Hjukrun.is-print-version

Berst fyrir málefnum heimilislausra og er ötul baráttukona jaðarsettra hópa

1. tbl. 2021
Viðtal við Elísabetu Herdísar Brynjarsdóttur

JCI-hreyfingin á Íslandi velur árlega Framúrskarandi Íslending en það er hluti af alþjóðlegri viðurkenningu sem JCI stendur fyrir um allan heim til að vekja athygli á því sem er vel gert og einnig til að hvetja annað ungt fólk til dáða. Árið 2020 varð hjúkrunarfræðingurinn Elísabet Herdísar Brynjarsdóttir valin Framúrskarandi ungur Íslendingur fyrir framlag sitt á sviði mannúðar- og sjálfboðaliðamála.

Elísabet starfar í dag sem verkefnisstjóri Frú Ragnheiðar, skaðaminnkandi þjónustu Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu, en áður en hún varð verkefnisstjóri vann hún sem hjúkrunarfræðingur hjá Frú Ragnheiði í tvö ár. Í umsögn dómnefndar um Elísabetu segir m.a.: „Sem verkefnisstjóri hefur hún unnið ótrúlegt þrekvirki við skipulagningu starfsins og vitundarvakningu um orsakir, eðli og afleiðingar vímuefnavanda fyrir einstaklinginn og þeirra sem minna mega sín. Hún er ötul baráttukona jaðarsettra hópa, til dæmis heimilislausra og þeirra sem nota vímuefni í æð.“ Blaðamaður settist niður með Elísabetu til að fara yfir helstu verkefnin sem hún vinnur að og til að fá að skyggnast inn í líf hennar, auk þess að forvitnast um stöðu fólks með vímuefnavanda sem hún brennur svo heitt fyrir.

Sjálfboðaliðar Frú Ragnheiðar yfir 120 og notendur um 600 á ári

Elísabet er 28 ára og býr með sambýlismanni mínum og tveimur ættleiddum villiköttum við Fossvogsdalinn en hyggur á flutning til Hafnarfjarðar. Hún er fyrrverandi forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands, fyrsti kjörni hjúkrunarfræðingurinn í stöðuna, og er núverandi stjórnarformaður Félagsstofnunar stúdenta. Elísabet starfaði sem sjálfboðaliði Frú Ragnheiðar áður en hún tók við verkefnisstjórastöðu Frú Ragnheiðar. Hlutverk hennar felst í að hafa yfirsýn yfir verkefnið í heild sinni, stefnumótun og framtíðarsýn ásamt áherslum, markmiðum og daglegum störfum. „Ég ber ábyrgð á að það sé góð samvinna við alla sem koma nálægt þjónustunni sem notendurnir njóta, miðla upplýsingum, safna styrkjum fyrir verkefnið, og í gegnum alla þessa ábyrgð er rík áhersla lögð á notendasamráð, sjálfboðaliðalýðræði innan verkefnisins og samstarf við stjórn Rauða krossins. Verkefnið er flokkað sem hjúkrunarstýrt starf fyrir jaðarsetta einstaklinga á höfuðborgarsvæðinu í sjálfboðnu starfi. Við leggjum áherslu á heilbrigðisþjónustu og heilsuvernd heimilislausra einstaklinga og þeirra sem nota vímuefni í æð til að draga úr smitsjúkdómum og sýkingum ásamt skaða af vímuefnanotkuninni. Sjálfboðaliðar Frú Ragnheiðar eru í dag rúmlega 120 manns og notendur þjónustunnar um 600 einstaklingar á ári.“„Við nálgumst málstaðinn á mannúðlegan hátt út frá grunngildum Rauða krossins og tölum fyrir virðingu, að mæta einstaklingum hér og nú og stuðla að reisn þeirra. Allt þetta er í takt við siðareglur hjúkrunarfræðinga og þess vegna hafa hjúkrunarfræðingar yfirleitt verið meirihluti sjálfboðaliða okkar í þau 12 ár sem við höfum verið starfandi.“

„Saman erum við ein stór rödd sem óskar eftir áheyrn samfélagsins og bættum lífsgæðum jaðarsettra einstaklinga“

Frú Ragnheiður hefur vakið verðskuldaða athygli. Af hverju telur þú að verkefnið sé jafn mikilvægt og raun ber vitni? „Ég þakka það fyrst og fremst sjálfboðaliðum Frú Ragnheiðar. Á bak við verkefnið, þrátt fyrir að ég og samstarfskona mín förum fyrir því opinberlega, eru hundruð sjálfboðaliða sem hafa hlotið þjálfun og tala fyrir málstaðnum á hverjum degi í sínu umhverfi. Ég þakka það líka að verkefnið nýtur trausts notenda og notendur tala fyrir mikilvægi þjónustunnar. Saman erum við ein stór rödd sem óskar eftir áheyrn samfélagsins og bættum lífsgæðum jaðarsettra einstaklinga út frá skaðaminnkandi nálgun og hugmyndafræði. Verkefnið hefur notið mikils stuðnings og ég tel það líka vera vegna nálgunar okkar. Við nálgumst málstaðinn á mannúðlegan hátt út frá grunngildum Rauða krossins og tölum fyrir virðingu, að mæta einstaklingum hér og nú og stuðla að reisn þeirra,“ segir Elísabet og bætir strax við: „Allt þetta er í takt við siðareglur hjúkrunarfræðinga og þess vegna hafa hjúkrunarfræðingar yfirleitt verið meirihluti sjálfboðaliða okkar í þau 12 ár sem við höfum verið starfandi. Verkefnið er miklu stærra en ég, mitt starf er ekki sjálfboðið lengur og ég tilheyri litlu broti af þeirri stóru sögu sem er á bak við bílinn okkar og hugmyndafræði. En ég hef fengið þann heiður og traust að miðla boðskapnum sem hjúkrunarfræðingur í starfi og met það mikils. Ég hef mjög mikla trú á sérþekkingu og nálgun hjúkrunarfræðinga fyrir svona viðkvæman málstað því við tölum út frá gagnreyndri þekkingu en líka út frá heildrænni og mannúðlegri nálgun út frá einstaklingnum.“

„Við höfum áhrif“

Hvernig er hefðbundinn dagur í vinnunni hjá þér og helstu verkefnin sem þú ert að sinna? „Já, enginn dagur er eins. Ég byrja alla daga á stöðufundi með samstarfskonu minni, henni Hafrúnu Elísu, fer síðan yfir vakt gærkvöldsins út frá skráningum og rapporti sjálfboðaliða sem stóðu vaktina kvöldið áður. Legg línurnar fyrir daginn, svara tölvubréfum og held svo af stað út í daginn. Er yfirleitt að sinna vettvangshjúkrun á daginn, koma málum í farveg innan opinbera kerfisins, koma notendum okkar á réttu staðina, ráðleggja þeim hvert þeir eigi að leita með einstök vandamál. Það eru mikil samskipti við notendur á hverjum degi og það gerir starfið svo áhugavert og lærdómsríkt. Ég sit líklegast að meðaltali 2-3 fundi hvern dag og getur það verið allt frá fundum innan Rauða krossins yfir í fundi með ráðuneytum eða styrktaraðilum, fundi með aðstandendum eða einstaklingum sem þekkja til hugmyndafræðinnar og vilja hjálpa. Seinni part dagsins undirbúum við samstarfsfélagi minn vakt kvöldsins, undirbúum bílinn sem keyrir um götur höfuðborgarsvæðisins sex kvöld vikunnar, tökum svo á móti sjálfboðaliðunum og erum svo á bakvatk fyrir sjálfboðaliðana. Þeir hringja í okkur í lok vaktar og skila vaktinni til okkar og svo hefst nýr vinnudagur daginn eftir. Daglegu störfin mín og okkar allra í Frú Ragnheiði einkennast ávallt af því að hugsa lausnamiðað, koma hlutum í farveg og framkvæma. Við fáum ákveðið frelsi og svigrúm til þess hjá mannúðarsamtökum og sjáum fallega hluti, sama hversu litlir eða stórir þeir eru, gerast á hverjum degi. Það er það sem ég tek svo með mér heim í lok dagsins – að við höfum áhrif,“ segir Elísabet.
„En á heildina litið horfi ég ávallt á þetta sem hjúkrunarfræðingur, ég sé ekki sjúkdóm, ég sé einstakling, einstakling sem þarf annaðhvort hlustun, ekki alltaf viðbrögð, en stundum viðbrögð, og þá er sérþekking mín og sjálfboðaliða okkar tiltæk til að styðja við bakið á einstaklingnum til þess að hann haldi reisn áfram út í lífið, sama hvað hefur gerst áður.“

Mikilvægt að aðgreina vímuefnavanda og vímuefnanotkun

Það hefur orðið mikil vitundarvakning um fíkniefnavandann. Hvernig skilgreinir þú þennan vanda í dag? Mín upplifun á vímuefnum á Íslandi er sú að við hræðumst þetta og það er margt sem við skiljum ekki. Það er erfitt að bera okkur saman við önnur lönd og við viljum oft líta öðruvísi á hlutina því við erum Ísland, en þegar upp er staðið er fíkn nákvæmlega það, fíkn. Fíkn er aldrei eins hjá neinum tveimur. Við þurfum líka að aðgreina vímuefnavanda og svo vímuefnanotkun. Við sjáum ekki bara jaðarsettasta hópinn hjá okkur heldur líka alls konar fólk sem veit ekki hvert annað það geta snúið sér með hugleiðingar sínar um vímuefni. Við sjáum líka aðstandendur sem vita ekki hvert þeir geta snúið sér. En á heildina litið horfi ég ávallt á þetta sem hjúkrunarfræðingur, ég sé ekki sjúkdóm, ég sé einstakling, einstakling sem þarf annaðhvort hlustun, ekki alltaf viðbrögð, en stundum viðbrögð, og þá er sérþekking mín og sjálfboðaliða okkar tiltæk til að styðja við bakið á einstaklingnum til þess að hann haldi reisn áfram út í lífið, sama hvað hefur gerst áður. Ég held við þurfum ekki að óttast það að vera að missa tök á neinu, en ég óttast aðgerðaleysi og þegar fólk vill ekki horfast í augu við stöðuna. Það sem ég óttast líka eru dauðsföll sem hægt er að koma í veg fyrir, til dæmis með sértækri nálgun heilbrigðiskerfis en hún er að vísu ekki í augsýn enn sem komið er. En það er hægt, fræðin eru til staðar.“

Mikilvægt að gefa heimilislausum pláss og áheyrn

Markhópur Frú Ragnheiðar er fyrst og fremst heimilislaust fólk. Hvaða áhrif hafði covid-19 á þennan hóp? Covid-19 hafði áhrif sem við eigum enn eftir að greina, en þetta var gífurlega þungt ár. Ég tel ástæðuna á bak við það vera að jaðarsettur hópur stendur frammi fyrir skertu aðgengi og hindrunum innan heilbrigðiskerfisins á venjulegum degi. Með heimsfaraldrinum skertist aðgengi að öðrum hlutum líka og vandinn varð stærri. Aðgengi að hreinlæti skertist, aðgengi að salernisaðstöðu, grímuskyldan hafði mikil félagsleg áhrif. Svo eru það þeir sem fengu bakslag og byrjuðu kannski að nota aftur vímuefni eftir að hafa verið án þeirra í mörg ár. Það er margt sem við eigum enn þá eftir að skilja en verðum að gefa okkur rými til að skilja. Og gefa þessum viðhorfum, sem urðu á einhvern hátt eftir í samfélagslegri umræðu, pláss og áheyrn,“ segir Elísabet þungt hugsi yfir ástandinu.

Þú brennur greinilega fyrir starfi þínu og hefur náð ótrúlega góðum árangri í skipulagningu starfsins og ert greinilega mikil baráttukona jaðarsettra hópa. Hún hlær. „Ég hreinlega veit ekki af hverju ég er í þessu hlutverki. Ég hef oft velt því fyrir mér. En niðurstaðan er yfirleitt einhver sem nær til grunngilda minna sem einstaklings í stóru samfélagi. Ég er ég, en ég tilheyri líka stærra samhengi. Ég er hjúkrunarfræðingur og við tölum fyrir reisn einstaklinga, sjálfstæði þeirra og rétti þeirra til ákvarðanatöku innan heilbrigðiskerfisins. Ég fór að vinna fyrir einstaklinga sem ná oft ekki einu sinni inn í heilbrigðiskerfið, og hver er þá ákvörðunarréttur þeirra? Ég sé sóknarfæri í því að nýta mína sérþekkingu sem hjúkrunarfræðingur, nýta mína samfélagsstöðu sem einstaklingur sem hefur notið forréttinda, og tala með þeim sem fá oft ekki áheyrn. Ég hef upplifað þessa skilgreiningu á tilvist hjá mörgum af minni kynslóð, og sterkasta skynjum mín af þessu var þegar ég tók þátt í að stofna til loftslagsverkfalla ungmenna á Íslandi. Við erum að berjast fyrir bjartari framtíð því það er framtíðin sem við viljum. Staðan í dag er aukinn ójöfnuður, en það er hægt að hafa hugrekkið til að bregðast við. Og ég tel það vera sjálfsagt mál að nýta mína sérþekkingu til þess að bregðast við. En ég er líka að starfa við það og mér finnst það sjálfsagt,“ segir Elísabet og glottir út í annað.
„Ég tek þessu ekki sem sjálfsögðum hlut, en ég átti erfitt með þetta því ég vinn náið með hetjum sem hafa gleymst og fá oft ekki viðurkenningar, hvað þá grundvallarþjónustu, og mannréttindi þeirra oft ekki virt. En móðir mín sagði við mig að ég gæti líka litið á þetta á þann veg að það væri verið að veita okkur öllum viðurkenningu – málstaðnum og þessari sterku skírskotun til hjúkrunar.“

Varð djúpt snortin út af viðurkenningunni

Þú varst valin árið 2020, sem Framúrskarandi ungur Íslendingur árið 2020 af JCI-hreyfingunni á Íslandi fyrir framlag sitt á sviði mannúðar- og sjálfboðaliðamála. Er það ekki svolítið fullorðins, og hvernig varð þér við þegar þú fékkst tilkynninguna um valið? „Mér finnst þetta mjög flókið. Ég átti mjög erfitt með þetta og sagði engum frá fyrr en fréttin birtist opinberlega. Ég var á báðum áttum með viðurkenninguna þegar ég fékk hana, bæði var ég mjög djúpt snortin yfir því að einhver væri tilbúinn að veita mér viðurkenningu fyrir öll mín störf í gegnum mínu stuttu lífstíð og varð meyr. En ég varð líka hugsi því ég veit að ég hlaut viðurkenninguna líka að hluta til út af mínum forréttindum. Og þar flæktust málin. Ég tek þessu ekki sem sjálfsögðum hlut, en ég átti erfitt með þetta því ég vinn náið með hetjum sem hafa gleymst og fá oft ekki viðurkenningar, hvað þá grundvallarþjónustu, og mannréttindi þeirra oft ekki virt. En móðir mín sagði við mig að ég gæti líka litið á þetta á þann veg að það væri verið að veita okkur öllum viðurkenningu – málstaðnum og þessari sterku skírskotun til hjúkrunar. Að þetta sé eitthvað sem sé viðurkennt. Og það gaf mér styrk áfram eftir erfitt ár.“

Brennur fyrir mannréttindum og málsvarahlutverki hjúkrunarfræðinga

Ertu ekki að rifna yfir stolti yfir þínum árangri og hvað þú ert að gera frábæra hluti með þínu góða samstarfsfólki? „Jú, ég vakna þakklát á hverjum degi fyrir sjálfboðaliðana sem stuðla að því að ekki ein vakt falli niður í miðjum heimsfaraldri og fyrir að notendur þjónustunnar treysta okkur fyrir málsvarastarfi, treysta okkur fyrir sögum sínum og treysta okkur fyrir því að hitta sig til að stuðla að heilsu þeirra. Ég brenn fyrir mannréttindum, málsvarahlutverki hjúkrunarfræðinga og stefnumótun út frá sjónarhorni hjúkrunarfræðinga og hef einnig dálæti á að kenna hjúkrunarnemum sem brenna alltaf af áhuga, hef verið aðstoðarkennari og stundakennari við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands síðan ég var nemandi og síðar sem útskrifaður hjúkrunarfræðingur.“

Hvað gerir þú til að tæma hugann að loknum vinnudegi? „Síðustu ár hafa einkennst mikið af vinnunni minni og ég er gífurlega þakklát fyrir öll tækifærin þar. En ég hef þurft að koma mér upp góðum ráðum til þess að komast í gegnum öll þessi tímabil og að starfa í óútreiknanlegu umhverfi á hverjum degi. Ég á gífurlega góða og sterka fjölskyldu og vini sem styðja við bakið á mér, ég reyni að læra eitthvað nýtt í hverjum mánuði og hef nýlega byrjað að prjóna. Mig langar að skrá mig í smíðanámskeið bráðlega. Ég veit að samkenndarþreyta er eitthvað sem getur orðið til hjá heilbrigðisstarfsfólki og öðrum sem starfa mikið með öðrum og fyrir aðra, og ég reyni mitt besta til að passa upp á mig og temja mér jákvæð hollráð. Hugleiðsla, slökun, útivist og kærleiksríkur félagsskapur er eitthvað sem ég reyni að umvefja mig.

Kærleiksrík leiðtogahæfni er líka eitthvað sem ég reyni að tileinka mér í starfi, að taka ákvarðanir og stýra verkefnum af umhyggju og vera óhrædd við það. Það er sama hvað kemur á borð til mín, ég reyni að standa með mínum gildum og stundum er það erfitt en það borgar sig alltaf fyrir mig sem manneskju,“ segir Elísabet kát í bragði og ánægð og stolt með stöðu sína í dag.

Viðtal: Magnús Hlynur Hreiðarsson


Pistlar og viðtöl

Fíkn og vímuvarnir

Forvarnir og fræðsla

Geðrækt

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála