Diplómanám í sýkingavörnum og smitsjúkdómahjúkrun á meistarastigi við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands
1. tbl. 2021
Heimsfaraldur covid-19 hefur haft víðtæk áhrif á líf og heilsu fólks um heim allan, og um leið dregið fram í dagsljósið styrkleika og veikleika sem snerta samfélagslega innviði okkar og heilbrigðiskerfið. Hér á landi hefur okkur tekist að standa saman og leggja traust okkar á sérfræðiþekkingu hjúkrunarfræðinga, lækna og annarra fagaðila í viðbrögðum við útbreiðslu covid-19. Með vísindi í forgrunni hefur áhersla verið lögð á umfangsmikla skimun, rakningu smitleiða, sóttkví útsettra, einangrun sýktra, samkomutakmarkanir og fræðslu og upplýsingagjöf til almennings. Sérfræðingar sýkingavarna- og smitsjúkdómadeilda Landspítalans hafa tekið að sér ráðgefandi hlutverk fyrir heilbrigðisstofnanir um allt land, og mikið hefur mætt á þeim fáu hjúkrunarfræðingum sem hafa þekkingu á sérsviðinu. Þrátt fyrir ríka samstöðu og góðan árangur hefur komið glöggt í ljós að skortur er á þekkingu á sýkingavörnum og útbreiðslu smitsjúkdóma meðal hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstarfsmanna.
Þörf á sérþekkingu í sýkingavörnum og smitsjúkdómahjúkrun
Á fyrri hluta síðustu aldar var þetta sérsvið mjög sterkt innan hjúkrunar á Íslandi og alþjóðlega, og má í því samhengi nefna hjúkrun berklasjúklinga og holdsveikra. Lítil áhersla hefur verið lögð á sérsviðið í framhaldsnámi hjúkrunarfræðinga undanfarna áratugi og einungis örfáir hjúkrunarfræðingar eru með framhaldsnám á þessu sérsviði. Þörf er á sérþekkingu í sýkingavörnum og smitsjúkdómahjúkrun alls staðar í heilbrigðisþjónustunni, á sjúkrahúsum, í heilsugæslu, á hjúkrunarheimilum og á vettvangi. Auk þess er þekking á sýkingavörnum gríðarlega mikilvæg við stefnumótun og ákvarðanir um fyrirkomulag stofnana.Í ljósi alls ofangreinds var skipuð námsnefnd um diplómanám á framhaldsstigi í sýkingavörnum og smitsjúkdómahjúkrun vorið 2020. Við undirbúningsvinnu námsleiðarinnar hafði námsnefnd samráð við helstu sérfræðinga hérlendis á sviði sýkingavarna, smitsjúkdóma og örverufræði. Einnig var horft til uppbyggingar og efnisatriða sambærilegra námsleiða á hinum Norðurlöndunum við undirbúning námsins. Diplómanám í sýkingavörnum og smitsjúkdómahjúkrun er skipulagt sem 30 ECTS-nám á framhaldsstigi, og það hugsað sem nám með starfi sem má ljúka á þremur til fjórum misserum. Námsleiðin var samþykkt sem viðbótardiplómanám á sérsviði hjúkrunar af deildarráði Hjúkrunarfræðideildar í febrúar 2021 og munu fyrstu nemendur því geta hafið nám haustið 2021. Námið má einnig nota til grundvallar frekari sérhæfingar á klínísku sérsviði hjúkrunar á meistarastigi (MS með áherslu á sýkingavarnir og smitsjúkdómahjúkrun).
Tilgangur diplómanámsins er að veita hjúkrunarfræðingum tækifæri til að efla þekkingu sína og færni á sviði sýkingavarna og smitsjúkdómahjúkrunar á lands- og heimsvísu. Námið byggist að stærstum hluta á fjórum kjarnanámskeiðum.
Tilgangur diplómanámsins er að veita hjúkrunarfræðingum tækifæri til að efla þekkingu sína og færni á sviði sýkingavarna (e. infection control) og smitsjúkdómahjúkrunar (e. infectious disease nursing) á lands- og heimsvísu. Námið byggist að stærstum hluta á fjórum kjarnanámskeiðum. Auk námskeiða í sýklafræði (5 ECTS) og veirufræði (3 ECTS) sitja nemendur tvö sérkennd námskeið. Annars vegar er það faraldsfræði, útbreiðsla smitsjúkdóma og sóttvarnir (6 ECTS) og hins vegar sýkingavarnir og smitsjúkdómahjúkrun (6 ECTS). Til viðbótar við kjarnanámskeiðin taka nemendur námskeiðið fræðileg aðferð (2 ECTS) auk valnámskeiðs (8 ECTS).
Að námi loknu skulu nemendur hafa öðlast færni til að hagnýta þekkingu sína við störf á sviði sýkingavarna og smitsjúkdómahjúkrunar. Nemendur munu þannig búa yfir kunnáttu sem nýtist í almennum forvörnum og hreinlæti; í viðbrögðum við faröldrum og hópsýkingum; við hjúkrun sjúklinga með bráða og langvinna smitsjúkdóma innan og utan stofnana; við uppbyggingu heilbrigðisþjónustu og skipulag stofnana; ásamt þátttöku í sýkingavörnum og þróunarsamvinnu á alþjóðlegum vettvangi.
Færni hjúkrunarfræðinga með diplómanám í sýkingavörnum og smitsjúkdómahjúkrun byggist á yfirgripsmikilli þekkingu á:
• helstu örverum sem sýkja menn, meinvirkni þeirra, greiningu, einkennum og meðferð
• faraldsfræði smitsjúkdóma og aðferðum til að meta og hefta útbreiðslu þeirra
• lögum og reglugerðum sem ná yfir opinberar sóttvarnarráðstafanir
• starfsemi ónæmiskerfisins í tengslum við sýkingar og virkni bóluefna
• undirstöðuatriðum sýkingavarna, smitleiðum örvera og algengum spítalasýkingum
• ónæmum bakteríum, þróun sýklalyfjaónæmis og sýklalyfjagæslu
• hjúkrun sjúklinga með bráða og langvinna smitsjúkdóma, auk fyrirbyggjandi aðgerða
Námið verði aðgengilegt hjúkrunarfræðingum um allt land
Í náminu verður stuðst við fjölþættar aðferðir við kennslu, svo sem klínískt nám, umræðufundi, tilfellakynningar, fyrirlestra, kennslu í færnistofu og hópavinnu. Áhersla verður lögð á að tengja fræðilegan hluta við raunveruleg dæmi, meðal annars með kynningum frá sérfræðingum á sviði smitsjúkdóma og sýkingavarna. Tekin verða raunveruleg dæmi um hópsýkingar á heilbrigðisstofnun og nemendur fá tækifæri til að vinna að eigin viðbragðsáætlun. Notað verður fjölþætt námsmat, þar með talið próf, skrifleg verkefni, kynningar og þátttaka í umræðutímum. Lögð er áhersla á að námið verði aðgengilegt hjúkrunarfræðingum um allt land og verður því skipulagt með þeim hætti að nemendur eigi þess kost að taka hluta námsins í fjarnámi með staðbundnum lotum eftir atvikum og aðstæðum.Við erum bjartsýn á að hjúkrunarfræðingar sjái sér hag í því að efla þekkingu sína og færni á sviði sýkingavarna og smitsjúkdómahjúkrunar, bæði til faglegrar framþróunar og til heilla fyrir samfélagið allt.
Það er enginn vafi í huga þeirra sem til þekkja að þörf er á viðbótarnámi á framhaldsstigi í sýkingavörnum og smitsjúkdómahjúkrun. Slík viðbótarmenntun mun nýtast hjúkrunarfræðingum sem starfa innan allra sérsviða og um allt land, hvort sem það er á heilsugæslu, á minni heilbrigðisstofnunum eða á Landspítalanum. Við erum bjartsýn á að hjúkrunarfræðingar sjái sér hag í því að efla þekkingu sína og færni á sviði sýkingavarna og smitsjúkdómahjúkrunar, bæði til faglegrar framþróunar og til heilla fyrir samfélagið allt. Umsóknarfrestur vegna diplómanáms við Hjúkrunarfræðideild HÍ er til og með 15. apríl 2021. Við hlökkum til að sjá sem flesta!
Námskrá fyrir nemendur í diplómanámi í sýkingavörnum og smitsjúkdómahjúkrun
Fyrsta misseri – haust 2021
Fræðileg aðferð
Faraldsfræði, útbreiðsla smitsjúkdóma og sóttvarnir
Annað misseri – vor 2022
Sýklafræði fyrir hjúkrunarfræðinga
Veirufræði fyrir hjúkrunarfræðinga
Þriðja misseri – haust 2022
Sýkingavarnir og smitsjúkdómahjúkrun
Valnámskeið – óháð misseri Samtals