Hjukrun.is-print-version

Heilsukvíði og streita á tímum covid-19

3. tbl. 2020
Viðtal við Sólrúnu Ó. Sigurðardóttur og Önnu G. Gunnarsdóttur

„Stór hluti starfs okkar undanfarið hefur verið að róa fólk. Breytingarnar voru svo hraðar til að byrja með og við áttum fullt í fangi með að læra hvernig við ættum að bregðast við, sem og að halda ró okkar í þessu ölduróti. Stundum varð fólk mjög reitt en það var þessi óvissa um veiruna og óöryggið um hvers lags sóttkví fólk átti að fara í enda nýr og óþekktur veruleiki sem við höfum öll staðið frammi fyrir undanfarna mánuði,“ segir Sólrún Ólína Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðingur á Heilsugæslunni í Salahverfi, og formaður fagdeildar heilsugæsluhjúkrunarfræðinga.

„Fólk þurfti bara að ræða við einhvern“

Í upphafi faraldursins byrjaði þetta rólega en svo drukknuðum við í símaráðgjöf um covid-19 segir Sólrún. „Margir vildu komast strax í sýnatöku og í byrjun þurftum við að beita okkar klíníska nefi til að meta þörf fyrir sýnatöku. Það fór að sjálfsögðu eftir einkennum hjá hverjum og einum og oft fylgdum við fólki eftir í nokkra daga áður en það komst að í sýnatöku. Þegar sýnatökupinnarnir kláruðust þurfti virkilega að vanda til verka,“ rifjar hún upp. „Við fundum fyrir töluverðum heilsukvíða og streitu vegna hinnar óþekktu veiru og oft þurfti fólk bara að ræða við einhvern um líðan sína og einkenni,“ segir hún jafnframt. Sá kvíði er enn til staðar og þó að störf hjúkrunarfræðinga í heilsugæslu snúist alla jafnan um stuðning við andlega líðan þá hefur vissulega reynt enn meira á okkur í þessum faraldri. Þrátt fyrir að fólk geti nú pantað sjálft sýnatöku, sem fram fer í gamla Orkuhúsinu á Suðurlandsbraut fyrir höfuðborgarsvæðið, eru símtölin ófá við að veita ráðleggingar, m.a. hvort þörf sé á úrvinnslusóttkví, hvernig best sé að leysa ýmsar aðstæður í sóttkví og einangrun, sem og að hughreysta fólk þegar það finnur fyrir einkennum.

Í byrjun faraldurs hvíldi skipulag og framkvæmd skimana á herðum hjúkrunarfræðinga. Sýnatökur fóru fram undir beru lofti víðs vegar um landið. Sýnatökur á höfuðborgarsvæðinu voru svo fluttar inn á Suðurlandsbrautina á haustdögum en ekki var sama upp á teningnum á landsbyggðinni. Þar hafa sýnatökur farið að mestu leyti fram undir beru lofti. Sums staðar hefur iðnaðarhúsnæði og bílakjallarar verið nýttir. Þar er lofthiti oft ekki hár en aðstæður þó betri en utandyra. Þessi vinnuaðstaða er í mörgum tilfellum ekki boðleg fyrir hjúkrunarfræðinga sem hafa staðið sig ótrúlega vel í sýnatökunni í alls kyns veðrum segir Sólrún og hennar von er að aðstæður fyrir sýnatökur á landsbyggðinni verði mannsæmandi þegar veturinn skellur á.

Sumar barnshafandi mæður hafa verið mjög einangraðar á meðgöngunni sem og eftir fæðingu og hafa jafnvel þurft að fara í gegnum fæðingu án nánasta aðstandanda. Anna segir óvissuna erfiða fyrir verðandi foreldra, m.a. varðandi þátttöku maka í fæðingunni því það hafi áhrif á andlega líðan þeirra síðustu vikur meðgöngunnar.

Dregið úr heimavitjunum og aukin símaþjónusta

Verulega hefur dregið úr vitjunum hjúkrunarfræðinga í heimahjúkrun á Selfossi en þess í stað er sjúklingum fylgt eftir í gegnum síma með aðstoð sjúkraliða og aðstandenda. Nokkuð hefur verið um að skjólstæðingar heimahjúkrunar hafi afþakkað komu hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða eftir að faraldurinn hófst. Sömuleiðis var dregið úr heimavitjunum til foreldra nýbura. Vinnulag í ungbarnavernd hefur sömuleiðis breyst. „Það er afar misjafnt hvernig vinnulag í ungbarnavernd hefur breyst,“ segir Anna Guðríður Gunnarsdóttir, verkefnastjóri ung- og smábarnaverndar Heilsugæslustöðvar Selfoss. „Flestar höguðu því til að byrja með eins og vanalega en þegar fjöldi smitaðra fór fjölgandi var því breytt á landsvísu þannig að komum inn á heilsugæsluna fækkaði og þess í stað var hringt í foreldra við 4 vikna, 9 vikna og 10 mánaða skoðun. Þá var á sumum stöðum öllum 2½ árs og 4 ára skoðunum frestað. Heimavitjunum til nýbura og foreldra var fækkað og fjölskyldunum fylgt eftir símleiðis. Á sumum stöðvum var farið með vigt heim til foreldra, þeir vigtuðu síðan börnin sjálf og fengu símtal frá hjúkrunarfræðingi í kjölfarið. Þannig voru mörg erindi leyst í ungbarnaverndinni með aukinni símaþjónustu,“ segja Anna og Sólrún.

Hjúkrunarfræðingar í ungbarnavernd hafa upplifað mikið óöryggi og vanlíðan meðal nýbakaðra mæðra og foreldra í kjölfar faraldursins, segir Anna og Sólrún tekur undir það. Sumar barnshafandi mæður hafa verið mjög einangraðar á meðgöngunni sem og eftir fæðingu og hafa jafnvel þurft að fara í gegnum fæðingu án nánasta aðstandanda. Anna segir óvissuna erfiða fyrir verðandi foreldra, m.a. varðandi þátttöku maka í fæðingunni því það hafi áhrif á andlega líðan þeirra síðustu vikur meðgöngunnar.

Skólahjúkrun

Sólrún telur að stuðningur og eftirfylgd við nemendur í grunnskólum landsins hafi kannski ekki verið eins öflug í vor og undanfarin ár þar sem skólahjúkrunarfræðingum var kippt inn á stöðvarnar bæði til að minnka smithættu og einnig til að sinna auknu álagi á heilsugæslustöðvunum. Það var því mikið álag á skólahjúkrunarfræðinga þegar þeir komust loksins aftur inn í skólana í vor og voru margir sem náðu ekki að klára verkefni vetrarins. Áhersla er lögð á að klára þessi verkefni nú í haust. Hún segir jafnframt að skólahjúkrunarfræðingar finni fyrir aukinni vanlíðan og óöryggi hjá nemendum nú í þriðju bylgju faraldursins. Það verði því æðið verkefni að halda utan um þessi börn þegar faraldrinum linni.

„Vinnudagarnir breytast sífellt og það er þessi undirliggjandi streita – ekki bara hjá þeim sem hringja á heilsugæsluna heldur eru hjúkrunarfræðingar þreyttir. Það mætti segja að fram sé komin töluverð farsóttarþreyta í mannskapinn.“

Hjúkrunarmótttaka

Mikil orka fór í að skipuleggja sýnatökur þegar faraldurinn hófst og flestum heilsugæslustöðvum var skipt upp í tvo hópa, annars vegar þeir sem unnu heima og hins vegar þeir sem störfuðu inni á stöðvunum. Því reyndist í mörgum tilfellum nauðsynlegt að draga úr flæði skjólstæðinga inn á hjúkrunarmóttökur. Einnig var heilsueflandi viðtölum við skjólstæðinga með sykursýki og aðra langvinna sjúkdóma víða sinnt símleiðis eða hreinlega frestað um óákveðinn tíma.

Þreyta og undirliggjandi streita

Fólk er reynslunni ríkara nú í þriðju bylgju faraldursins en margir eru orðnir þreyttir. „Það er óhætt að segja að álag hefur verið mikið á hjúkrunarfræðinga í heilsugæslu og kannski aldrei verið jafn mikið og árið 2020 en það gleymist oft í umræðunni sem oftar beinist að álagi á hjúkrunarfræðinga sjúkrahúsanna. „Vinnudagarnir breytast sífellt og það er þessi undirliggjandi streita – ekki bara hjá þeim sem hringja á heilsugæsluna heldur eru hjúkrunarfræðingar þreyttir. Það mætti segja að fram sé komin töluverð farsóttarþreyta í mannskapinn. Kjarabarátta hjúkrunarfræðinga hefur ekki hjálpað til á þessum óvissutímum,“ segir Sólrún. Það sem einkennt hefur störf hjúkrunarfræðinga á heilsugæslustöðvum landsins er sveigjanleiki, þolinmæði, auðmýkt og einlægni. „Það geta allir fengið þessa veiru. Það eru allir undir hnífnum.“

Pistlar og viðtöl

Heilsustofnanir

Sjúkdómar

Upplýsingar og ráðgjöf

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála