Hjukrun.is-print-version

Núna erum við í miðri orrustu og hugsum bara um einn dag í einu

3. tbl. 2020
Viðtal við Margréti Björnsdóttur

Margrét Björnsdóttir hóf hjúkrunarferilinn sem hjúkrunarnemi á bráðamóttöku barna á Landspítalanum og hélt þar áfram eftir útskrift. Síðar fór hún að vinna á hjartadeildinni og við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Eftir það lá leið hennar til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og þar starfar hún nú sem fagstjóri hjúkrunar á heilsugæslunni í Garðabæ. Margrét er líka heilsuhagfræðingur. Hún svaraði nokkrum spurning blaðsins sem snúa fyrst og fremst að covid-19-faraldrinum og hlutverki heilsugæsluhjúkrunarfræðinga á þeim vettvangi.

Símalistinn sprakk

„Ég man þegar við vorum upplýst um það snemma árs 2020 að í Kína væri komin upp veirusýking sem dreifðist hratt um heiminn. Það leið ekki langur tími þangað til veiran var komin til Íslands. Þá byrjaði ballið og starfsemi heilsugæslunnar gjörbreyttist á örskömmum tíma. Stöðinni var snemma skipt upp vegna samkomutakmarkana og þannig var helmingur starfsfólks á stöðinni í klínískri vinnu en hinn helmingurinn utan stöðvar í fjarvinnu. Þannig unnum við í tæplega þrjá mánuði. Í upphafi faraldursins gegndu hjúkrunarfræðingar innan heilsugæslunnar gríðarlega mikilvægu hlutverki við sýnatökur, símaráðgjöf og skráningu í sóttkví. Símalistinn sprakk og við vorum oft langt fram eftir að klára seinustu símtöl dagsins. Einnig fjölgaði fyrirspurnum í gegnum Heilsuveru á netinu til muna. Allar stöðvar voru daglega að taka sýni. Fyrst um sinn fóru sýnatökurnar fram úti. Bílaraðirnar voru langar og það var oft kalt,“ segir Margrét.

Bílastæðakjallari Hörpunnar

Margrét segir að til að anna eftirspurn um helgar hafi heilsugæslustöðvarnar skipst á að standa vaktina í bílstæðakjallaranum í Hörpu. „Já, um tíma var skortur á búnaði eins og sýnapinnum og þá þurfti að vanda vel hverja ætti að bóka í sýnatöku og hverja ekki. Eftir því sem fleiri sýktust fór covid-19 að leggja undir sig meira af okkar daglegu starfsemi og við þurftum að forgangsraða verkefnum enn frekar. Aðeins bráð erindi komu inn á stöð og því sem hægt var að sinna símleiðis var sinnt með þeim hætti. Til þess að minnka líkur á smiti var komið upp sýkingamóttöku á ákveðnum tíma dags. Verkefnum var forgangsraðað í ungbarnavernd, mæðravernd og heilsuvernd skólabarna. Til lengdar er þó ekki hægt að skerða þessa þjónustu.“

Verkefni heilsugæslunnar hafa breyst

Eins og gefur að skilja hafa verkefni heilsugæslunnar breyst og þróast mikið frá því í upphafi ársins. „Já, það má með sanni segja, seinustu vikur hafa inflúensubólusetningar verið stór partur af starfseminni. Símaráðgjöfin er áfram mikil og nú hafa bæst við í skjólstæðingahópinn fólk með eftirköst af covid-19. Þegar bóluefni kemur á markað verður það svo hlutverk heilsugæslunnar að sjá um þá bólusetningu. Það eru því næg verkefni fram undan. Á heilsugæslunni í Garðabæ höfum við líka lent í smiti innan starfsmannahópsins og það leiddi til þess að stór hluti starfsmanna var um tíma í sóttkví. Það reyndi mikið á en var að sama skapi lærdómsríkt,“ segir Margrét.

Nú er haustið komið og covid-19-verkefnið heldur áfram. Á mínum vinnustað höfum við lagt áherslu að vera með daglega stöðufundi til að halda öllum upplýstum um gang mála. Við pössum vel hvert upp á annað og tölum saman. Það er mikilvægt að taka einn dag í einu og gera sér stundum glaðan dag.“

Hjúkrunarfræðingar í brennidepli

Þegar Margrét er spurð um kórónufaraldurinn segir hún að það hafi lengi verið búið að vera í umræðunni að við myndum einhvern tímann standa frammi fyrir heimsfaraldri á borð við covid-19. Árið 2020 hafði verið tilnefnt ár hjúkrunar af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) og Margréti fannst það táknrænt að heimsfaraldur hafi einmitt skollið á á þeirri stundu. Í þessu samhengi segir hún að hjúkrunarfræðingar hafi heldur betur verið í brennidepli. „Þeir hafa staðið vaktina og sýnt fram á mikilvægi sitt. Þetta hefur verið gríðarlega stórt og mikið verkefni sem ekki sér fyrir endann á. Þegar fram í sækir verður athyglisvert að horfa um öxl og hugsa til þess sem maður lagði af mörkum í baráttunni. Núna erum við í miðri orrustu og hugsum bara um einn dag í einu.“

Þolinmæði fólks minnkar

Að lokum er Margrét spurð hvernig hennar fólki líði í vinnunni í þessu mikla álagi? „Það er engin spurning að mikið álag til lengdar tekur vissulega á. Frá því í upphafi faraldursins höfum við staðið keik og haldið ótrauð áfram, horft á lausnir en ekki vandamál og allir hafa lagt sig 100% fram. Vorið var erfitt og það reyndi á að hitta ekki suma vinnufélagana í tæpa þrjá mánuði. Það voru því fagnaðarfundir þegar við sameinuðumst aftur í sumar eftir langan aðskilnað. Þegar sumarið kom var fólk orðið þreytt og þá var kærkomið að komast í sumarfrí. Nú er haustið komið og covid-19-verkefnið heldur áfram. Á mínum vinnustað höfum við lagt áherslu að vera með daglega stöðufundi til að halda öllum upplýstum um gang mála. Við pössum vel hvert upp á annað og tölum saman. Það er mikilvægt að taka einn dag í einu og gera sér stundum glaðan dag.“

Viðtal: Magnús Hlynur Hreiðarsson.


Pistlar og viðtöl

Heilsustofnanir

Sýkingar og smit

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála