Á fjórða tug hjúkrunarfræðinga verið sæmdir riddarakrossi fyrir framlag til hjúkrunar
1. tbl. 2021
Á fjórða tug hjúkrunarkvenna og -fræðinga hafa verið sæmdir riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu sem er æðsta heiðursmerki sem íslenska ríkið veitir fólki. Fyrsta hjúkrunarkonan, sem hlaut þessa viðurkenningu, var Kristín Thoroddsen yfirhjúkrunarkona en hún var sæmd riddarakrossi 1. janúar 1954 fyrir störf sín við Landspítalann frá stofnun hans. Fálkaorðan er veitt tvisvar á ári, 1. janúar og 17. júní, af forseta Íslands en stofnað var til orðunnar 1921.
Fálkinn var lengi útflutningsvara frá Íslandi og var talinn vera glæsileg gjöf til tignarmanna. Hann var auk þess uppistaðan í skjaldarmerki Íslands á árunum 1903-1919. Markmiðið með orðuveitingunni er að veita þeim sem skarað hafa fram úr öðrum í því að efla heiður og hag fósturjarðarinnar opinbera viðurkenningu. Með stofnun lýðveldisins 1944 varð forseti Íslands stórmeistari fálkaorðunnar.
Hafa lyft grettistaki á sviði hjúkrunar- og heilbrigðismála
Hjúkrunarfræðingar hafa í gegnum tíðina lagt mikið af mörkum með störfum sínum til bæði íslensks samfélags og alþjóðlegs. Fyrir það ber að þakka. Það er því ætíð ánægjuefni þegar viðurkenningar á borð við æðsta heiðursmerki, sem íslenska ríkið veitir fólki, falla þeim í skaut. Á listanum yfir þá hjúkrunarfræðinga sem sæmdir hafa verið riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu má sjá hjúkrunarfræðinga sem hafa lyft grettistaki á sviði hjúkrunar-og heilbrigðismála. Má þar nefna störf í þágu sjúkra, mannúðarstörf, líknar-og hjúkrunarstörf, kennslustörf, stjórnunarstörf, brautryðjendastörf á ýmsum sviðum og framlag til alþjóðlegs hjálparstarfs í þróunarlöndum.Íslenskir orðuþegar eru að jafnaði ríflega tugur hverju sinni en í ársbyrjun voru tveir hjúkrunarfræðingar sæmdir riddarakrossi fyrir framlag þeirra til hjúkrunar. Það voru þær Helga Sif Friðjónsdóttir geðhjúkrunarfræðingur fyrir brautryðjendastörf á vettvangi skaðaminnkunar fyrir fíkniefnaneytendur og aðra jaðarsetta hópa og Vilborg Ingólfsdóttir, hjúkrunar- og lýðheilsufræðingur, fyrir framlag til hjúkrunar og heilbrigðisþjónustu á Íslandi og á alþjóðavettvangi. Árið áður var Sigurborg Ingunn Einarsdóttir, fyrrverandi hjúkrunarforstjóri og ljósmóðir á Eskifirði, sæmd riddarakrossi fyrir framlag til heilbrigðisþjónustu í heimabyggð og árið 2019 var Auðbjörg Brynja Bjarnadóttir, ljósmóðir og hjúkrunarstjóri á Kirkjubæjarklaustri, sæmd riddarakrossi fyrir framlag til heilbrigðis- og björgunarstarfa í heimabyggð.
Tók virkan þátt í mótun hjúkrunarnámsins á háskólastigi
Vilborg Ingólfsdóttir hjúkrunar- og lýðheilsufræðingur var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag til hjúkrunar og heilbrigðisþjónustu á Íslandi og á alþjóðavettvangi 1. janúar síðastliðinn. Vilborg var í fyrsta hópnum sem nam hjúkrunarfræði í Háskóla Íslands árið 1973 en hún hafði þá þegar lokið námi við Hjúkrunarskóla Íslands og unnið við hjúkrun í tvö ár. Þar áður hafði hún einnig lokið stúdentsprófi. Það var enginn í hennar nærumhverfi sem starfaði við heilbrigðisþjónustu og hún segir tilviljun hafa ráðið því að hún lagði hjúkrun fyrir sig. Eftir sumarvinnu á Landspítalanum varð ekki aftur snúið. „Ég heillaðist og þarna fann ég minn vettvang,“ rifjar Vilborg upp en hún vann áfram þar samhliða menntaskóla.Fyrsti hjúkrunarfræðingurinn hjá embætti landlæknis
Í ljósi reynslu og þekkingar á hjúkrun tók hún virkan þátt í mótun hjúkrunarnámsins í Háskóla Íslands. Að útskrift lokinni bjó hún í Svíþjóð í fimm ár, starfaði þar við hjúkrun og stundaði nám til meistaragráðu í lýðheilsufræðum sem þá var lítið þekkt nám hér á landi. Hún starfaði á Landspítalanum eftir að heim var komið en árið 1985 var Vilborg fyrsti hjúkrunarfræðingurinn sem ráðinn var hjá embætti landlæknis en embættið var stofnað 1760. Hún var þá einn af fimm starfsmönnum embættisins, en þegar hún lét þar af störfum tuttugu árum síðar störfuðu þar átta hjúkrunarfræðingar. Þá fór hún til starfa í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, síðar í félags- og tryggingamálaráðuneytinu og lauk opinberum starfsferli sínum í velferðarráðuneytinu. Vilborg starfaði í fjölda ára við ráðgjöf hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) og var um skeið yfirmaður hjúkrunar hjá Evrópuskrifstofu WHO. Þá var hún um margra ára skeið formaður ljósmæðraráðs og hjúkrunarráðs.Farsæll starfsferill með hjúkrun að leiðarljósi
Þakklæti er ofarlega í huga Vilborgar aðspurð um þá viðurkenningu sem hún hlaut fyrir skömmu. „Með þessari sæmd er mér mikill heiður sýndur og tók ég við henni af mikilli gleði og af mikilli auðmýkt. Á starfsferli mínum hafa mér gefist ótal tækifæri til að móta og innleiða nýjungar sem varða hjúkrun, heilbrigðisþjónustu og ýmsa þætti lýðheilsu. En sæmdin er einnig þeirra sem trúðu á mig, treystu mér, gáfu mér tækifæri, stóðu með mér, studdu mig, deildu með mér lífsviðhorfum, gildum og trúnni á mátt forvarna, hjúkrunar og samstarfs heilbrigðisstétta svo og mikilvægi þátttöku einstaklinga og samfélaga í góðri heilsu og vellíðan einstaklinga,“ segir Vilborg.Það er óhætt að segja að Vilborg eigi farsælan starfsferil. „Ég hef alltaf verið í svo mörgum og fjölbreyttum verkefnum að ég hef sjaldnast staldrað við,“ segir hún, „en ég hef alltaf haft hjúkrun að leiðarljósi og er svo hamingjusöm að hafa valið að leggja fyrir mig hjúkrun. Mér hafa verið gefin svo ótal mörg tækifæri að móta nýjungar í hjúkrun og lýðheilsu,“ segir hún. „Ég hef áhuga á öllu sem lýtur að góðri heilsu og vellíðan einstaklinga og samfélaga en kjarninn minn er í hjúkrun.“
Viðurkenning á mannréttindum og að gefast ekki upp
Helga Sif Friðjónsdóttir geðhjúkrunarfræðingur var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir brautryðjandastörf á vettvangi skaðaminnkunar fyrir vímuefnaneytendur og aðra jaðarsetta hópa. „Ég er enn að meðtaka þessa viðurkenningu,“ segir Helga Sif en hún fékk símtal um miðjan desember frá ritara orðunefndar þess efnis hvort hún vildi þiggja viðurkenninguna. „Ég hef alltaf fylgst með þessu, hverjir fá orðurnar. Ég hugsaði með mér að ég er eingöngu 45 ára … er þetta ekki fyrir vel unnið ævistarf? hugsaði ég.“Vegna aðstæðna í samfélaginu var orðuveitingin með öðru sniði en vant er og fengu orðuhafar 15 mínútur hver ásamt gesti með forsetanum og forsetafrúnni. „Fyrir vikið var þetta enn persónulegra, held ég, og fékk sonur minn að koma með mér en hann er árinu yngri en Frú Ragnheiður en frúin verður einmitt 12 ára núna í október. Sonur minn hélt lengi vel á sínum yngri árum að við tvö ættum sjúkrabílinn,“ segir Helga. Eftir samveruna með forsetahjónunum á Bessastöðum áttaði Helga sig í raun á því hversu mikilvægt það hafði verið að þora að taka þetta brautryðjendaskref. „Ég hef oft hugsað um seigluna sem einkenndi fyrstu árin, að standa þarna vaktina ár eftir ár, og þar með dvelja í fullvissunni um að skaðaminnkun í formi nálaskiptiþjónustu á vettvangi í samfélaginu muni skila færri smitum og betri lífsgæðum fyrir fólk. Það tekur tíma að ná til hópsins með þjónustu og það má ekki gefast upp þó enginn komi í margar vikur. Í raun finnst mér því riddarakrossinn vera þakkir að einhverju leyti fyrir að gefast ekki upp. Mér finnst málsvarastarf sem þetta eitt það mikilvægasta sem hjúkrunarfræðingar sinna í sínu starfi.“ Helga segir viðurkenninguna einnig endurspegla traustið á gagnreynda þekkingu hjúkrunarfræðinga – að trúa á mikilvægt framlag hjúkrunarfræðinga. „Þetta er í raun viðurkenning á mannréttindum – að allir hafi jafnan rétt á heilsu og þjónustu,“ segir hún.
Skaðaminnkun byggist á grunngildum lýðheilsu
Helga kynntist því í Seattle í Bandaríkjunum hversu gefandi það er að vinna sjálfboðaliðastarf en þar í borg lauk hún meistara- og doktorsnámi í geðhjúkrun frá Washingtonháskóla. Þar kynntist hún fyrst hugmyndinni um skaðaminnkun sem byggist á grunngildum lýðheilsu, að fólk geti búið við bestu mögulega heilsu miðað við aðstæður, og hlaut hún þjálfun í sjálfboðaliðaverkefni sem byggðist á skaðaminnkun. Sú reynsla átti eftir að koma að góðum notum þegar hún vann brautryðjendastarf við að koma á fót skaðaminnkun í samstarfi við Rauða krossinn í Reykjavík árið 2009. Til þess þurfti bíl, sprautubúnað og að þjálfa sjálfboðaliða. Rauði krossinn átti hjólhýsi og stóran jeppa, auk þess að leggja til 20% stöðu verkefnastjóra í þetta verkefni. Þegar auglýst var eftir sjálfboðaliðum var þátttakan svo góð að hægt var að fara af stað með tvær vaktir á viku. Árið 2012 var keyptur notaður sjúkrabíll en kaupin á sjúkrabílnum gerðu gæfumuninn fyrir þjónustu Frú Ragnheiðar að því leyti að hægt var að koma þjónustunni nær fólkinu. Gamla hjólhýsið komst ekki að gistiskýlinu sem þá var staðsett í Þingholtum en þar voru margir í gistingu sem Frú Ragnheiðursinnti. „Það varð gríðarleg aukning á notkun þjónustunnar með tilkomu sjúkrabílsins en við þurfum alltaf að hugsa um hvernig við getum aukið aðgang að okkur,“ segir Helga. „Það þarf ekki að breyta heiminum. Það þarf bara að þora og treysta eigin þekkingu. Það sem hægt er að gera á vettvangi er nóg. Það er fegurðin í hjúkruninni og skaðaminnkun.“Hjúkrunarfræðingar sem sæmdir hafa verið riddarakrossinum
Anna María Hansen, 1980, hjúkrunarforstjóriAnna Stefánsdóttir, 2016, formaður Rauða kross Íslands, fyrir störf í þágu heilbrigðis- og mannúðarmála
Auðbjörg Brynja Bjarnadóttir, 2019, ljósmóðir og hjúkrunarstjóri, fyrir framlag til heilbrigðis- og björgunarstarfa í heimabyggð
Auður Guðjónsdóttir, 2002, fyrir störf í þágu mænuskaddaðra
Árnína Guðmundsdóttir, 1985, fyrir hjúkrunarstörf
Áslaug Sigurbjörnsdóttir, 2000, fyrir mannúðarstörf
Bjarney Samúelsdóttir, 1976, fyrir líknar- og hjúkrunarstörf
Hedvig Lydia Iris Clausen, 1969, yfirhjúkrunarkona
Eyrún Jónsdóttir, 2017, fyrir störf í þágu þolenda kynferðisofbeldis
Geirþrúður Ásgeirsdóttir, 1978 fyrir störf í þágu hjúkrunar- og líknarmála
Guðríður Jónsdóttir 1963, forstöðukona Kleppspítala, fyrir störf í þágu sjúkra
Halla Snæbjörnsdóttir, 1976, yfirhjúkrunarkona fyrir störf að heilbrigðismálum
Helga Sif Friðjónsdóttir, 2021, geðhjúkrunarfræðingur fyrir brautryðjendastörf á vettvangi skaðaminnkunar fyrir fíkniefnaneytendur og aðra jaðarsetta hópa
Herdís Storgaard, 2015, fyrir brautryðjendastörf að slysavörnum barna
Ingibjörg Helgadóttir, 2018, í tilefni af opinberri heimsókn forseta Íslands til Svíþjóðar
Jóna Guðmundsdóttir, 1966, fv. yfirhjúkrunarkona, fyrir hjúkrunarstörf
Júlíana Friðriksdóttir, 1983, fyrir hjúkrunarstörf
Kristín Thoroddsen, 1954, fyrir störf við Landspítalann frá stofnun hans
María P. Maack, 1959, fyrir hjúkrunarstörf og störf að mannúðarmálum
Esther Mogensen, 1969, yfirhjúkrunarkona
Oddný Guðmundsdóttir, 1974, fyrir hjúkrunar- og líknarstörf
Pálína Ása Ásgeirsdóttir, 2009, fyrir framlag til alþjóðlegs hjálparstarfs
Ragnheiður Sigurðardóttir, 2004, hjúkrunarforstjóri fyrir framlag til barnahjúkrunar
Sigríður Bachmann, 1958, yfirhjúkrunarkona fyrir hjúkrunar- og kennslustörf
Sigríður Eiríksdóttir, 1965, fyrir hjúkrunar- og heilsuverndarstörf
Sigríður Guðmundsdóttir, 1998, fyrir hjúkrunar- og hjálparstörf í þróunarlöndum
Sigrún Magnúsdóttir, 1977, fyrir líknar- og hjúkrunarstörf
Sigurlín Gunnarsdóttir, 1989, fyrir störf að hjúkrunarmálum
Sigurborg Ingunn Einarsdóttir, 2020, fv. hjúkrunarforstjóri og ljósmóðir á Eskifirði, fyrir framlag til heilbrigðisþjónustu í heimabyggð
Sólveig Guðlaugsdóttir, 2010, geðhjúkrunarfræðingur fyrir framlag til heilbrigðismála og umönnunar
Sólveig Guðrún Halldórsdóttir, 1981, fyrir líknar- og hjúkrunarstörf
Unnur Sigtryggsdóttir, 2003, fyrir störf að heilbrigðismálum
Valgerður Helgadóttir, 1987, fv. yfirhjúkrunarkona, fyrir störf í þágu sjúkra
Vigdís Magnúsdóttir, 2006, fv. forstjóri Landspítalans, fyrir hjúkrunarstörf
Vilborg Ingólfsdóttir, 2021, hjúkrunar- og lýðheilsufræðingur, fyrir framlag til hjúkrunar og heilbrigðisþjónustu á Íslandi og á alþjóðavettvangi
Þórunn Pálsdóttir, 1999, hjúkrunarforstjóri fyrir störf í þágu geðfatlaðra