Hjukrun.is-print-version

„Það er sko miklu erfiðara að komast þaðan aftur en að lenda þar“

2. tbl. 2020
Umfjöllun um bókina Konan sem datt upp stigann

Hjúkrun tekur toll af hverri manneskju líkt og önnur störf sem snúa að umönnun, aðstoð og kennslu. Að hafa valið þann vettvang að ævistarfi var dýru verði keypt hjá Ingu Dagnýju Eydal hjúkrunarfræðingi en hún lagði allan sinn metnað í starfið þar til að því kom hún þoldi ekki meira. „Það var eitthvað sem brast og ég gat bara ekki hætt að gráta,“ rifjar hún upp. Síðan eru liðin fjögur ár. Hún lýsir reynslu sinni af því að örmagnast í nýúkominni bók hennar sem ber titilinn Konan sem datt upp stigann og er bókin byggð að hluta til á dagbókarskrifum hennar.

Gafst upp á sálinni og líkaminn á eiganda sínum

Bókin er persónuleg reynslusaga hennar af því að örmagnast. Inga hefur í nokkur ár glímt við afleiðingar þess að hafa veikst af of mikilli streitu sem olli því að hún getur ekki stundað fasta vinnu en í áratugi gegndi hún erilsömu starfi sem hjúkrunarfræðingur. „Um miðjan mars gafst ég upp. Ég gafst svo rækilega upp í sálinni og líkaminn á eiganda sínum að ég hef ekki borið mitt barr síðan og líf mitt hefur breyst rækilega á öllum sviðum,“ skrifar hún í dagbók sína sumarið 2016. Hún hafði gegnt yfirmannsstöðu í heilbrigðiskerfinu undanfarin fjögur ár. Starfið tók oft á og ekki síst starfsmannamálin en vinnustaðurinn, sem var kvennavinnustaður, hafði á að skipa hörkuduglegum og ákveðnum starfsmönnum.

„Ég var þó ekki bangin, hafði gegnt yfirmannsstöðu áður og verið farsæl í starfi og hafði óbilandi trú á að einlægni og vinsemd myndi skila mér góðu samstarfi. Ég man vel eftir athugasemd frá kollega innan stofnunarinnar þegar hún sagðist vera svo glöð yfir því að ég hefði tekið þetta starf að mér þar sem ég væri „svo mikill nagli“. Ég var ákaflega hissa á því að einhverjum dytti í hug að ég væri „nagli“, vissi vel að ég var fremur viðkvæm manneskja og stundum ofurviðkvæm.“

„Við erum misjöfn manneskjurnar og það sem einn þolir vel brýtur einhvern annan,“ segir hún, en í bókinni lítur hún yfir farinn veg og fjallar á einlægan hátt um áföll sem hún og fjölskylda hennar gengu í gegnum.
Inga segir, að alla sína ævi hafi fólk haft á því miklar skoðanir hvernig hún ætti að vera og hvað væri henni fyrir bestu. „Ég hef áreiðanlega kynt undir því með óöryggi og sterkri löngun til að gera fólkið í kringum mig ánægt,“ segir hún. „Við erum misjöfn manneskjurnar og það sem einn þolir vel brýtur einhvern annan,“ segir hún, en í bókinni lítur hún yfir farinn veg og fjallar á einlægan hátt um áföll sem hún og fjölskylda hennar gengu í gegnum.

Það sem einn þolir vel brýtur annan

„Langvarandi álag í persónulegu lífi getur grafið undan andlegri og líkamlegri heilsu á þann hátt að þegar síðan álag í vinnunni bætist við getur kerfið hrunið þannig að skaðinn verði ekki bættur með vikufríi og hvíld. Jafnvel ekki í fríi hjá mömmu!“ skrifar hún og bætir við: „Það að vera leiður í vinnunni sinni, haldinn mikilli og langvarandi streitu, verða fyrir miklum áföllum, hvílast ekki nægilega vel, allt eru þetta þættir sem geta leitt til sjúkdómsástandsins sem þekkt er sem kulnun,“ segir Inga. Sú tilhneiging að hafa allt of mörg járn í eldinum, fara hratt yfir sögu lífsins og hvílast lítið, þetta er auðvitað uppskrift að því að örmagnast eða jafnvel veikja ónæmiskerfið á þann hátt að fólk fái banvæna sjúkdóma,“ segir hún enn fremur.

„Ég gæti skrifað langan pistil um nauðsyn þess að vera vel á verði gagnvart einkennum um að slík veikindi geti verið yfirvofandi. Þau þurfa ekki endilega að tengjast vinnu en gera það gjarnan. Aðdragandinn er oft langur og það þarf að fræða alla um þær leiðir sem fyrirfinnast til að varast alvarleg veikindi. Sem hjúkrunarfræðingur og yfirmaður á vinnustað þekki ég slík einkenni vel en trúði því að sjálfsögðu ekki að þau gætu átt við mig sjálfa. Ég gerði jú meiri kröfur til mín en svo. Kannski liggur hundurinn einmitt grafinn þar. „Kona þarf að vera duglegri,“ eins og verðlaunahönnunin í hönnunarsamkeppni Strætó benti á – og við reynum „að vera bara duglegri“ við svo ótal margt (meistaranám með fullri vinnu er normið í dag). En það býður heim hættunni á að kona fari í þrot. Og það er sko miklu erfiðara að komast þaðan aftur en að lenda þar.“

Inga átti nokkuð stormasamt samband við sína streitu, hún þreytti hana og tærði en hún var líka svolítið eins og gott örvandi lyf, segir hún, „og ég leyfði henni að fleyta mér áfram á tvöföldum hraða í gegnum lífið, allt of lengi. Ég lét minn metnað, fullkomnunaráráttu og kvíða, bera mig hratt og örugglega fram af brúninni. Og það er sko miklu erfiðara að komast þaðan aftur en að lenda þar.“
Í bókinni ræðir hún um kulnun og örmögnun, og leitar skýringa á hvað í því felst að verða fyrir kulnun og hugsanlegar leiðir til bata. Inga Dagný fjallar um aðdragandann að því að hún kulnaði eða hreinlega örmagnaðist. Það geti átt sér mislangan aðdraganda og það geti verið flókið að finna út úr því hvenær fólk byrjar að missa tökin. „Ég skildi þetta með að vera alltaf þreytt og ég vissi hvað kulnun þýddi, það var hluti af því sem ég átti að þekkja sem stjórnandi á vinnustað. En ég skildi alls ekki hvernig það gat gert einhvern svona veikan. Ég skildi ekki hvernig kvíðinn tengdist kulnun og ég skildi ekki hvernig það gat ekki verið bara nóg að taka sér frí eða skipta um starf.“ Aðdragandinn að því að slíkt ástand verði daglegur veruleiki geti verið langur og það sé alltaf freistandi að draga það aðeins á langinn að hvíla sig eða breyta aðstæðum sínum þannig að streitan sé ekki ófrávíkjanlegur förunautur alla daga. Inga átti nokkuð stormasamt samband við sína streitu, hún þreytti hana og tærði en hún var líka svolítið eins og gott örvandi lyf segir hún, „og ég leyfði henni að fleyta mér áfram á tvöföldum hraða í gegnum lífið, allt of lengi. Ég lét minn metnað, fullkomnunaráráttu og kvíða, bera mig hratt og örugglega fram af brúninni. Og það er sko miklu erfiðara að komast þaðan aftur en að lenda þar.“

Fordómar og hugtakaruglingur einkennir umræðuna

Vandinn er sá að eins og títt er um ástand sem er óáþreifanlegt þá eru ekki til traustar skilgreiningar á því. Fordómarnir eru miklir og hugtakaruglingur einkennir umræðuna, skrifar hún. Það að langvarandi og neikvæð streita verði að kulnun er ekki fullgild sjúkdómsgreining á Íslandi og þrátt fyrir að læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk bæði þekki og viðurkenni sjúkdómsástandið sem slíkt, segir Inga, „þá eru notaðar aðrar greiningar, svo sem kvíða- eða streituröskun.“ Þá er farið að rugla saman því að vera leiður á vinnunni sinni eða þreyttur á of mikilli vinnu og því að verða veikur af kulnun – „slíkt gerist þegar umræðan um vandamálið eykst. Það að vera leiður í vinnunni sinni, haldinn mikilli og langvarandi streitu, verða fyrir miklum áföllum, hvílast ekki nægilega vel, allt eru þetta þættir sem geta leitt til sjúkdómsástandsins sem þekkt er sem kulnun.“

Það dylst engum mikilvægi þess að greina einkenni kulnunar snemma til að ná skjótum bata sem og að koma í veg fyrir sjúklega streitu. Hún rifjar það upp að hafa brugðið allverulega þegar hún las grein eftir Ólaf Þór Ævarsson geðlækni en hann er einn þeirra sem hafa skrifað mikið um sjúklega streitu og vísar þá til þeirrar greiningartækni sem notuð er í sænska heilbrigðiskerfinu. „Þarna voru einkennin mín komin og ekki lengur bara þegar ég var óvenju þreytt,“ segir hún en hann lýsir einkennum þannig: „Hamlandi ofurþreyta með minnkuðu frumkvæði, skorti á úthaldi eða óeðlilega mikilli þörf fyrir hvíld. Vitrænar truflanir með minnistruflunum og skertri einbeitingu eru mjög áberandi. Lækkað álagsþol. Tilfinningalegt ójafnvægi eða pirringur. Svefntruflanir. Truflandi líkamleg einkenni eins og stoðkerfisverkir, hjartsláttaróþægindi, meltingartruflanir, svimi og viðkvæmni fyrir hávaða og áreiti (bls. 127).“

Aldrei aftur óþægilegir skór og ekki drekka vont kaffi

Inga Dagný fer ekkert í grafgötur með hve mikið þetta ferli hefur tekið á hana. „Það að missa starfsorkuna, svo ég tali nú ekki um þá félagslegu og fjárhagslegu stöðu sem starfið gefur, er erfitt. Það að finnast maður ekki vera fullgildur þjóðfélagsþegn er erfitt og að horfa á eftir reynslu sinni og hæfni er erfitt.“ Það er á ábyrgð samfélagsins, skrifar hún, og þeirra sem fara með völd hverju sinni að skapa mannvænlegt samfélag. Það er samfélag þar sem vellíðan og hamingja þegnanna fær ekki minni sess en peningar, samkeppni og hraði. Það er samfélag sem fræðir ungt fólk um andlega og líkamlega velferð og styrkir mótstöðu þess gegn streitu og græðgi. Henni finnst umhugsunarverð hve mikil áhersla er lögð á árangursmiðað samfélag og að lífsóskalistinn sé jafn árangursmiðaður og flest annað sem við tökum okkur fyrir hendur og snúist um mælanleg afrek af ýmsu tagi. Hún gerði sinn lífsóskalista um það sem hún ætlar ekki að gera eða að minnsta kosti að gera heiðarlega tilraun til að draga úr. Á listanum kemur fram að hún ætli ekki að ganga í óþægilegum skóm, ekki að þagga niður innsæi og betri vitund, ekki drekka vont kaffi, ekki kvarta yfir veðrinu, ekki sleppa tækifærum til að ferðast, ekki halda í dauða hluti – elska frekar upplifanir, fólk, dýr og blóm, ekki gera lítið úr eigin tilfinningum og annarra, ekki láta fram hjá sér fara tækifæri til að verja þá sem minna mega sín og ekki taka þátt í illu umtali og aldrei, aldrei leggja neinn í einelti.

„Ég trúi því að ég hefði dáið, ef ekki líkamlega þá að minnsta kosti andlega, hefði ég ekki farið í þrot og að ég sé vel stödd miðað við það sem hefði getað orðið. Að hafa glatað svo stórum hluta af því sem mótaði mig í augum annarra gefur mér möguleika á því að byrja aftur með hreint borð. Nú get ég orðið eins og ég sjálf kýs að vera og það er þó nokkuð!“
Líf hennar hefur tekið stakkaskiptum og hún þarf sífellt að vera á varðbergi að fara sér hægt. „Hvað mig sjálfa varðar þá snýst líf mitt enn þá um það að reyna að koma einhverjum böndum á sjálfa mig. Fyrir utan kvíðann, sem er órökréttur og tekur ótrúlega mikla orku á hverjum degi, þá snýst líf mitt um það að hlaupa ekki of hratt. Jafnvel þótt heimurinn hafi minnkað niður í það að vera innan veggja heimilisins og hafa fáum skyldum að gegna hef ég endalausa tilhneigingu til að búa til fleiri kröfur, meiri kröfur, kröfur um fullkomnun og ég þarf alltaf að vera á varðbergi gagnvart því. Orkan sem áður var nægilega mikil til að bruna í gegnum dagana leyfir nú ekki meira en að dóla í rólegheitum, allt sem er utan þess kostar hvíld og tíma til að ná jafnvægi aftur.“

„Ég trúi því að ég hefði dáið, ef ekki líkamlega þá að minnsta kosti andlega, hefði ég ekki farið í þrot og að ég sé vel stödd miðað við það sem hefði getað orðið. Að hafa glatað svo stórum hluta af því sem mótaði mig í augum annarra gefur mér möguleika á því að byrja aftur með hreint borð. Nú get ég orðið eins og ég sjálf kýs að vera og það er þó nokkuð!“

Bókin Konan sem datt upp stigann er einlæg og átakanleg reynslusaga Ingu Dagnýjar Eydal af því að lenda í kulnun og um leiðina til baka. - Helga Ólafs tók saman. 

Pistlar og viðtöl

Endurhæfing

Forvarnir og fræðsla

Geðrækt

Lífsstíll

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála