Fagdeild um samþætta hjúkrun
1. tbl. 2021
Fagdeildin var stofnuð 2010 undir nafninu Fagdeild um viðbótarmeðferðir. Nafn deildarinnar vísaði til úrræða sem ekki höfðu verið talin hluti af hefðbundinni heilbrigðisþjónustu en sýnt hafði verið fram á með rannsóknum að nýttust samhliða hefðbundinni heilbrigðisþjónustu.
Fljótlega hófust umræður um nafn deildarinnar og einnig um val á íslenskum orðum í tengslum við ensku orðin alternative, complementary og integrative nursing sem höfðu fest sig í sessi. Í umræðunum kom fram að margir félagar vildu halda hugmyndafræði integrative nursing á lofti, að hér væri verið að stunda gagnreynda hjúkrunarmeðferð sem styrkti og félli vel að hefðbundinni meðferð. Á aðalfundi 2018 var nafnið Fagdeild um samþætta hjúkrun valið úr tillögum frá félögum. Þar var enska heitið Integrative nursing haft til hliðsjónar. Í ársbyrjun 2021 voru 75 hjúkrunarfræðingar skráðir félagar í deildinni.
Helstu markmið fagdeildarinnar eru:
• Að stuðla að viðurkenningu á notkun gagnreyndrar samþættrar meðferðar innan heilbrigðiskerfisins sem hefur þann tilgang að efla heilsu, lina þjáningar, draga úr sjúkdómseinkennum og bæta lífsgæði.
• Að vinna að auknu framboði á samþættri meðferð innan heilbrigðiskerfisins og tryggja þátttöku hjúkrunarfræðinga í þeim efnum.
• Að stuðla að aukinni þekkingu almennings, sjúklinga, fagfólks og heilbrigðisyfirvalda á samþættum meðferðarúrræðum.
• Að vera málsvari samþættra meðferðarúrræða í samskiptum við Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, aðrar heilbrigðisstéttir, fyrirtæki á heilbrigðissviði og stjórnvöld.
• Að hvetja til aukinnar menntunar hjúkrunarfræðinga á sviði samþættra meðferðarúrræða, meðal annars með því að efla hlut slíkrar menntunar í hjúkrunarnámi.
Á fundum hafa félagar oft kynnt og sýnt þá samþættu meðferð sem þeir nota í starfi. Þar má nefna slökun, núvitund, hugleiðslu, ilmolíumeðferð, nálastungur og tónheilun.
Þrír félagsfundir eru haldnir árlega, fræðslufundur að hausti, jólafundur og aðalfundur í mars og í tengslum við hann er oftast fræðslufyrirlestur. Á fundum hafa félagar oft kynnt og sýnt þá samþættu meðferð sem þeir nota í starfi. Þar má nefna slökun, núvitund, hugleiðslu, ilmolíumeðferð, nálastungur og tónheilun. Málþing var haldið á vegum deildarinnar í febrúar 2018 og er áætlað að halda málþing um samþætt meðferðarúrræði annað hvert ár. Búið var að skipuleggja glæsilegt málþing sl. haust.í tilefni af 10 ára afmæli deildarinnar en því varð að fresta vegna sóttvarnareglna.
Félagar í fagdeildinni hafa tekið þátt í erlendum ráðstefnum um samþætt meðferðarúrræði, til dæmis International Integrative Nursing Symposium sem haldin er annað hvert ár.
Allir félagar í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, sem hafa áhuga á samþættum meðferðarúrræðum, geta orðið félagar í deildinni, óháð því hvort þeir veiti slíka meðferð í starfi sínu eða utan þess. Skrifstofa Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga tekur við umsóknum og sendir til formanns www.hjukrun.is.