Tæpitungulaust: Hvað get ég gert núna?
Við getum aðeins þrifist vel og búið við farsæld ef annað í kringum okkur, fólk, dýr, jurtir, land, vatn og haf, þrífst einnig vel. Allir geta gert eitthvað, hver starfsstétt, hver fjölskylda, hver einstaklingur. „Gefum af okkur – sýnum góðvild og samkennd.“ Veldu þér stað og hlutverk og taktu þátt í endurreisninni.
„Ég hef oft hugsað um þessa spurningu: „Hvað get ég gert?“ En þegar ég á að fara að tala um þetta finnst mér ég ekkert geta sagt. Kannske er það af því að ég veit ekki hvað ég á að gera.“ Þannig skrifaði Sigursteinn faðir minn í hugleiðingu tvítugur að aldri. Hann fjallar þar um hugsanlegt hlutverk sitt í lífinu og tækifæri til að láta gott af sér leiða. Hann talar um hvað það er auðvelt að gera eitthvað allt annað, kannski vegna eigingirni, óþolinmæði eða leti. Það er svo auðvelt að fljóta sofandi að feigðarósi án þess að vinna afrek. Hver hefur sitt hlutverk, gefur sér eða velur hlutverk í lífinu ef gæfan lofar. Þetta var skrifað fyrir 72 árum. En um svipað leyti útskrifaðist David Attenborough frá Cambridge í náttúruvísindum og hugleiddi eflaust það sama.
Nú vitum við að enginn verður hamingjusamur með því að hugsa einungis um sjálfan sig. Okkur ber nú skylda til að hjálpa hvert öðru ef um hættulegar aðstæður er að ræða. En til að bæta samskiptin þurfum við að efla tiltekin lífsgildi og gera eitthvað fallegt fyrir aðra.
Að breyta hjartalagi
Hvað get ég gert? er spurning sem einnig ég hef glímt við, kannski erfði ég hana en vonandi er hún sammannleg. Ég gerði tilraun til að svara henni almennt í bókinni Heillaspor – gildin okkar (Forlagið, 2020). Til að svara þessari spurningu setti ég fram tilgátu um hvernig góðvildin birtist í veröldinni sem löngun til að breyta hjartalagi fólks. Þessi hugsun, löngun og síðast en ekki síst hjálpsemi breytti öllu til betri vegar. Einn hópur fólks fann til með öðrum hóp sem átti bágt. Þau settu sig í spor þeirra, ímynduðu sér hvernig þeim liði og spurðu sig: „Hvað get ég gert til að þeim líði betur?“ Þau ákváðu að rétta þeim hjálparhönd. Engum bar skylda í upphafi til að hjálpa enda var ekki búið að spá fyrir um þetta atferli. Nú vitum við að enginn verður hamingjusamur með því að hugsa einungis um sjálfan sig. Okkur ber nú skylda til að hjálpa hvert öðru ef um hættulegar aðstæður er að ræða. En til að bæta samskiptin þurfum við að efla tiltekin lífsgildi og gera eitthvað fallegt fyrir aðra.Þurfum meira en gáfur
David Attenborough, sem er af sömu kynslóð og pabbi, Vigdís Finnbogadóttir og vinir hennar, spurði sig aftur 93 ára gamall eftir áratuga farsælt starf við að miðla villtu dýra- og plöntulífi til almennings í sjónvarpi og bókum: „Hvað get ég gert núna?“ Til að svara spurningunni gerði hann kvikmyndina A Life On Our Planet sem var frumsýnd í október 2020. Markmiðið var að sýna og sannfæra: að okkur ber skylda til að hætta að eyðileggja villt svæði á jörðinni og skaða líffræðilega fjölbreytni. Við eigum að hlúa að því villta.
Attenborough varð vitni að því hvernig villt svæði lífríkisins á jörðinni skruppu saman frá árinu 1937 úr 66% hlutfalli í 35% árið 2020. Lífið á jörðinni var í jafnvægi í tíu þúsund ár, þar sem árstíðir skiptust á eins og eftir klukkunni, en nú stefnir í sjötta útrýmingarskeiðið. Helmingur trjáa í regnskógum hefur verið felldur, meðal annars til að framleiða pálmaolíu og kjöt. Regnskógurinn í Borneó í Asíu hefur til að mynda minnkað um helming af mannavöldum. Helmingur frjósams jarðvegs á jörðinni er nú ræktað land.
Heimkynni okkar eru takmörkuð auðlind. Villifána (wild fauna) jarðar er ekki aðeins takmörkuð auðlind heldur einnig á hverfanda hveli.
Stóra verkefnið fram undan er ekki að endurreisa efnahag og atvinnulíf til sama horfs og áður heldur að endurnýja það í nafni sjálfbærni, ekki aðeins til að hjálpa jörðinni og villtu dýra- og plöntulífi heldur einnig til að bjarga sjálfum okkur frá þjáningunni. Mannkynið hefur lagt alla jörðina undir sig og fátt eitt af villtri náttúru er ósnert.
Attenborough segir að við þurfum ekki aðeins gáfur/skynsemi til að snúa þróuninni við heldur einnig visku. Hann segir ekki hvers konar visku heldur skilur áhorfendur eftir með þá spurningu í huga. Hver er þessi viska? Tæpitungulaust tel ég að viskan sé:
- kærleikur: að breiða góðvild út um víða veröld öllum til handa
- mildi: að efla mannúð og læra að bregðast fallega við
- umhyggja: að skilja að allir þurfa á hlýju að halda
- yndi: að njóta samskipta við fólk og náttúru
- náttúruást: að tengja saman ástríkið á jörðinni undir heiðskírum himni.
Stóra verkefnið fram undan er ekki að endurreisa efnahag og atvinnulíf til sama horfs og áður heldur að endurnýja það í nafni sjálfbærni, ekki aðeins til að hjálpa jörðinni og villtu dýra- og plöntulífi heldur einnig til að bjarga sjálfum okkur frá þjáningunni. Mannkynið hefur lagt alla jörðina undir sig og fátt eitt af villtri náttúru er ósnert. Kvikmynd Attenboroughs er vitnisburður um það og við þurfum núna útsjónarsemi til að bjarga villtum dýrum og líffræðilegum fjölbreytileika undan okkur sjálfum.
Villt svæði fánu og flóru
Við þurfum að æfa okkur í gagnrýnni og skapandi hugsun og læra að vega og meta sambandið milli lífsgilda og farsældar í lífinu til að takast á við ringulreiðina sem gæti verið fram undan. Við þurfum að kenna kærleika, mildi og umhyggju af krafti. Við þurfum að taka boðskap Davids Attenborough alvarlega og endurreisa líffræðilegan fjölbreytileika og endurheimta villt svæði fánu og flóru. Fylla það sem við tæmdum.Við þurfum að setja aukinn kraft í að ná sautján heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir í loftslagsmálum, sjálfbærar borgir og samfélög, ábyrga neyslu og framleiðslu o.s.frv. Það er enn þá raunhæfur möguleiki, og að ná í leiðinni markmiðum um enga fátækt og ekkert hungur með auknum jöfnuði. Það grætilega er að við erum að tortíma á tímum þar sem við höfum tækifæri til að efla líffræðilega fjölbreytni.
Snúum þróuninni við! Það er enn ráðrúm til að breyta.