Fólk er líkamlega og andlega þreytt eftir langvarandi álag
3. tbl. 2020
- Viðtal við Ragnheiði Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóra hjúkrunar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
Gríðarlegt álag hefur verið á starfsfólki Heilsugæslu höfuðborgarinnar vegna covid-19 þar sem allir hlaupa hratt og gera sig best til að ná að halda utan um ástandið og sinna sínum skjólstæðingum á sem allra bestan hátt. Það eru margar spurningar sem vakna á þessum dæmalausu tímum í mannkynssögunni þar sem óþekkt veira herjar á meira og minni alla heimsbyggðina. En ef við snúum okkur að hjúkrun og starfsemi heilsugæslunnar í höfuðborginni þá er engin betri til svara en Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Gefum henni orðið.
„Þetta er nýr veruleiki sem ekkert okkar hefur lifað áður, því finnum við fyrir mikilli upplýsingaþörf hjá almenningi. Fólk er óöruggt og vill komast í tengingu við heilbrigðiskerfið. Það vill fá upplýsingar en einnig tryggingu fyrir að það sé að gera rétt.“
Ófyrirsjáanleikinn er erfiðastur
„Þetta er eitt stærsta og flóknasta verkefni sem ég hef tekið þátt í. Ófyrirsjáanleikinn er erfiðastur og ég fyllist undrun á hverjum degi yfir því hvernig allir ná að leggja saman til að marka nýjan veg. Það besta við svona stór verkefni er að maður sér girðingarnar hverfa og fullt af nýjum brúm verða til og ég vona að það verði lærdómur sem við tökum með okkur inn í framtíðina,“ segir Ragnheiður og bætir strax við: „Þetta er nýr veruleiki sem ekkert okkar hefur lifað áður, því finnum við fyrir mikilli upplýsingaþörf hjá almenningi. Fólk er óöruggt og vill komast í tengingu við heilbrigðiskerfið. Það vill fá upplýsingar en einnig tryggingu fyrir að það sé að gera rétt. Það hefur því verið stórt hlutverk hjúkrunarfræðinga að sinna þessari upplýsingagjöf, bæði í gegnum síma og netspjall. Þegar almannavarnastigið fór upp á neyðarstig í vor fengum við til dæmis alla skólahjúkrunarfræðingana til að koma í þessa upplýsingagjöf ásamt öllum hjúkrunarfræðingum sem voru í einhverjum öðrum verkefnum.“Öryggisverðir þjálfaðir í Leifsstöð
Ragnheiður segir að þegar hún horfi til baka þá hafi maímánuður verið nokkuð góður enda hafa allt verið komið í nokkuð fastar skorður og stjórnendur hafi lagt áherslu á að reyna að koma hefðbundinni heilsugæslustarfsemi aftur í gang. En þá kom næsta verkefni sem var að opna landið með landamæraskimun í Leifsstöð. Það verkefni byrjaði 15. júní. „Undirbúningstíminn eins og áður var ævintýralega stuttur. Heilbrigðisstarfsfólk var sú starfsstétt sem lá alls ekki á lausu. Því var úr vöndu að ráða því við sáum fyrir að við þyrftum mikinn mannafla, nær allan sólarhringinn. Þá var brugðið á það ráð að fá öryggisverði sem störfuðu á flugvellinum til að aðstoða okkur. Þeir voru þjálfaðir upp og unnu undir handleiðslu hjúkrunarfræðinga og lækna. Þetta var að sjálfsögðu umdeilt en þótti þó skynsamlegra heldur en að draga úr heilbrigðisþjónustu á öðrum stöðum. Á þessum tíma hafði Hjúkrunarfélagið einnig boðað til verkfalls og þá leit þetta ekki vel út, eins og við værum að bralla einhver undanbrögð og fá fólk til að ganga í störf hjúkrunarfræðinga en sú var alls ekki raunin,“ segir Ragnheiður og dæsir. Hún segir að sumarið hafi síðan gengið þokkalega, margir hafi tekið þátt í landamæraverkefnunum, bæði opinberir aðilar og einkaaðilar. „Það var því oft töluverð spenna í loftinu þegar allir þurftu að koma sér saman um verklag og leiðir,“ segir hún.Allt hrátt og frekar óvistlegt
Þegar hér var komið sögu var ákveðið að hafa tvöfalda landamæraskimun og skima alla aftur eftir 5 daga; þá var Suðurlandsbrautin opnuð. „Þarna var autt og yfirgefið hús fengið að láni og starfsemin kýld í gang. Ekkert fansí, allt hrátt og frekar óvistlegt, en það varð bara svo að vera, „the show must go on,“ segir Ragnheiður brosandi. Starfsfólk frá Öryggismiðstöðinni kom með starfsfólkinu á Suðurlandsbrautina og hefur starfað þar með því, hjúkrunarfræðingum og læknum.Ragnheiður segir að þegar önnur bylgjan hafi riðið yfir hafi hún og aðrir stjórnendur séð að heilsugæslustöðvarnar voru orðnar undirlagðar í covid-erindum. Símarnir voru rauðglóandi og mikil starfsemi í sýnatökum. Því hafi verið ljóst að ef heilsugæslan ætlaði að halda uppi hefðbundinni starfsemi þyrfti að losna við covid sem mest út af stöðvunum.
Símarnir rauðglóandi
Ragnheiður segir að þegar önnur bylgjan hafi riðið yfir hafi hún og aðrir stjórnendur séð að heilsugæslustöðvarnar voru orðnar undirlagðar í covid-erindum. Símarnir voru rauðglóandi og mikil starfsemi í sýnatökum. Því hafi verið ljóst að ef heilsugæslan ætlaði að halda uppi hefðbundinni starfsemi þyrfti að losna við covid sem mest út af stöðvunum. „Því var ákveðið að færa alla einkennasýnatökuna á Suðurlandsbrautina og framkvæma hana í tjaldi þar fyrir utan. Sýni voru tekin úr fólki í bílum. En þegar á leið og veturinn nálgaðist sáum við að þetta gæti ekki gengið til lengdar og tókum þá undir okkur meira húsnæði á Suðurlandsbrautinni eins og sannir hústökumenn. Nú þurfti að pæla hvernig við gætum látið fólk streyma í gegnum húsið, inn á einum stað og út á öðrum og haft langa röð innan dyra með 2 m millibili og með sem fæstum snertiflötum,“ segir Ragnheiður. Í dag eru á Suðurlandsbrautinni tekin landamærasýni, einkennasýni og sóttkvíarsýni. Á hverjum tíma eru um 30-40 starfsmenn og þar af um 6-10 hjúkrunarfræðingar eða læknar. Sýnatökufjöldinn fer alltaf vaxandi og er um 2-3 þúsund á hverjum degi.Hjúkrunarfræðingar tryggja sóttvarnir
Ragnheiður segir að í svona starfsemi, þar sem umfangið er svona mikið, séu sóttvarnir gríðarlega mikilvægar. Það hafi verið hlutverk hjúkrunarfræðinga að tryggja að sóttvarnir væri með þeim hætti að sem minnst hætta væri fyrir skjólstæðinga og starfsfólk að smitast. Til dæmis þurfti að kenna öllum að klæðast hlífðarbúnaði rétt og ekki síst hvernig á að klæða sig úr. Hvernig fólk má fara á milli svæða, hvað eru hrein svæði og hvað eru óhrein svæði. Einnig sé það hlutverk hjúkrunarfræðinga og lækna að hafa stöðugt gæðaeftirlit á sýnatökunni sjálfri.Upplýsingagjöf mest hjá hjúkrunarfræðingum
Nú er Ragnheiður beðin að lýsa störfum hjúkrunarfræðinga á þessum sérstöku tímum og hvernig störf þeirra hafa breyst í kjölfar covid-19. „Já, upplýsingagjöf til almennings er orðinn miklu stærri hluti af starfsemi hjúkrunarfræðinga, símtöl hafa margfaldast og eins netspjallið sem er stöðugt að vaxa. Sóttvarnir eru einnig orðinn mjög stór þáttur í starfseminni, bæði innan heilsugæslunnar og eins sem ráðgjöf til almennings. Sýnatökur eru einnig nýr þáttur í störfum hjúkrunarfræðinga í svona miklum mæli eins og er í dag.“„Já, álagið er búið að vera gríðarlega mikið, fólk er þreytt og líka bara mjög andlega þreytt, því þetta covid-fár heltekur hugann þannig að lítið svigrúm er til að koma með aðrar nýjungar, verkefni eða þróun. Þetta eru neikvæðu hliðarnar á covid, það leggur einhvern veginn allt undir sig alls staðar.“
Fólk er andlega þreytt
Eins og gefur að skilja er mikið álag á öllu heilbrigðisstarfsfólki, það þekkir Ragnheiður manna best. „Já, álagið er búið að vera gríðarlega mikið, fólk er þreytt og líka bara mjög andlega þreytt, því þetta covid-fár heltekur hugann þannig að lítið svigrúm er til að koma með aðrar nýjungar, verkefni eða þróun. Þetta eru neikvæðu hliðarnar á covid, það leggur einhvern veginn allt undir sig alls staðar. Ég held því að við þurfum bara að gefa okkur þennan tíma í þetta verkefni og sætta okkur við að önnur verkefni verða ekki í fluggírnum á meðan. En að sama skapi er mikilvægt að vera meðvitaður um að láta covid ekki vaða yfir allt. Síðan eru það þeir sem eru í sýnatökunni sjálfri. Það er mjög erfitt að standa heilu dagana í fullum skrúða og taka sýni. Þetta eru algjörar hetjur sem standast það álag.“Hætt að vera nýtt og spennandi
Ragnheiður segir að þriðja bylgjan af covid, sem gengur yfir núna, sé mun erfiðari en hinar tvær. „Já, tvímælalaust, hún er erfiðari þar sem nú fer meira að reyna á þolið. Þetta er alveg hætt að vera nýtt og spennandi. Annað sem er erfiðara í þessari bylgju er að það hafa svo mörg börn lent í sóttkví og heilu leikskólarnir þurfa að mæta í sýnatöku til að losna úr sóttkví. Aðstæðurnar á Suðurlandsbrautinni voru á engan hátt boðlegar fyrir þessi litlu börn. En þá tók hústökufólkið til sinna ráða og opnaði móttöku fyrir börnin á 2. hæðinni þar sem mögulegt var að sinna hverju barni í sérherbergi.“ Ragnheiður segir mjög erfitt að spá um framhaldið með covid, hún sé enn þá á þeim stað að setja hausinn undir sig og halda bara áfram skref fyrir skref, dag fyrir dag. „En ef maður reynir nú að líta aðeins upp, þá að sjálfsögðu berum við þá von í hjarta að bóluefni komi og losi okkur undan þessu stríði, en hvenær það verður virðist vera nokkuð óljóst enn þá,“ segir hún.Starfsandinn er góður
Það verður ekki hjá því komist að spyrja Ragnheiði um starfsandann á vinnustaðnum í miklu álagi. „Eins og þetta horfir við mér er starfsandinn góður og þetta hefur þjappað fólki saman, en á sama tíma er fólk orðið mjög þreytt á ástandinu. Hjúkrunarfræðingar og heilbrigðisstarfsfólk er líka bara venjulegt fólk og aðstæður þeirra eru mismunandi og þar af leiðandi covid-ógnin mismunandi. Við höfum lagt áherslu á reglulega, daglega stöðufundi á öllum starfseiningum og það gerir fólki mjög gott á svona tímum. Einnig höfum við hvatt starfseiningar til að gera eitthvað skemmtilegt saman þar sem viðburðir okkar eins og fræðadagarnir og árshátíðin hafa fallið niður vegna covid.“Ótrúlega stolt og þakklát
Það er komið að lokaorðunum og það stendur ekki á svörum hjá Ragnheiði: „Bara hvað ég er ótrúlega stolt og þakklát fyrir að fá að vera samferða og starfa með svona flottum hjúkrunarfræðingum og öðru starfsfólki í heilsugæslunni. Ég merki ótrúlegan vilja, þol, þrautseigju, styrk, snilli, góðmennsku og kærleik frá þeim á hverjum degi. Hjúkrunarfræðingar eru „stórasta stétt í heimi,“ segir hún hlæjandi.Viðtal: Magnús Hlynur Hreiðarsson.