Hjukrun.is-print-version

Samstarfið við SSN lagði grunn að þróun hjúkrunar á Íslandi

3. tbl. 2020
Aðalbjörg Finnbogadóttir og Helga Ólafs

Í ár eru liðin 100 ár frá stofnun SSN. Í september 1920 komu saman í Kaupmannahöfn 1000 hjúkrunarfræðingar frá Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi á fyrsta samnorræna samráðsfund hjúkrunarkvenna. Þar var samþykktur sameiginlegur samstarfsgrundvöllur sem skyldi vera undirstaðan að skipulagi samtakanna. SSN skyldi einkum berjast fyrir þremur málefnum: Þriggja ára menntun hjúkrunarkvenna að lágmarki, styttingu vinnudags hjúkrunarkvenna og samræmingu og endurbótum á launum og eftirlaunum þeirra.

Það hefur mikið vatn runnið til sjávar í tæplega 100 ára samstarfi íslenskra hjúkrunarfræðinga við SSN eða Samvinnu hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndum. Allt frá stofnun árið 1920 hefur SSN barist fyrir bættri menntun, starfsskilyrðum og launum hjúkrunarfræðinga. Það er við hæfi að rifja upp samstarf Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga við SSN á þessum tímamótum en Félag hjúkrunarfræðinga á Íslandi varð aðili að SSN 1923.

Til að rifja upp aðild Fíh að SSN og hvað samstarfið hefur fært félaginu fengum við til liðs við okkur fulltrúa félagsins undanfarna áratugi; Sigþrúði Ingimundardóttur, fyrrverandi formann Hjúkrunarfélags Íslands, Ástu Möller og Elsu B. Friðfinnsdóttur, fyrrverandi formenn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Aðalbjörgu Finnbogadóttur, fyrrverandi sviðstjóra fagsviðs Fíh, og Jón Aðalbjörn Jónsson, fyrrverandi alþjóðafulltrúa félagsins. Viðmælendur voru á einu máli um að samstarf Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga við SSN hefði lagt stóran grunn að þróun hjúkrunar á Íslandi.

Heimskonur á sínum tíma

Það voru kjarnakonur sem stofnuðu SSN og þær þurftu að leggja á sig langa og erfiða ferð með lestum, skipum og sporvögnum þess tíma til að komast til Kaupmannahafnar á stofnfundinn. Félag íslenskra hjúkrunarkvenna gerðist aðili að SSN 1923 og mætti þar ritari félagsins þá til Óslóar fyrir hönd íslensku hjúkrunarstéttarinnar. „Þetta voru heimskonur á sínum tíma,“ segir Ásta en þær sigldu árlega á fundi og ferðalagið gat verið mjög langt. Félag íslenskra hjúkrunarkvenna sótti það fast að halda fulltrúamót á Íslandi árið 1927 að sögn Sigþrúðar. Landspítalinn var þá í smíðum og snerust nefndarstörfin því mikið um allt er laut að hjúkrun þar. Engin forstöðukona hafði verið ráðin og félagið taldi nauðsynlegt að fá ráðgjöf og hjálp um hvernig stjórnun, menntun og starf yrði á hinum nýja spítala allra landsmanna, og í væntanlegum Hjúkrunarskóla Íslands. Fulltrúar komu með farþegaskipinu Island, bjuggu á einkaheimilum og dvöldu hér í 10 daga. Haldinn var opinn fundur með stjórn Landspítalasjóðs, byggingarnefnd, læknum og forystukonum kvenfélaga, ásamt öllum þeim er áhuga höfðu á að sækja fundinn. Þar var fjallað um þau mál er brunnu á og sitt sýndist hverjum. Norrænu forystukonurnar héldu allar erindi og tóku oft til máls. Það skyldi því engan undra að við vorum meiri þiggjendur til að byrja með vegna smæðar, segir Sigþrúður.

Ef við hverfum aftur um tæp 100 ár þá var hér enginn hjúkrunarskóli og enginn Landspítali og sóttu íslenskar hjúkrunarkonur menntun sína til Danmerkur. Hér á landi var strax í upphafi lögð áhersla á að hjúkrunarnámið yrði þriggja ára nám og skipti stuðningur SSN miklu um að svo varð.

Ásta fer með okkur aftur til ársins 1939 þegar hún nefnir að hátt í 500 hjúkrunarkonur frá Norðurlöndum komu sjóleiðis til Íslands á fulltrúamót og hjúkrunarkvennaþing SSN. Skipið var bæði ráðstefnu- og gististaður þeirra enda ekki til hótel fyrir þennan fjölda. Að þinginu loknu var ákveðið að sýna gestunum landið. Var farið með hópinn á Þingvöll og síðan ekið með þær alla leið norður til Akureyrar þar sem skipið beið þeirra. Það var tregablandin kveðjustund á bryggjunni þegar þær kvöddust enda óvíst hvort þær myndu hittast aftur þar sem stríðsógn lá í loftinu, rifjar Elsa upp.

„Þarna komu voldugar konur að hitta volduga ráðamenn á Íslandi – og þeir hlustuðu“

Allt frá stofnun SSN var mikil áhersla lögð á að hjúkrunarnám yrði þrjú ár en það var í raun fyrsta krafan sem samráðsvettvangurinn sammæltist um og var til umræðu innan samtakanna áratugum saman. Minnstu munaði að umræður um innihald og hversu mikla menntun þyrfti til að geta kallað sig hjúkrunarfræðing hefði klofið SSN en sænskir hjúkrunarfræðingar uppfylltu ekki þriggja ára menntunarkröfuna fyrr en 1993. Menntun var aðalatriðið til að byrja með, en ekki síður félagslegur stuðningur, segir Sigþrúður. Hjúkrunarfræðingar voru fáir hér á landi og því mikilvægt að hafa tengingu við umheiminn, bæði faglega og félagslega. Ef við hverfum aftur um tæp 100 ár þá var hér enginn hjúkrunarskóli og enginn Landspítali og sóttu íslenskar hjúkrunarkonur menntun sína til Danmerkur. Hér á landi var strax í upphafi lögð áhersla á að hjúkrunarnámið yrði þriggja ára nám og skipti stuðningur SSN miklu um að svo varð.

Fulltrúar SSN lögðu mikla áherslu á þriggja ára nám við íslenska ráðamenn og framlag þeirra lagði stóran grunn að þróun hjúkrunar á Íslandi. „Þarna komu voldugar konur að hitta volduga ráðamenn á Íslandi – og þeir hlustuðu,“ segir Ásta en hjúkrunarnám varð þriggja ára nám strax við stofnun Hjúkrunarskóla Íslands 1931. Á þeim tíma höfðu eingöngu Finnar og Færeyingar hafið þriggja ára nám.

Íslendingar ein af fyrstu Norðurlandaþjóðunum að innleiða þriggja ára hjúkrunarnám

Elsa segir það í raun merkilegt hvað við höfum verið framarlega þegar kemur að hjúkrunarnámi hér á landi. Á þeim tíma þegar unnið var að því að koma hjúkrunarnámi á háskólastig voru fjölbrautaskólarnir að hefja göngu sína. Menntamálaráðuneytið lagði mjög mikla áherslu á að hjúkrunarnámið væri kennt í fjölbrautaskóla en hjúkrunarfræðingar hér á landi, þar á meðal kennaradeild Hjúkrunarfélagsins, börðust gegn því þar sem vilji var fyrir því að hjúkrunarnámið hér á landi færi í háskóla, segir Sigþrúður, og þá munaði miklu um stuðninginn sem kom frá SSN, segir hún jafnframt. Það er í raun merkilegt hve okkur tókst að taka stór skref í menntunarmálum hjúkrunarfræðinga, segir Elsa og Jón leiðir líkum að því að ástæðan gæti verið hversu stuttar boðleiðirnar eru. Það eru svo mikil tengsl og greitt aðgengi að stjórnmálamönnum ólíkt því hvernig það er á hinum Norðurlöndunum, segir Jón enn fremur. En það var ekki bara greitt aðgengi að stjórnmálamönnum á þessum árum heldur einnig að þeim sem stýrðu Háskóla Íslands og áhrifamönnum í læknadeild þegar námið var samþykkt inn í Háskólann, bætir Sigþrúður við.

Það voru allir á einu máli hve mikill stuðningur hefur verið af SSN, og ekki síst þegar kemur að menntunarstigi hjúkrunarfræðinga. Það var ávallt lögð mikil áhersla á að Norðurlöndin stæðu saman og styddu hvert annað, t.d. með því að miðla upplýsingum. Þetta samstarf er grundvöllurinn að norræna velferðarkerfinu og því mannúðarsjónarmiði að allir hafi rétt á heilbrigðisþjónustu, segir Ásta. „Við vorum að byggja á sterkum hugmyndafræðilegum grunni,“ segir Elsa, og það var hlustað á Norðurlandaþjóðirnar enda hefur Evrópusamstarf hjúkrunarfræðinga horft til SSN þegar kemur að menntun hjúkrunarfræðinga.

Á þessum tíma gafst hjúkrunarkonum ekki mikið rými fyrir félagslíf en allt fram á miðja síðustu öld var það alvanalegt að hjúkrunarkonurnar byggju á sjúkrahúsinu. Þá var einnig algengt að hjúkrunarkonur fengju hluta af launum sínum greiddan í formi fæðis og húsnæðis. „Þær voru giftar starfinu,“ segir Elsa og Jón bætir við að danskar hjúkrunarkonur hafi á þeim tíma þurft leyfi frá yfirmanni sínum til að gifta sig.

Stytting vinnudags og hækkun launa

Frá upphafi var nokkur ágreiningur innan SSN um styttri vinnudag en samkomulag var um að 12-14 stunda vaktafyrirkomulag væri óboðlegt. Töldu margar hjúkrunarkonur að það að stytta vinnudag bryti í bága við köllun og siðferði hjúkrunarkonunnar og að þrískiptar vaktir myndu valda sjúklingum óróleika og dreifing á starfskyldum gæti spillt vinnugleði hjúkrunarkvenna og faglegum metnaði þeirra.

Á þessum tíma gafst hjúkrunarkonum ekki mikið rými fyrir félagslíf en allt fram á miðja síðustu öld var það alvanalegt að hjúkrunarkonurnar byggju á sjúkrahúsinu. Þá var einnig algengt að hjúkrunarkonur fengju hluta af launum sínum greiddan í formi fæðis og húsnæðis. „Þær voru giftar starfinu,“ segir Elsa og Jón bætir við að danskar hjúkrunarkonur hafi á þeim tíma þurft leyfi frá yfirmanni sínum til að gifta sig. Það var ekki fyrr en 1937 að almennur átta stunda vinnudagur varð viðurkenndur í Noregi og á Íslandi var það 1942. Vinnuvikan var áfram æði löng en það var ekki fyrr en í byrjun áttunda áratugar síðustu aldar sem fimm daga vinnuvika varð viðtekin á Norðurlöndunum.

Þriðja krafan sem sett var fram á stofnfundi SSN var bætt laun. Þetta er sá liður sem alger einhugur hefur ríkt um innan SSN frá upphafi. Þrátt fyrir það er þetta eina stofnkrafan sem ekki hefur verið uppfyllt þar sem hjúkrunarfræðingar á Norðurlöndunum eru enn með of lág laun miðað við aðrar fagstéttir með sambærilega menntun og ábyrgð.

Samstarfið við SSN mikilvægt í kjarabaráttu

Að mati Ástu, sem var fyrsti formaður sameinaðra hjúkrunarfélaga, þá skipti samstarfið við SSN miklu þegar kom að kjaramálum. Stuðningurinn var ómetanlegur og í kjarabaráttu hér á landi var hægt að vísa til annarra Norðurlanda, en félögin studdu hvert annað með miðlun upplýsinga, í verkföllum og hvers kyns hugmyndafræði sem lýtur að stéttinni og starfi hennar. Elsa segir mikinn stuðning hafa verið þegar kom að launamálum, en ekki síður var stuðningurinn mikill þegar kom að kjarabaráttu hjúkrunarfræðinga, t.a.m. um vaktaskipulag. „Þetta var ný hugsun sem við vorum að reyna að innleiða,“ segir hún.

Íslendingar urðu fyrstir Norðurlandaþjóða að hefja hjúkrunarfræðinám á háskólastigi og því hefur löngum verið horft til menntunarstigs á Íslandi. Enda er óhætt að segja að íslenskir hjúkrunarfræðingar séu framarlega þegar kemur að rannsóknum í hjúkrun og innleiðingu nýrrar þekkingar sem fengist hefur þaðan, en þegar litið er til allra Norðurlanda þá eru eingöngu 1-2% hjúkrunarfræðinga með doktorsgráðu.

Rannsóknir og innleiðing nýrrar þekkingar í hjúkrun

Allt frá stofnun SSN hefur verið lögð mikil áhersla á rannsóknir í hjúkrunarfræði og voru hjúkrunarfræðingar á Norðurlöndum með fyrstu stéttum til að setja sér siðareglur fyrir þá sem stunda hjúkrunarrannsóknir. Þær voru síðan prentaðar og þýddar á öll Norðurlandamálin. Enn leggja tiltölulega fáir hjúkrunarfræðingar stund á rannsóknir innan SSN. Íslendingar urðu fyrstir Norðurlandaþjóða að hefja hjúkrunarfræðinám á háskólastigi og því hefur löngum verið horft til menntunarstigs á Íslandi. Enda er óhætt að segja að íslenskir hjúkrunarfræðingar séu framarlega þegar kemur að rannsóknum í hjúkrun og innleiðingu nýrrar þekkingar sem fengist hefur þaðan, en þegar litið er til allra Norðurlanda þá eru eingöngu 1-2% hjúkrunarfræðinga með doktorsgráðu. Þá hefur Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga verið í fararbroddi þegar kemur að styrkveitingum til viðbótar- og endurmenntunar.

„Maður stendur aldrei jafnfætis þegar maður talar ekki móðurmálið við þá sem tala sitt móðurmál,“ segir Elsa. Árið 1994 var gripið til þess ráðs að halda sérútbúið dönskunámskeið á vegum félagsins fyrir íslenska hjúkrunarfræðinga sem tóku þátt í SSN-samstarfinu og síðar fór Elsa m.a. í Endurmenntun HÍ til að læra dönsku í Norðurlandasamstarfi.

Tregða að tala ensku á fundum

Samtalið færðist frá menntun til tungumálaörðugleika en öll samskipti hjá samráðsvettvanginum voru á Norðurlandamálunum þremur, þ.e. dönsku, sænsku og norsku. „Ég var ekki góð í Norðurlandamálum og þegar ég sótti minn fyrsta stjórnarfund hjá SSN skildi ég varla orð sem þar fór fram,“ rifjar Ásta upp. Hún óskaði eftir að fá að tala ensku en þar sem ekki höfðu allir vald á ensku var það ekki samþykkt. Allt til þessa dags hefur verið mikil tregða á meðal félaga í SSN að tala ensku á sameiginlegum fundum, og þá sér í lagi hjá Dönum, segir Jón. „Maður stendur aldrei jafnfætis þegar maður talar ekki móðurmálið við þá sem tala sitt móðurmál,“ segir Elsa. Árið 1994 var gripið til þess ráðs að halda sérútbúið dönskunámskeið á vegum félagsins fyrir íslenska hjúkrunarfræðinga sem tóku þátt í SSN-samstarfinu og síðar fór Elsa m.a. í Endurmenntun HÍ til að læra dönsku í Norðurlandasamstarfi. Á stjórnarfundum SSN í dag tala allir fulltrúar á sínu móðurmáli og styðjast við túlka eftir því sem við á, segir Aðalbjörg. Þá eru að hennar sögn öll samskipti í vinnuhópum innan SSN á ensku en innan samtakanna eru starfandi vinnuhópar þar sem hvert land á sinn fulltrúa. Þessir hópar vinna m.a. að faglegum framgangi og pólitískum áhrifum hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndunum.

Hagsmunamálin enn þau sömu

Eins og fyrr segir voru íslenskar hjúkrunarkonur í upphafi meira þiggjendur í SSN vegna þess hversu fáar þær voru. Það hefur breyst í áranna rás og leggja nú íslenskir hjúkrunarfræðingar til samstarfsins jafnt á við hinar Norðurlandaþjóðirnar. Jón nefnir að félagið hafi unnið að endurskoðun á stefnu SSN sem fól m.a. í sér aukið samstarf SSN og Norðurlandaráðs og verið í forystu í gæðastarfi innan SSN þar sem íslenskir hjúkrunarfræðingar stýrðu gæðahópum sem unnu m.a. að gerð gæðavísa í hjúkrun. Einnig tókum við að okkur að skipuleggja og koma á rafrænum samskiptum innan SSN sem á þeim tíma var nýlunda, segir Jón.

Í dag fundar stjórn SSN, sem samanstendur af öllum formönnum félaganna sex, tvisvar á ári, vor og haust, heldur ráðstefnur um ýmis mál er tengjast baráttumálum SNN og þróun hjúkrunar auk þess að starfshópar SSN hittast reglulega og vinna að framgangi mála bæði faglegum og pólitískum. Þá koma Norðurlöndin sterk saman á alþjóðavettvangi sem og innan Evrópu þannig að eftir þeim, og því sem þau standa fyrir, er tekið.

Hagsmunamál SSN hafa í raun ekkert breyst undanfarin 100 ár og baráttumálin eru þau sömu í öllum sex löndunum: að fagið verði metið að verðleikum og að launakjörin batni. Samstarfsvettvangurinn, sem núna eru í 340.000 hjúkrunarfræðingar frá öllum Norðurlöndunum, beitir sér fyrir þessum hagsmunum með því að þrýsta á stjórnmálamenn í hverju Norðurlandanna fyrir sig og í Evrópu.

Pistlar og viðtöl

Fagleg málefni

Menntunarmál

Saga

Stjórnvöld

Stuðningur

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála