Hjúkrunarfræðin gaf nýja sýn á lífið
3. tbl. 2020
Dr. Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir hjúkrunarfræðingur er með marga hatta á höfðinu því hún er forstöðumaður fræðasviðs í bráðahjúkrun við hjúkrunarfræðideild HÍ, formaður kennslunefndar Heilbrigðisvísindasviðs HÍ og vinnur líka á rannsóknastofu LSH og HÍ í bráðafræðum.
70 hjúkrunarfræðingar víðs vegar af landinu hófu nám í bráðahjúkrun við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands haustið 2019. Í ágúst sama ár sóttu nemendurnir þriggja daga námskeið sem haldið var í húsnæði Íþróttakennaraháskólans á Laugarvatni. Dr. Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir sá um skipulagningu námskeiðsins, en hún er fædd og uppalin í Reykjavík og hefur búið þar alla tíð utan 9 ára sem hún bjó í Svíþjóð. „Ég gekk í Álftamýrarskóla og Menntaskólann við Hamrahlíð. Móðir mín heitir Ingibjörg Björnsdóttir, fyrrverandi verkefnisstjóri í Norræna húsinu, og stjúpfaðir minn var Ólafur H. Óskarsson skólastjóri, faðir minn er Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor emeritus í eðlisfræði og vísindasögu, og stjúpmóðir Sigrún Júlíusdóttir, prófessor emeritus í félagsráðgjöf. Ég á alls 4 bræður. Eiginmaður minn er Ásgeir Thoroddsen, krabbameinsskurðlæknir kvenna, og við eigum börnin Tómas Jökul laganema, Ingibjörgu menntaskólanema, Svanbjörn Orra grunnskólanema og labradorhundinn Dítu.“
„Frá fyrsta misseri í HÍ hef ég verið sannfærð um að þetta væri fyrir mig. Námið var mjög fjölbreytt en þar lærði ég ekki síst að losna við feimnina, standa með sjálfri mér og tala um viðkvæm málefni. Ég kann vel við þessa heildrænu hugsun sem hjúkrun byggist á, að horfa á einstaklinginn í heild og í sínu umhverfi en ekki á einstaka vandamál eða sjúkdóm sem hrjáir hann.
Lærði að standa með sjálfri sér í hjúkrunarfræði
Sjúkrahúsumhverfið, þá sérstaklega langir gangar og hvítir sloppar, vöktu athygli Þórdísar Katrínar á unga aldri. Henni datt þó ekki hjúkrunarfræðinám í hug fyrr en ein af elstu og bestu vinkonum hennar, sem var þá byrjuð í náminu, hvatti hana til þess. „Frá fyrsta misseri í HÍ hef ég verið sannfærð um að þetta væri fyrir mig. Námið var mjög fjölbreytt en þar lærði ég ekki síst að losna við feimnina, standa með sjálfri mér og tala um viðkvæm málefni. Ég kann vel við þessa heildrænu hugsun sem hjúkrun byggist á, að horfa á einstaklinginn í heild og í sínu umhverfi en ekki á einstaka vandamál eða sjúkdóm sem hrjáir hann. Hjúkrunarfræðin gaf mér í raun algerlega nýja sýn í lífinu.“ Þórdís Katrín starfaði meðal annars á áfengisdeild, öldrunardeild og á sjúkrahúsinu á Húsavík samhliða námi. Eftir útskrift starfaði hún lengst af á almennri handlækningadeild á Landspítalanum við Hringbraut en einnig á bráðamóttökunni og hjartadeild. Í Svíþjóð starfaði hún á handlækningadeild sjúkrahússins í Borås og síðar sem rannsóknarhjúkrunarfræðingur á krabbameinsmiðstöðinni í Gautaborg. Hún lauk meistaranámi frá Háskóla Íslands og diplómanámi við Háskólann í Gautaborg þar sem hún lauk doktorsprófi í heilbrigðisvísindum 2011. Í kjölfarið var hún ráðin verkefnisstjóri og síðar forstöðumaður Rannsóknastofu Háskóla Íslands og Landspítala í bráðafræðum. Auk þess hefur hún starfað við hjúkrunarfræðideild HÍ frá 2013 og er þar dósent í hálfu starfi. Þó hún segist vera í vinnunni næstum allan sólarhringinn nær hún að slaka á við útiveru og alls konar hreyfingu, helst með fjölskyldunni og hundinum. Hún er í fjórum saumaklúbbum, sem gera reyndar allt annað en að sauma, og á nánar og góðar vinkonur. Einnig er hún í leshring og les skáldsögur. „Nýjasta fjölskyldusportið okkar er golf en annars erum við líka mikið skíðafólk og skíðaferðir í Alpana eru í miklu uppáhaldi fjölskyldunnar allrar,“ bætir hún við.Mér finnst skemmtilegast þegar ég á í árangursríku samstarfi sem birtist til dæmis við útskrift nemenda sem ég hef leiðbeint eða þegar við fáum rannsóknarniðurstöður birtar á erlendum ráðstefnum eða í tímaritum.
Nær aldrei að klára verkefnalistann því það bætist alltaf við
Starfið er alltaf í huga Þórdísar Katrínar þó að hún sitji ekki stöðugt við, en segja má að hún beri ýmsa hatta. Því er forvitnilegt að vita hvernig störfin fléttast saman. „Já, það er satt, ég veit eiginlega aldrei hvaða hatt ég er með þegar ég mæti í vinnuna heldur blandast þessir titlar saman í mjög fjölbreytt starf. Ég get verið að skipuleggja einstaka kennslufyrirlestur eða heil námskeið, semja verkefnalýsingar, fara yfir próf eða verkefni, funda með nemendum um efnistök í BS-, MS- eða doktorsverkefni þeirra, ræða við samstarfsfólk og leggja drög að brýnum verkefnum og þar með að bættri bráðahjúkrun, stjórna fundum og gefa álit á ýmsum málum, t.d. tengdum kennslu í Háskólanum sem formaður kennslumálanefndar Heilbrigðisvísindasviðs, flytja erindi á ráðstefnum, rýna í rannsóknargögn og skrifa fræðigreinar, ritrýna greinar, taka þátt í erlendu samstarfi um bráðahjúkrun og svo má lengi telja. Verkefnalistinn minn er sem sagt alltaf mjög langur og ég næ aldrei að klára hann því það bætist alltaf við. Mér finnst skemmtilegast þegar ég á í árangursríku samstarfi sem birtist til dæmis við útskrift nemenda sem ég hef leiðbeint eða þegar við fáum rannsóknarniðurstöður birtar á erlendum ráðstefnum eða í tímaritum. Svo er ég að vinna með frábæru fólki sem leysir öll vandamál og gerir vinnudaginn skemmtilegan.“Mikill áhugi á bráðahjúkrun
Þórdís Katrín undirbjó þriggja daga námskeið nýlega á Laugarvatni fyrir þá sem eru að læra bráðahjúkrun. Ástæðan var tvíþætt, annars vegar frétti hún að húsnæði Íþróttakennaraháskólans á Laugarvatni væri laust og hins vegar komu nemendur víða að af landinu: „Því stakk ég upp á því að hafa þessa kennsludaga á Laugarvatni og þannig þyrftu allir að fara að heiman. Nemendur tóku mjög vel í þetta, en það stóð tæpt að þetta tækist því við ætluðum að hafa kennsluna í mars en urðum að fresta vegna covid. Við þorðum svo ekki að staðfesta staðsetninguna og framkvæmdina í haust fyrr en ljóst var að samkomutakmarkanir leyfðu, þ.e. að þessi fjöldi mátti koma saman í kennslu með 1 metra reglu. Að vera á Laugarvatni, í því fallega umhverfi, skipti verulegu máli, þó svo alls ekki allir hafi gist á heimavistinni sem þarna er. Þarna vorum við í friði og tókum samþjappaða kennsludaga í að fjalla um málefni sem öllum voru hugleikin. Það skapaðist afskaplega góð stemning, hjúkrunarfræðingar frá mismunandi sjúkrastofnunum kynntust og vonandi mun það leiða til alls konar samvinnu og framfara.“„Undanfarin ár hefur verið mikið álag á hjúkrunarfræðinga á landsbyggðinni vegna bráðra tilvika ferðamanna sem hafa verið á stöðum þar sem ekki er endilega formlegur viðbúnaður eða sjúkrastofnun til að sinna þeim fjölda fólks sem raunverulega hefur verið á svæðinu, t.d. stór umferðarslys á Suðurlandi og önnur slík tilvik.
Mikill áhugi er á sérnámi í bráðahjúkrun og það á sér skýringar. „Undanfarin ár hefur verið mikið álag á hjúkrunarfræðinga á landsbyggðinni vegna bráðra tilvika ferðamanna sem hafa verið á stöðum þar sem ekki er endilega formlegur viðbúnaður eða sjúkrastofnun til að sinna þeim fjölda fólks sem raunverulega hefur verið á svæðinu, t.d. stór umferðarslys á Suðurlandi og önnur slík tilvik. Auk þess felur bráðahjúkrun sífellt í sér ný og ný viðfangsefni, til dæmis tengd öldrun þjóðarinnar, síbreytilegri samfélagsgerð, nýjum vímuefnum, frístundaiðkun og svo má lengi telja. Það er mjög gleðilegt að svona margir hjúkrunarfræðingar hafi fundið þörfina fyrir að fara í þetta framhaldsnám í bráðahjúkrun til að vera betur í stakk búnir að takast á við þau krefjandi verkefni sem fyrir þeim liggja í starfi.“
Þórdís Katrín álítur bráðahjúkrunarnámið veita mikilvægan þekkingargrunn um leið og það dýpkar og styrkir þann góða grunn sem grunnnám í hjúkrunarfræði er á Íslandi: „Kennsla og námsskrá í Hjúkrunarfræðideild HÍ er í raun í stöðugri endurskoðun í takt við samfélagsbreytingar og þær þarfir sem eru í samfélaginu fyrir hjúkrun. Námsskráin núna miðar til dæmis að öldrun þjóðarinnar og því hvernig almenn heilbrigðisþjónusta er skipulögð í grunninn en svo hafa útskrifaðir hjúkrunarfræðingar tækifæri til að sérhæfa sig að loknu grunnnámi og fá líka einingar úr grunnnámi metnar inn í meistaranám. Þetta tel ég góðan kost og ég sé virkilega góða og faglega hjúkrunarfræðinga útskrifast úr BS-náminu okkar.“
Framtíðarsýnin er skýr hjá fjölhæfu fræði- og útivistarkonunni dr. Þórdísi Katrínu Þorsteinsdóttur
„Í tengslum við skipulag diplómanámsins okkar hef ég séð hve mikilvægt það er að hjúkrunarfræðingar alls staðar af að landinu hafi tækifæri og aðstöðu til að sækja framhaldsnám. Við bjóðum upp á klínískt framhaldsnám sem ekki er hægt að kenna í fjarkennslu nema að litlu leyti en einhverjir hafa þurft að hætta þar sem þeir fengu ekki námsleyfi eða fjárhagslegan stuðning til að sækja námið. Ef efla á heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni í takt við tímann þarf þetta að breytast, og meiri stuðningur en fæst með kjarasamningsbundnum réttindum að koma til.“Viðtal: Magnús Hlynur Hreiðarsson.