Hjúkrun í „heimsþorpinu“
1. tbl. 2021
Alþjóðlega viðurkennd hjúkrunarmenntun er lykill að öruggum störfum um allan heim. Það er meðal þess sem gerir menntunina eftirsóknarverða fyrir ungt fólk. Frá upphafi hjúkrunar á Íslandi höfum við notið starfskrafta hjúkrunarfræðinga víða að. Íslenskir hjúkrunarfræðingar hafa líka alla tíð verið víðförlir. Fjölþjóðlegur bakgrunnur hjúkrunarfræðinga er meðal þess sem gefur starfinu gildi.
Hreyfanlegur starfskraftur
Það kann að virðast einfalt mál fyrir hjúkrunarfræðinga að flytja til annars lands og hefja þar störf. Vinnuafl þeirra er alls staðar eftirsótt og fjölmargir leggja land undir fót, ýmist á vit ævintýra eða í von um betri lífskjör. Hjúkrunarfræðingar sem flytja til annarra landa til starfa eiga það sammerkt að vilja helst aðlagast fljótt (Choi, Cook og Brunton, 2019). Raunin er þó sú að mörgum reynist erfitt að fóta sig á nýjum stað (Brunton og Cook, 2018; Brunton o.fl., 2019). Sinn er siðurinn í landi hverju og menningarmunur, samskiptaerfiðleikar, vinnuálag, valdamismunur á milli erlendra hjúkrunarfræðinga og þeirra sem eru hagvanir heima fyrir getur hamlað skilvirkni í teymisvinnu og ógnað öryggi sjúklinga. Glíman við nýtt og framandi tungumál er tímafrek og svo er snúið að semja sig að nýjum háttum, viðhorfum og reglum. Slík aðlögun gerist ekki einhliða heldur þarf hún að vera gagnkvæm, þar sem bæði aðkomnir og heimavanir laga sig að nýjum aðstæðum (Brunton og Cook, 2018; Brunton M. C., 2019; Choi, Cook og Brunton, 2019).Ekki á heimavelli
Allt frá upphafi íslenskrar hjúkrunarsögu hafa íslenskir hjúkrunarfræðingar sótt menntun og reynslu víða um lönd (Margrét Guðmundsdóttir, 2010). Margir koma aftur reynslunni ríkari um það hvernig er að vera aðkomumaður og hvað það er krefjandi að hasla sér völl sem slíkur.Í marga mánuði fannst mér ég vera ótrúlega leiðinleg og litlaus því ég gat hvorki verið fyndin á dönsku né svarað fyrir mig ef mér misbauð. Ég varð dauðþreytt að loknum vinnudegi því það fylgdi því stöðugt álag að máta sig inn í aðstæðurnar.Sjálf hef ég reynslu af að starfa í Danmörku fyrir nokkrum áratugum síðan. Þangað fór ég stuttu eftir úrskrift, nokkuð roggin með mína dæmigerðu íslensku skóladönsku. Þegar á hólminn var komið átti ég bæði erfitt með að skilja tungumálið og að gera mig skiljanlega. Ég sagði það sem ég kunni að segja en ekki endilega það sem ég vildi segja. Það kom fyrir að ég móðgaði samstarfsfólk og sjúklinga með rangri orðanotkun, tónfalli eða áherslum. Margir höfðu alls kyns útskýringar um lífið og tilveruna á reiðum höndum fyrir mig sem kom frá „lille Island“. Alls kyns kurteisisvenjur voru framandi, hvenær átti að „þéra“, hvar mátti sitja og hvaða boðleiðir virkuðu. Í marga mánuði fannst mér ég vera ótrúlega leiðinleg og litlaus því ég gat hvorki verið fyndin á dönsku né svarað fyrir mig ef mér misbauð. Ég varð dauðþreytt að loknum vinnudegi því það fylgdi því stöðugt álag að máta sig inn í aðstæðurnar. Ljósu punktarnir í tilverunni voru hjúkrunarfræðingar, kollegar mínir, flestir danskir, sem studdu mig með ráðum og dáð. Þeir tóku mig með í mat, hittu mig utan vinnutíma, klöppuðu mér á bakið þegar ég misskildi, gerðu létt grín þegar svo bar undir, hughreystu mig þegar á móti blés og hvöttu mig áfram þangað til ég gat spjarað mig sjálf. Þær lögðu lykkju á leið sína til að hafa mig með og styðja mig og því fylgdi örugglega aukaálag fyrir þær. Ég er þeim ævinlega þakklát og hugsa til þeirra allra með hlýju.
Um þessar mundir starfa 115 erlendir hjúkrunarfræðingar sem eru skráðir hjá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) á Landspítala, meirihluti frá Asíu, aðallega Filippseyjum, margir frá ýmsum löndum Evrópu en færri frá öðrum heimsálfum. Þeir eru um 7% af 1740 hjúkrunarfræðingum sem starfa á sjúkrahúsinu. Auk þeirra eru einhverjir sem hafa ekki verið skráðir hjá FÍH enn sem komið er, en eru í Eflingu eða SFR (Landspítali, 2020). Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni voru erlendir ríkisborgarar sem hlutfall af mannfjölda á Íslandi hátt í 14% árið 2020 (Hagstofa Íslands, 2021). Hlutfall erlendra hjúkrunarfræðinga á Landspítala er því mun lægra en hlutfall landsmanna með erlent ríkisfang.
Það hvernig við tökum á móti þeim og hvaða rými þeir fá getur haft töluverð áhrif á hvernig þeim vegnar. Við getum ekki án þeirra verið og þeir eru mikilvæg viðbót við samfélagið okkar.
Betri hjúkrun í heimsþorpinu
Ég efast ekki um að erlendir hjúkrunarfræðingar sem koma hingað eru í marga mánuði að glíma við svipuð tilvistarvandamál og ég gerði í Danmörku á sínum tíma. Það hvernig við tökum á móti þeim og hvaða rými þeir fá getur haft töluverð áhrif á hvernig þeim vegnar. Við getum ekki án þeirra verið og þeir eru mikilvæg viðbót við samfélagið okkar. Til að komast hingað hafa þeir lagt mikið á sig og þurft að uppfylla ýmis skilyrði til að eiga kost á starfi hér. Okkar verkefni er að greiða leið þeirra fyrstu mánuðina og jafnvel árin í starfi og leik.Mig grunar að margir hjúkrunarfræðingar, sem hafa hleypt heimdraganum, geti tengt við lýsinguna á minni reynslu hér að framan og að þeir hafi þurft tíma og stuðning góðra samstarfsmanna til að komast inn í starfið á nýjum stað. Það skiptir máli að þeir erlendu hjúkrunarfræðingar sem nú eru að hefja störf á Landspítala minnist tímans hér sem tíma vaxtar og eflingar í lífi sínu og starfi. Með opnum huga og í sameiningu geta hjúkrunarfræðingar sem stétt stuðlað að betri hjúkrun og auknum lífsgæðum hvar sem er í „heimsþorpinu“.