Hjukrun.is-print-version

Sjálboðaliðastarf á Indlandi

3. tbl. 2020
Eyrún Gísladóttir

Eftir að Eyrún Gísladóttir útskrifaðist úr hjúkrunarfræði lét hún gamlan draum rætast að fara til Indlands til að kynnast menningu og þjóð Indverja, en ekki síður að vinna sem sjálfboðaliði við hjúkrun. Spítalinn sem hún vann á var ríkisrekinn og þar var mikil fátækt. Rúmin voru óhrein, áhöld skítug og maurar skriðu á veggjum. En fólkið var brosmilt og hamingjusamt. Eyrún, sem er reynslunni ríkari eftir dvölina, gefur lesendum innsýn í fjarlægan veruleika og hvetur hjúkrunarfræðinga sem hafa tök á að fara utan í sjálfboðaliðastarf.

Haustið eftir að ég útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá Háskólanum á Akureyri fyrir þremur árum fór ég til Indlands í sjálfboðaliðastarf. Mig hafði lengi dreymt um að ferðast til Indlands, kynnast menningu og þjóð og sinna sjálfboðastarfi þar. Ég hafði lesið bók sem heitir Shantaram eftir Gregory David Roberts sem fjallar um mann sem fer til Indlands og sinnir einhvers konar sjálfboðastarfi í fátækrahverfi í Mumbai. Að lesa frásagnirnar af stórkostlegri menningu Indlands en líka þeirri gríðarlegu fátækt sem þar er og heilbrigðisvandanum sem því fylgir, varð til þess að Indland varð fyrir valinu. Mig langaði líka að láta gott af mér leiða í fátæku samfélagi þar sem heilbrigðisþjónustu er ábótavant en meirihluti indversku þjóðarinnar tilheyrir lágstétt og hefur skertan aðgang að upplýsingum um heilbrigðismál og þjónustu í heilbrigðiskerfinu.

Þetta var kannski ekki mjög dæmigerð útskriftarferð en fyrir mig var þetta nauðsynlegt ferðalag til að þroskast og kynnast sjálfri mér. Margir telja Indland vera hættulegt fyrir konu að ferðast ein en mér fannst ég þurfa að takast á við þetta verkefni ein og það gerði ég. Ferðalagið byrjaði á þriggja vikna sjálfboðaliðastarfi í Himachal Pradesh-héraði á Norður-Indlandi. Því næst fór ég í 7 daga jógaferð til jóga-höfuðborgar Indlands, Rishikesh, og að lokum 10 daga lestarferð um Suður-Indland og Karnataka. Ég lærði ótrúlega margt af sjálfboðaliðastarfinu, en ekki síður af jóganu og ferðalaginu um Indland. Ég nýti mér reynsluna sem ég öðlaðist þarna mikið í daglegu lífi, bæði í starfi og einkalífi.

Ég fór því ekki í sturtu í heilar 3 vikur en fór í svokallað „fötubað“ þar sem fata er fyllt af vatni og ausa er notuð til að ausa yfir mann vatni. Það að fara ekki í sturtu í 3 vikur er lífsreynsla fyrir sig og minnir mann á hversu mikil forréttindi það eru að búa á Íslandi og fá hreint og heitt vatn alla daga.

Himachal Pradesh

Himachal Pradesh-hérað er á Norður-Indlandi rétt við Himalajafjöllin. 90% íbúa í Himachal Pradesh búa í dreifbýli og þar ríkir mikil fátækt og langt að sækja heilbrigðisþjónustu. Ég bjó í þorpi sem heitir Palampur og var umhverfið stórkoslegt í kringum húsið sem ég bjó í, Himalajafjöllinn í bakgarðinum og te-akrar umluktu allt. Fínasta aðstaða var í húsinu sem ég bjó í en engin sturta og heitt vatn af skornum skammti. Ég fór því ekki í sturtu í heilar 3 vikur en fór í svokallað „fötubað“ þar sem fata er fyllt af vatni og ausa er notuð til að ausa yfir mann vatni. Það að fara ekki í sturtu í 3 vikur er lífsreynsla fyrir sig og minnir mann á hversu mikil forréttindi það eru að búa á Íslandi og fá hreint og heitt vatn alla daga. Í Palampur koma ekki margir ferðamenn og því þótti ég merkileg sjón, bæði í þorpinu þar sem ég bjó og á sjúkrahúsinu. Fólki þótti gaman að því að hitta mig og vildu flestir tala við mig og taka myndir af mér. Það var ofboðslega skrítin tilfinning að vera frábrugðin öllum öðrum, en líka gaman að fá að kynnast alls konar fólki og menningu þess. Á meðan á sjálfboðaliðastarfinu stóð fór ég í indverskt brúðkaup, stundaði jóga, fékk kennslu í hindí og lærði að elda alls konar indverskan mat.

Sjálfboðaliðastarfið

Ég sinnti sjálfboðastarfi á sjúkrahúsi í þorpi sem heitir Paprola og er stutt frá Palampur. Sjúkrahúsið, sem ég starfaði á, heitir Rajiv Gandhi Ayurvedic Hospital en það er ríkisrekið háskólasjúkrahús með 200 rúmplássum. Sjúkrahúsið sinnir flestu eins og sjúkrahús hérlendis ásamt því að vera með ajúrveda-lækningar. Hugtakið ajúrveda felur í sér samþættingu hugar, líkama, tilfinningar og sálar og er þar notast við ýmsar náttúrujurtalækningar. Á sjúkrahúsinu voru ræktaðar ýmsar lækningajurtir sem voru gefnar í bland við önnur lyf og var boðið upp á margs konar ajúrveda-meðferð.

Þar sem að sjúkrahúsið var ríkisrekið gat fólk af lægri stéttum sótt þjónustu þangað, þ.e. þeir sem ekki höfðu mikið á milli handanna. Efnaðra fólk sótti sína þjónustu á einkarekin sjúkrahús en þar er búnaður og þjónusta mun betri. Á sjúkrahúsinu í Paprola þurfti fólk ekki að borga fyrir sjúkrahúsdvölina en sjúklingar þurftu að kaupa sjálfir öll lyf og allan búnað, þ.e. nálar, sprautur, æðaleggi, vökvasett o.s.frv. Apótek var á sjúkrahúsinu þar sem hægt var að kaupa lyfin og búnaðinn.

Sjúkrahúsið var mjög óhreint, veggir og gólf mjög skítug, rúmin voru óhrein og maurar skriðu um alla veggi og rúm. Rusli var hent út um glugga á sjúkrahúsinu, alls konar matarleifum, úrgangi, lyfjaafgöngum, nálum o.fl., og safnaðist það fyrir á gluggasyllum sjúkrahússins með tilheyrandi lykt og pöddum.
Sjúklingar lágu á herbergjum með mörgum öðrum og í flestum tilfellum fylgdi stórfjölskyldan með sjúklingunum, börn, makar, foreldrar, afar, ömmur, frændur og frænkur. Því voru stofurnar á sjúkrahúsinu mjög þéttsetnar. Fjölskyldan sinnti þeirra helstu þörfum sem og að aðstoða við klósettferðir, að klæða sig og fleira. Fjölskyldan kom með allan mat og sátu oft stórfjölskyldurnar á göngunum að borða. Klósettin á sjúkrahúsinu voru holur eins og tíðkast á Indlandi. Sjúkrahúsið var mjög óhreint, veggir og gólf mjög skítug, rúmin voru óhrein og maurar skriðu um alla veggi og rúm. Rusli var hent út um glugga á sjúkrahúsinu, alls konar matarleifum, úrgangi, lyfjaafgöngum, nálum o.fl., og safnaðist það fyrir á gluggasyllum sjúkrahússins með tilheyrandi lykt og pöddum.

Sjálfboðaliðastarfið mitt fól í sér aðallega að gefa lyf í æð eða vöðva, en hjúkrunafræðingarnir á deildinni sinntu eingöngu lyfjagjöf og skráningu. Læknar fóru svo sinn stofugang eins og tíðkast einnig hérlendis. Flestir læknarnir voru ungar konur að læra lækningar og þetta þótti mér mjög skemmtilegt að sjá miðað við ríkjandi karlamenningu Indlands.

Búnaður á sjúkrahúsinu var af skornum skammti, spritt var ekki til á sjúkrahúsinu eða að minnsta kosti ekki til notkunar fyrir hjúkrunarfræðinga eða sjúklinga. Við þvoðum hendurnar með sápustykki sem allir deildu og hanska sá ég aðeins einu sinni og þá héngu þeir til þerris eins og ætti að endurnýta þá. Ég keypti mér spritt sem ég hafði á mér alla daga og hvatti samstarfsfólk mitt til að hósta í olnboga og gaf því spritt til að spritta hendur á milli sjúklinga. Ég held að þeim hafi fundist ég stórfurðuleg. Ég lenti í því einn daginn að stinga mig á notaðri nál og þegar ég spurðist fyrir hvað ég ætti nú að gera var ég hvött til að þvo mér um hendurnar.

Nálarnar notuðum við aftur og aftur hjá sömu sjúklingum þar sem of dýrt var fyrir sjúklingana að kaupa nýjar nálar. Um æðaleggina og vökvasettin skriðu maurar og þegar vökvasettin voru ekki í notkun skriðu maurarnir upp og niður slöngurnar.
Eins og kom fram þurftu sjúklingar að borga fyrir öll lyf og búnað og því þurftum við að passa mjög vel að setja rétt upp æðaleggi því að ef uppsetningin mistókst þurfti sjúklingurinn sjálfur að kaupa nýjan æðalegg. Í sumum tilfellum tókst uppsetningin illa en æðaleggirnir voru samt notaðir og í flestum tilfellum voru æðaleggirnir allt of lengi í sjúklingum og margir komnir með æðabólgu. Nálarnar notuðum við aftur og aftur hjá sömu sjúklingum þar sem of dýrt var fyrir sjúklingana að kaupa nýjar nálar. Um æðaleggina og vökvasettin skriðu maurar og þegar vökvasettin voru ekki í notkun skriðu maurarnir upp og niður slöngurnar. Ampúllurnar með saltvatninu voru brotnar annað hvort með óhreinum matarhníf eða á gluggasyllu þar sem glerið var mjög þykkt og ekki hægt að brjóta það með höndunum. Eftir lyfjagjöf voru nálarnar og annar búnaður skilinn eftir á rúmi sjúklingsins og hann átti að sjá um að farga því.

Stúlkubörn enn borin út á Indlandi

Á sjúkrahúsinu kynntist ég fæðingarlækni og aðstoðaði ég hana við ómskoðun óléttra kvenna. Þar fengu konurnar ekki að vita kyn barnsins. Samkvæmt lögum á Indlandi mega fæðingarlæknar ekki segja frá kyni barns, en algengt er að stúlkubörnum sé eytt eða þau séu borin út eftir fæðingu. Konurnar þurftu líka að skrifa undir skjal um að ef þær myndu fæða stúlkubarn myndu þær ekki drepa barnið. Mér er alltaf minnisstætt þegar hjúkrunarfræðingur sagði við móður sem eignaðist strák að nú væri fjölskyldan fullkomnuð.

Á sjúkrahúsinu fékk ég líka að fylgjast með ýmsum aðgerðum, margs konar meðferð o.fl. og var ég viðstödd fæðingu í fyrsta skipti. Það var eiginlega bara skelfileg sjón, það væri lygi ef ég segði annað. Konan var látin hálfsitja á bekk með þrjá lækna yfir sér og þegar barnið var að koma var spöngin klippt með mjög svo óhreinum skærum. Barnið var svo tekið af móðurinni og farið með það án þess að sýna móðurinni barnið og var hún svo saumuð saman. Ég veit ekki hvað leið langur tími þangað til móðirin fékk að sjá barnið sitt en það var að minnsta kosti ekki inni á fæðingarstofunni. Myndirnar sýna betur hvað ég á við með orðum mínum um skelfilega sjón. Ári síðar fæddi ég mitt fyrsta barn og var mér mikið hugsað til þessarar fæðingu og móðurinnar á sjúkrahúsinu á Indlandi.

Gefandi að hjúkra þeim sem höfðu ekki efni á heilbrigðisþjónustu

Sjálfboðastarfið sem ég átti að sinna var því miður ekki vel heppnað þó svo að ég hafi fengið að sjá og kynnast ýmislegu sem ég hef klárlega lært af. Tungumálaerfiðleikar og samskiptaleysi á milli sjúkrahússins og samtakanna sem ég var með á Indlandi varð til þess að ég var, að virtist, mest til sýnis og sat oft og gerði ekkert allan daginn á sjúkrahúsinu. Í lokin fékk ég að vera styttri daga á sjúkrahúsinu og fór að aðstoða vinkonu mína sem bjó með mér í sjálfboðaliðahúsinu við að kenna börnum í litlu þorpi í fjöllunum nálægt. Þorpið er á mjög einangruðum stað og þar ríkir gríðarleg fátækt. Á skilti fyrir utan þorpið stóð nafnið á þorpinu og fyrir neðan það stóð „below poverty line“, undir fátæktarmörkum.

Við kenndum börnunum stærðfræði og ensku en fórum líka í ýmsa leiki með þeim. Í þorpinu spurðist út að ég væri hjúkrunarfræðingur og komu nokkrir íbúar til mín og fengu mig til að líta á og búa um sár. Það þótti mér ótrúlega gefandi, og ef ég hefði ráðið mínu sjálfboðastarfi hefði ég frekar viljað starfa í þorpinu við að stuðla að forvörnum og hjúkra þeim veiku sem ekki höfðu efni á heilbrigðisþjónustu eða gátu ekki ferðast úr þorpinu. Mér hefur mikið verið hugsað til fólksins í þorpinu og þá sérstaklega krakkanna en því miður eru ýmsar reglur sem koma í veg fyrir að ég geti aðstoðað fjölskyldur í þessu þorpi. Ég get ekki einu sinni sent þeim föt eða búnað og það þykir mér miður.

Fólkið sem ég kynntist er stórkostlegt fólk og held ég að ég hafi aldrei hitt jafn hamingjusamt fólk og Indverja. Indland mun alltaf eiga stað í hjarta mínu og ég mun fara þangað aftur enda ekki búin að skoða nema smápart af risastóru landi. Á meðan kirja ég möntrur hér heima, stunda jóga og læt mig dreyma um brosandi vini mína á Indlandi.
Þegar sjálfboðaliðastarfinu var lokið fór ég til Rishikesh, jóga-höfuðborgar Indlands. Þar var ég í 7 daga og stundaði jóga og hugleiðslu alla daga. Ég endaði svo ferðalagið á 10 daga lestarferð um Suður-Indland og Karnataka en ég ferðaðist þar ásamt hópi fólks. Á öllu þessu ferðalagi kynntist ég stórkostlegri menningu Indlands og fólkinu þar. Fólkið sem ég kynntist er stórkostlegt fólk og held ég að ég hafi aldrei hitt jafn hamingjusamt fólk og Indverja. Indland mun alltaf eiga stað í hjarta mínu og ég mun fara þangað aftur enda ekki búin að skoða nema smápart af risastóru landi. Á meðan kirja ég möntrur hér heima, stunda jóga og læt mig dreyma um brosandi vini mína á Indlandi.

Ég mæli með því að allir hjúkrunarfræðingar prófi a.m.k. einu sinni á ævinni að fara til útlanda í sjálfboðaliðastarf. Það að stíga út fyrir þægindarammann, víkka sjóndeildarhringinn og kynnast menningu sem er ólík okkar þroskar mann bæði sem fagmanneskju og sem einstakling. Maður öðlast aðra sýn á lífið og lærir m.a. að meta það sem það hefur fært manni og ég get með sanni sagt að reynsla mín sem sjálfboðaliði hefur gert mig að betri hjúkrunarfæðingi og manneskju.

Pistlar og viðtöl

Heilbrigðiskerfi

Hjúkrun

Hreinlæti

Útlendingar

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála