3. tbl. 2020
Ásta Thoroddsen, Gísli Níls Einarsson og Sigurður Ýmir Sigurjónsson
„Það þýðir nú lítið að vera að velta sér upp úr einhverju sem maður fær ekki breytt,“ segir Ásta Thoroddsen aðspurð um hver mesta eftirsjáin er, en hún ásamt Gísli Níls Einarssyni og Sigurði Ými Sigurjónsyni sitja fyrir svörum um allt frá því hvaða bækur liggja á náttborðinu þeirra til dyggða og lasta. Það sem hræðir Gísla mest er að hafa ekki nægan tíma til að koma öllu í verk í þessu lífi. „Það er svo margt sem maður á eftir að gera.“ Að mati Sigurðar er hans helsti löstur leti og á hann það sameiginlegt með Ástu. „Ég er get verið ótrúlega latur. Ég er týpan sem keyri mig á batteríum og þarf að endurhlaða mig reglulega. Á þeim tímapunktum nenni ég ekki neinu,“ segir Sigurður. Sá eiginleiki sem Gísli vildi helst hafa er að geta sest niður hvar og hvenær sem er – líkt og bróðir hans Óskar gat gert – og fengið sér stutta kríu til að hlaða batteríin.
Er fullkomin hamingja til?
- Ásta Thoroddsen
Fullkomin hamingja er ... þegar ég hef fólkið mitt, börnin, barnabörnin, tengdabörnin og manninn minn nálægt mér. En svo er spurning hvort fullkomin hamingja er til? Hvað hræðist þú mest? Sem betur fer veit ég ekki hvað ég hræðist mest. En að missa heilsuna er hrikaleg tilhugsun. Fyrirmyndin? Ég gæti nefnt fólk sem mér finnst til fyrirmyndar en ég tel það ekki endilega vera mínar fyrirmyndir. Eftirlætismáltækið? Ætli við náum þessu, komist ekki næst því. Hver er þinn helsti kostur? Heiðarleiki og seigla. Hvað vildirðu verða þegar þú varst ung? Lengi vel sá ég sjálfa mig fyrir mér í sendiráði úti í heimi. Eftirlætismaturinn? Þessa vikuna eru það svínakóteletturnar sem hann Bolli minn býr til. Hvaða löst áttu erfiðast með að þola í fari annarra? Fals og óheiðarleika. Hverju ertu stoltust af að hafa áorkað? Að hafa komið frábæru börnunum mínum í heiminn. Svo er ég ákaflega stolt af því að hafa náð að stofna Rannsókna- og þróunarsetur um ICNP sem hefur hlotið viðurkenningu ICN, Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga. Eftirminnilegasta ferðalagið? Þau eru nú ansi mörg ferðalögin. Sumarið 2019 fór öll fjölskyldan, 19 manns, til Ítalíu þar sem við leigðum okkur stórt hús. Það var alveg magnað. Ofmetnasta dyggðin? Dugnaður. Sumir hafa alltaf svo brjálað að gera og virðast ekki gefa sér tíma til að njóta. Hver er þinn helsti löstur? Leti og félagsfælni í stórum hóp. Hverjum dáist þú mest að? Þegar ég skrifa þetta er alþjóðlegi Alzheimerdagurinn. Ég dáist að aðstandendum ungra einstaklinga sem greinst hafa með heilabilun. Magnús Karl Magnússon og Anna Ólafía Sigurðardóttir bera þar af, ég dáist að þeim og þau eru afar góðar fyrirmyndir. Eftirlætishöfundurinn? Enginn einn. Vigdís Grímsdóttir var lengi vel í uppáhaldi hjá mér. Hins vegar hef ég á undanförnum árum lesið bækur sem hafa skilið mikið eftir hjá mér, t.d. Veröld sem var eftir Stefan Zweig og Náðarstund eftir Hönnu Kent. Þýðingin á þeirri seinni er líka alveg frábær. Ofnotaðasta orðið eða orðatiltækið? Heyrðu, og klárlega. Mesta eftirsjáin? Það þýðir nú lítið að vera velta sér upp úr einhverju sem maður fær ekki breytt. Eftirlætisleikfangið? Ætli það sé ekki bara síminn. Bókin á náttborðinu? Fjórar bækur eftir Ólaf Jóhann Ólafsson og saklausar ástarsögur eftir Ingibjörgu Sigurðardóttur sem ég hafði aldrei heyrt um og komu út á 6. og 7. áratugnum. Eftir að hafa klárað Guðrúnu frá Lundi ákvað ég að skoða þessar. Mér áskotnuðust nokkrir bókakassar frá fólki sem var að flytja og ákvað að lesa fjölda bóka úr þeim sem ég hafði ekki áður lesið. Þetta hefur sparað margar ferðir á bókasafnið. Svo er spurning hvað á að gera við bækurnar eftir lesturinn. Stóra ástin í lífinu? Hann Bolli minn. Þitt helsta afrek? Fyrir utan að hafa komið börnunum fjórum í heiminn þá kýs ég að nefna doktorsgráðuna sem ég lauk seint og um síðir. Eftirlætisdýrið? Ekkert. Hvar vildir þú helst búa? Ég er mjög sátt við staðinn þar sem ég bý í Reykjavík. Hvað er skemmtilegast? Að ferðast og njóta matar með fjölskyldu og vinum. Hvað eiginleika metur þú mest í fari vina? Heilindi. Eftirlætiskvikmyndin? Engin. Markmið í lífinu? Að njóta hversdagsleikans og dagsins í dag. Hvaða starfsvettvang myndirðu kjósa annan en núverandi? Ég held að mér hefði þótt gaman að vera veðurfræðingur. Það gerir nördinn í mér. Eitthvað að lokum … Njótum dagsins í dag og ekki fresta því sem þig langar til að gera til morgundagsins. Maður er óþægilega oft minntur á að margir fengu ekki að njóta morgundagsins. Þetta gerist æ oftar enda ég komin á þann aldur.
„Sveltur sitjandi kráka en fljúgandi fær“
- Gísli Níls Einarsson
Fullkomin hamingja er ... að njóta að vera með fjölskyldunni og vera að veiða úti í á. Hvað hræðist þú mest? Að hafa ekki nægan tíma til að koma öllu í verk í þessu lífi. Það er svo margt sem maður á eftir að gera. Fyrirmyndin? Er þakklátur fyrir að hafa kynnst mörgum fyrirmyndum á lífsleiðinni sem hafa verið mér gott leiðarljós í lífinu. Foreldra mína sem kenndu mér jákvætt hugarfar og hugrekki til að leita á vit ævintýranna. Í hjúkruninni er ég afskaplega þakklátur fyrir fyrirmyndina sem ég fann í Margréti Tómasdóttir og Guðbjörgu Pálsdóttur hjúkrunarfræðingum sem eru miklir snillingar, leiðtogar og persónur. Frábærar fyrirmyndir. Eftirlætismáltækið? Sveltur sitjandi kráka en fljúgandi fær. Aðalhvatningarfrasinn hans pabba við mig þegar ég var að eitthvað væla utan í honum. Hver er þinn helsti kostur? Bjartsýnt viðhorf til lífsins og jákvæðni til að takast á við nýverkefni. Sömuleiðis drifkrafturinn við að koma hlutum af stað eða flokkast það kannski undir þrjósku? Hvað vildirðu verða þegar þú varst ungur? Fyrst vildi ég vera gröfumaður, svo rallí-bílstjóri, prestur, því næst slökkviliðsmaður og svo hjúkrunarfræðingur. Eftir erfitt val endaði ég svo á því að verða slökkviliðsmaður og hjúkrunarfræðingur. Eftirlætismaturinn? Nætursaltaður þorskur og hamsatólg. Hvaða löst áttu erfiðast með að þola í fari annarra? Undirförli, óheiðarleika og neikvæðni. Hverju ertu stoltastur af að hafa áorkað? Stoltastur að hafa loksins sjóast eftir að hafa verið sjóveikur fyrstu 3 mánuðina þegar ég byrjaði 16 ára til sjós. Eftirminnilegasta ferðalagið? Sex mánaða heimsreisan mín kringum hnöttinn sem hófst daginn eftir stúdentsútskriftina mína 1994. Heimsreisan byrjaði á því að flugvélin fór út af flugbrautinni í upphafi flugtaksins. „Fall er fararheill,“ sagði einhver – síðan stökk ég upp í næstu vél. Ofmetnasta dyggðin? Að vinnan sé allt. Hver er þinn helsti löstur? Get verið óþolinmóður þegar mér finnst hlutirnir ekki ganga nógu hratt fyrir sig. Vil þá ýta á eftir hlutum og stíg stundum á tær. Á líka til með að gera of miklar kröfur til annarra þar sem ég geri miklar kröfur til sjálfs mín. Hverjum dáist þú mest að? Get ekki annað en dáðst af fólkinu í landinu sem er nú að takast á við covid-19 heimsfaraldurinn. Þetta er meira en að segja það að sýna sterka samstöðu og úthald til að tryggja öryggi og lýðheilsu í samfélaginu okkar. Eftirlætishöfundurinn? Jo Nesbo og fleiri glæpasöguhöfundar eru vinsælir hjá mér. Mesta eftirsjáin? Fara ekki í meistaranám til Houston í Texax í „Emergency Nurse Practioner“ eins og til stóð. Var búinn að taka undirbúningsnámskeið fyrir bandaríska hjúkrunarleyfið í New York. En svo gripu örlögin inn í. Eftirlætisleikfangið? Fluguveiðistöngin og heimagerðu flugurnar. Bókin á náttaborðinu? Atomic Habits, Tiny Changes, Remarkable Results. Stóra ástin í lífinu? Drengirnir mínir tveir og Inga Lú, hjúkrunarfræðingur á A-2. Hvaða eiginleika vildirðu helst hafa? Að geta sest niður hvenær sem er og tekið 10-15 mínútna svefnpásu til að hlaða batteríin. Ótrúlegur eiginleiki sem Óskar bróðir minn gat alltaf nýtt sér. Þitt helsta afrek? Þátttaka í sjúkraflugi til Taílands á vegum forsætisráðuneytisins árið 2004 til að ná í slasaða Svía í kjölfar jarðskjálftaflóðbylgjunnar. Margir af þeim slösuðu voru að fara heim án barna sinna eða maka sem fundust ekki eftir flóðbylgjuna. Eftirlætisdýrið? Hundurinn Snúður hans Óla frænda. Hvar vildir þú helst búa? Í Ástralíu við ströndina og fara í sjóinn á hverjum degi. Það var himneskt að vera skiptinemi í Ástralíu. Hvað er skemmtilegast? Hlæja með vinum, ættingjum og vinnufélögum. Það er svo losandi á margan hátt að hlæja, jafnvel við erfiðar aðstæður. Hvað eiginleika metur þú mest í fari vina? Að þeir séu til staðar og tilbúnir að taka manni eins og maður er. Eitt það dýrmætasta í heimi er að eiga slíka vini því það er ekki sjálfgefið. Eftirlætiskvikmyndin? Forrest Gump og Yes Man. Markmið í lífinu? Að hafa áhrif til góðs í samfélaginu og gagnvart þeim sem eru mér næstir. Eftirminnilegasti sjúklingurinn? Það var eldri maður sem ég hjúkraði sem hjúkrunarnemi á A-7 í Fossvogi. Man alltaf svo vel hve hann var afskaplega þakklátur fyrir allt sem við Jón Símon, sjúkraliði á A-7, gerðum fyrir hann. Fékk líka aukainnsýn í hans líf og aðstæður þegar ég heimsótti hann eftir útskrift sem lið í hjúkrunarnemaverkefni mínu. Hvaða starfsvettvang myndirðu kjósa annan en núverandi? Stjórnun og stefnumótun á hug minn allan þessa daga. Sæi fyrir mér að feta mig inn á slíka braut innan heilbrigðisþjónustunnar. Eitthvað að lokum … Undanfarna mánuði hef ég fyllst miklu stolti af því að sjá hvernig hjúkrunarfræðingar hafa leikið lykilhlutverk í heilbrigðisþjónustunni gegn covid-faraldrinum. Það er trú mín að sú djúpa innsýn sem almenningur hefur að undanförnu fengið í nútímahlutverk og störf hjúkrunarfræðinga í covid-faraldrinum muni styðja enn betur við þróun og viðurkenningar á stéttinni til framtíðar.
Stærsta ástin mín í mínu lífi er ég! Svo er unnustinn í öðru sæti.
- Sigurður Ýmir Sigurjónsson
Fullkomin hamingja er ... Bundin við mjög stutt augnablik þegar maður nær að gleyma öllum öðrum tilfinningum og upplifir aðeins hamingju í því andartaki. Slík augnablik geta verið það að ná langtímamarkmiði líkt og að útskrifast úr krefjandi námi – yfir í einföldu hlutina líkt og að njóta kaffibolla í morgunsárið með ástvini. Slík augnablik skapa hamingjusamar minningar sem maður býr að alla lífsleiðina og kippa ávallt upp munnvikunum þegar maður minnist þeirra. Hvað hræðist þú mest? Það hljómar ögn kjánalega en minn helsti ótti eru hákarlar og djúpur sjór. Þessi ótti birtist bara allt í einu þegar ég var barn og hefur alltaf fylgt mér. Það hefur ekki einu sinni neitt atvik sem kallaði fram þann ótta – ég hef aldrei orðið fyrir hákarlaárás og sem barn horfði ég aldrei á myndir líkt og Ókindina. Fyrirmyndin? Mínar fyrirmyndir eru þær konur sem ólu mig upp: móðir mín og langamma. Þessar mögnuðu konur byrjuðu með lítið á milli fingranna en létu ekki deigan síga. Mamma eignaðist mig mjög ung og vann mjög mikið þegar ég var ungur til þess að fæða mig og klæða. Svo skellti hún sér í nám þegar yngri bróðir minn fæddist og kláraði framhaldsskóla nokkrum árum á undan mér. Í dag er þessi magnaða kona með meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum. Mínar helstu fyrirmyndir í hjúkrun eru hins vegar margar flottar konur. Ég man alltaf eftir Hönnu þegar ég starfaði á Landakoti á deild L2 sem í dag er orðið að Vífilsstöðum. Kristín Davíðsdóttir á smitsjúkdómadeild (ég lít svo upp til hennar að ég er með sama húðflúr og hún á hendinni). Listinn gæti haldið áfram en ég vil þó enda á að einn helsti hjúkrunarfræðingur sem ég lít upp til er Sigríður Zoëga. Ég var svo heppinn að fá hana sem leiðbeinanda í lokaverkefninu mínu í hjúkrunarfræði ásamt Brynju Ingadóttur. Eftirlætismáltækið? Hver er sinnar gæfu smiður. Hver er þinn helsti kostur? Ég er með mjög opið hugarfar. Það gerir mér kleift að takast auðveldlega á við breytingar sem koma til. Ég á þar með auðvelt með að setja mig inn í nýjar aðstæður og er með mikinn vilja til að læra á nýja hluti. Hvað vildirðu verða þegar þú varst ungur? Dýralæknir eða náttúrufræðingur. Ég hafði mikla ást á dýrum og náttúrunni. Ég lærði í raun ekki að elska mannfólk fyrr en ég varð 18-19 ára og fékk áhuga á hjúkrun um 22 ára. Eftirlætismaturinn? Það var alltaf pítsa, en í dag er það mjög breytilegt. Karríréttir eru komnir í mikið uppáhald nýlega. Hvaða löst áttu erfiðast með að þola í fari annarra? Metnaðarleysi. Á mjög erfitt með einstaklinga sem hafa engan áhuga á því sem þeir eru að gera og leggja engan metnað í verkið. Hverju ertu stoltastur af að hafa áorkað? Úff, nú á ég erfitt með mig. Ég er með mikið „impostor syndrome“. Ég verð að segja að ég sé stoltastur af að hafa klárað námið með öllum þeim aukaverkefnum sem ég tók að mér. Ég er líka mjög stoltur af NKN-námskeiðakerfinu sem ég og Elfa Rún Guðmundsdóttir byrjuðum með hjá Curator, félagi hjúkrunarnema. Eftirminnilegasta ferðalagið? Þegar ég fór sem leiðbeinandi í sumarbúðir fyrir hinsegin ungmenni í Þýskalandi. Var ótrúlega skemmtileg reynsla og ég var svo heppinn að fá að fara tvisvar. Ofmetnasta dyggðin? Hugrekki. Stundum er allt í lagi að vera hræddur og geta sagt skilið við aðstæður sem manni finnst maður ekki hafa neina stjórn á. Hver er þinn helsti löstur? Ég get verið ótrúlega latur. Ég er týpan sem keyri mig á batteríum og þarf að endurhlaða mig reglulega. Á þeim tímapunktum nenni ég ekki neinu. Hverjum dáist þú mest að? Aktívistum, einstaklingum í grasrótinni sem ýta af stað breytingum til hins betra. Eftirlætishöfundurinn? Það var alltaf J.K. Rowling – þar til hún kom upp um sig sem TERF (trans-exclusionary radical feminist). Ofnotaðasta orðið eða orðatiltækið? Brussan. Ég nota líklegast orðið „úbbs“ eða „ææ“ oftast. Mesta eftirsjáin? Að hafa verið lengi að átta mig á því hvað ég vildi í lífinu. En það er sömuleiðis einn af kostunum hjá mér. Ég lærði mjög mikið á því að hafa tekið minn tíma. Eftirlætisleikfangið? Eins og er er það nýi „instant-pot“ potturinn sem ég var að kaupa. Bókin á náttborðinu? Eins og er er ég að lesa „Getting off right: a safety manual for injection drug users“ sem part af undirbúningi fyrir sjálfboðaliðavinnu hjá Frú Ragnheiði. Annars hlusta ég bara mikið á hljóðbækur eða ASMR fyrir svefninn. Stóra ástin í lífinu? Stærsta ástin mín í mínu lífi er ég! Svo er unnustinn í öðru sæti. „If you can’t love yourself, how in the hell are you gonna love somebody else?“ -RuPaul. Hvaða eiginleika vildirðu helst hafa? Að vera orkumeiri. Ég þarf oft að taka mér góðan tíma í að hlaða batteríin áður en ég sný mér að öðrum verkefnum eftir vinnudaginn. Þitt helsta afrek? Ég fór úr því að vera lítill strákur sem var lagður í einelti í grunnskóla yfir í að vera einstaklingur sem sinnir öðrum einstaklingum. Ég fór úr því að vera ýtt til hliðar á skólagöngum yfir í að gegna formennsku í tveim félögum, vera kosinn forseti sviðsráðs í Stúdentaráði og fá stöðu aðstoðardeildarstjóra strax eftir nám. Ég fór úr því að eiga enga vini yfir í að eiga geðveikan vinahóp og frábæran unnusta. Mitt helsta afrek er að standa með sjálfum mér. Eftirlætisdýrið? Hundar. Ég gæti ekki ímyndað mér lífið eins og er án Röskvu minnar. Hvar vildir þú helst búa? Minn helsti draumur væri að búa í t.d. Kaliforníu eða Kanada. Þýskaland eða Svíþjóð eru líka ofarlega á listanum. Hvað er skemmtilegast? Frídagar þar sem ég hef engin plön. Þá fer ég að fikta í eldhúsinu og baka eða elda eitthvað nýtt. Hvað eiginleika metur þú mest í fari vina? Húmor, og ekki verra ef hann er ögn grófur. Það sem ég á sameiginlegt með einum besta vini mínum er það að við getum sagt mjög grófar sögur við hvort annað og hlegið eins og tröllskessur. Eftirlætiskvikmyndin? Þær eru nokkrar.The Phantom of the Opera, The Nightmare before Christmas, The Rocky Horror Picture Show (já, ég elska söngleiki). Svo get ég horft reglulega á klassískar myndir eins og Alien-myndirnar. Markmið í lífinu? Ég get ekki sagt að ég hafi mér lífsmarkmið, ég er meira í núinu. Núverandi markmiðið er að finna mér meistaranám við hæfi. Ef ég ætti mér lífsmarkmið væri það líklegast að njóta þess sem er og hafa eitthvað til þess að njóta. Eftirminnilegasti sjúklingurinn? Ég man alltaf eftir einni konu sem var með langt komna heilabilun. Þessi kona mundi samt alltaf hvað ég heiti. Hún var stödd á biðdeild eftir hjúkrunarheimili á Landspítalanum, en í hausnum var hún stödd á hóteli í Frakklandi. Kom alltaf fram á morgnana og heilsaði öllum með: „Bonjour!“ og var alltaf svo skemmtilega hissa að það væru íslensk dagblöð í boði á þessu franska hóteli. Hvaða starfsvettvang myndirðu kjósa annan en núverandi? Eins og er starfa ég sem aðstoðardeildarstjóri á Báruhrauni, Hrafnistu í Hafnarfirði. Ég er ráðinn þar til eins árs þannig að ég hef verið að spá í hvert ég stefni næst. Ég hef nokkra staði í huga en ég held að ég muni hafa hugann opinn. Það verður skemmtilegt að sjá hvar ég verð eftir ár. Eitthvað að lokum … Hjúkrunarfræðingar eru mögnuð stétt. Stéttin á meiri virðingu skilið en samfélag og stjórnvöld veita henni að svo stöddu. Stéttin er bundin við staðalímynd sem endurspeglar alls ekki raunveruleikann og við þurfum að vekja athygli á því. Við höfum rödd – notum hana. Hjúkrunarfræðingar, stöndum með okkur. Notum titil okkar með stolti og segjumst aldrei vera „bara“ hjúkrunarfræðingur.