Hjukrun.is-print-version

Ritstjóraspjall

3. tbl. 2020
Helga Ólafs

Frá 28. febrúar hafa tæplega 5000 manns smitast af covid-19 hér á landi og 17 látist þegar þetta er ritað í byrjun nóvember. Ríflega 270 hafa lagst á sjúkrahús og 43 innlagnir á gjörgæslu. Álagið er mikið á heilbrigðisstarfsfólk, og var þegar mikið fyrir faraldurinn. Vegna starfs síns hefur fjöldi hjúkrunarfræðinga farið í sóttkví og verið í einangrun frá fjölskyldu og vinum vegna smithættu. Fyrir skömmu staðfesti Alþjóðaráð hjúkrunarfræðinga að 1.500 hjúkrunarfræðingar frá 44 löndum hefðu látist af völdum covid-19. Áætlað er að dauðsföll heilbrigðisstarfsmanna af völdum covid-19 á heimsvísu gætu orðið fleiri en 20.000.

Hjúkrunarfræðingarnir Sesselja Haukdal Friðþjófsdóttir og Ásgeir Valur Snorrason voru meðal þeirra fyrstu sem greindust með covid-19 hérlendis. Ásgeir Valur varð ekki mikið veikur en Sesselja var ekki svo heppin. Þegar hún hafði lokið margra vikna einangrun var tilhlökkunin mikil að komast út meðal fólks og hreyfa sig. „Þegar stóri dagurinn kom þorði ég hreinlega ég ekki ein út, ég fékk smá áfall og einfaldlega grét. Það var mikið áfall. Ég man að ég horfði mikið á fréttir og hafði miklar áhyggjur hversu veik ég gæti orðið – gæti ég dáið?“ Sesselja er enn að glíma við fylgikvilla covid-19. Að fást við óþekkta veiru er mikill rússibani og hefur tekið mikið á Sesselju, en hún deilir reynslu sinni af því að smitast af covid-19 með lesendum blaðsins. Það sem styrkir hana á vegferðinni er að muna góðu dagana – hvernig lífið var fyrir covid-19.

„Það geta allir fengið þessa veiru. Það eru allir undir hnífnum,“ segir Sólrún Ólína Sigurðardóttir, formaður fagdeildar heilsugæsluhjúkrunarfræðinga. Þrátt fyrir að fólk sé orðið reynslunni ríkara í þriðju bylgju faraldursins eru margir orðnir þreyttir. „Við fundum fyrir töluverðum heilsukvíða og streitu vegna hinnar óþekktu veiru og oft þurfti fólk bara að ræða við einhvern um líðan sína og einkenni. Sá kvíði er enn til staðar og þó að störf hjúkrunarfræðinga í heilsugæslu snúist alla jafnan um stuðning við andlega líðan þá hefur vissulega reynt enn meira á okkur í þessum faraldri.“

Í þessu tölublaði er fjölda viðtala við hjúkrunarfræðinga víðs vegar um heilsugæsluna en þeir hafa staðið í ströngu frá upphafi faraldursins, allt frá því að sjá um sýnatöku, sinna upplýsingagjöf, róa fólk og hughreysta. Það hefur verið stórt hlutverk hjúkrunarfræðinga að sinna upplýsingagjöf bæði í gegnum síma og netspjall og hefur netspjallið á heilsuvera.is slegið öll met í fjölda heimsókna í kjölfar covid-19. Rætt er við Margréti Héðinsdóttur sem hefur byggt upp netspjallið og stýrt vefnum undanfarin tvö ár.

Það eru ekki allir eins lánsamir að hafa aðgang að öflugu heilbrigiðiskerfi eins og Eyrún Gísladóttir upplifði þegar hún fór í sjálfboðaliðastarf til Indlands sem nýútskrifaður hjúkrunarfræðingur. Eyrún gefur lesendum innsýn í fjarlægan veruleika í máli og myndum.

Forsíðumyndina tók Helga Sif Friðjónsdóttir af listaverki eftir Vilmund Þorgrímsson myndhöggvara að Hvarfi í Djúpavík.

Félagið

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála