – sem staðfestir að skilningur á mikilvægi heilbrigðisstétta er alla jafna lítill og að metnaður til að hafa hér ríkisrekið heilbrigðiskerfi á heimsmælikvarða að sama skapi lítill.“
Það þurfti alheimskrísu, áður óþekkta vá, til að stjórnvöldum fyndist tilefni til að skapa viðunandi vinnuaðstæður. Fyrr skelltu ráðamenn við skollaeyrum. Ég endurtek: Það þurfti alheimskrísu til að ýta við ráðamönnum – sem staðfestir að skilningur á mikilvægi heilbrigðisstétta er alla jafna lítill og að metnaður til að hafa hér ríkisrekið heilbrigðiskerfi á heimsmælikvarða að sama skapi lítill. Í alheimskrísunni hinni nýju kom loks annað hljóð í strokkinn. Með einu pennastriki ráðherra reyndist unnt að létta álagi af bráðamóttökunni svo um munaði. Gleymum ekki að starfsfólk bráðamóttöku hafði líkt og hrópað í eyðimörkinni í fleiri ár. Við munum öll fyrirsagnir blaða og andlit þeirra sem léðu baráttunni lið.

En hvernig verður svo framhaldið? Fer nú allt aftur í samt horf? Og hvernig má koma í veg fyrir það? Það mun tíminn leiða í ljós og mikilvægt er að almenningur fái að fylgjast grannt með stöðunni. Öllum er nú vonandi ljóst hversu mikilvægt það er að hafa heilbrigðiskerfi sem treystandi er á, opinbert ríkisrekið heilbrigðiskerfi sem allir geta leitað til. Þegar aðstæður eru skyndilega fordæmalausar þarf að bregðast við með nýjum aðferðum og lausnum sem voru óhugsandi áður og það gerði starfsfólk Landspítala með eftirminnilegum hætti. Það var aðdáunarvert að fylgjast með því grettistaki sem starfsfólk Landspítalans lyfti í glímunni við covid-19.

… og bakvarðasveitin var yfirfull af frábæru fólki sem lagði líka allt í sölurnar

Þar sannaðist enn og aftur að við eigum afburðaheilbrigðisstarfsfólk sem er ekki bara ósérhlífið og vel menntað heldur einnig hugmyndaríkt og skapandi er kemur að praktískum úrlausnarefnum. Á örfáum dögum var Landspítalinn endurskipulagður og útbúinn til að mæta þessum óvænta vágesti. Bráðamóttaka var endurskipulögð, covid-göngudeild útbúin, viðbótarstarfsfólk ráðið, her hjúkrunarfræðinga og lækna fenginn til að sinna eftirliti sjúklinga sem voru heima í einangrun og sóttkví, bæði með heimsóknum og símtölum. Og bakvarðasveitin var yfirfull af frábæru fólki sem lagði líka allt í sölurnar. Heilbrigðisstarfsfólk margt hvert lagði það á sig fyrir þjóðina að vera heiman frá sér um lengri eða skemmri tíma, neita sér um samvistir við annað fólk utan vinnu og jafnvel einangra sig til að geta sinnt starfi sínu fullfrískt og tilbúið í slaginn.

Það þarf einstaka hæfileika til að standa í fæturna þegar alger óvissa ríkir og allt getur breyst dag frá degi. Það reyndi almenningur á eigin skinni í skugga veirufaraldurins. Óvæntar heilsufarslegar áhyggjur og afkomuáhyggjur leggjast þungt á fólk og heilbrigðisstarfsfólk örugglega ekki búið að bíta úr nálinni með þau eftirköst sem veirufaraldurinn mun án efa framkalla. Það á ekki síst við um hinar sálrænu hliðar og andlega aðhlynningu.

Hjúkrunarfræðingar þurfa að nýta sér slagkraft almennings sem hefur nú betur en nokkru sinni fyrr skilning á mikilvægi þess að á Íslandi sé rekið gott og stöðugt heilbrigðiskerfi, heilbrigðiskerfi sem getur boðið besta fólkinu vinnu á mannsæmandi launum.
Ég þykist vita að óvissa einkenni veruleika heilbrigðisstarfsfólks, alla daga ársins. Hver einasti dagur í lífi hjúkrunarfræðings er óskrifað blað og alltaf þarf viðkomandi að vera búinn undir hið óvænta, erfiða og illskiljanlega. Hjúkrunarfræðingar þurfa auk menntunar sinnar að hafa ríkulegt innsæi, hæfni í mannlegum samskiptum, viðbragðsflýti og fumlaust fas, það eru engar smávegis kröfur. Það er mikilvægt að samtal það sem óhjákvæmilega verður að fara fram á milli heilbrigðisstarfsfólks og stjórnvalda haldi áfram. Krafturinn sem leystist úr læðingi þegar allir lögðust saman á árar til að tryggja heilbrigði landsmanna má ekki bara verða fölnuð endurminning.

Það kom ýmsum á óvart að hjúkrunarfræðingar skyldu fella síðasta kjarasamning. Ástæðan er kannski sú að almenningur í landinu er ekki nægjanlega upplýstur um ágreiningsefni og baráttumál. Hjúkrunarfræðingar þurfa að nýta sér slagkraft almennings sem hefur nú betur en nokkru sinni fyrr skilning á mikilvægi þess að á Íslandi sé rekið gott og stöðugt heilbrigðiskerfi, heilbrigðiskerfi sem getur boðið besta fólkinu vinnu á mannsæmandi launum. Mál er að linni og ég hvet ykkur til að hafa hátt og berjast áfram fyrir réttindum ykkar. Forystu ykkar ætti einnig að senda skýr skilaboð um að kjarasamningar eru ekkert leyndarmál. Umræða um kjaramál á alltaf að vera uppi á borðum.

Baráttukveðjur,
Steinunn Ólína

Pistlar og viðtöl

Kjör

Mönnunarmál

Stjórnvöld

Vinnumarkaður

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála