Hjukrun.is-print-version

Hugleiðingar um jafnréttisstarf og átaksverkefni til að fjölga körlum í hjúkrun

1. tbl. 2021
Hrafnhildur Snæfríðar- og Gunnarsdóttir

Í greininni fjallar Hrafnhildur um kynjað starfsval út frá sjónarhorni kynjafræðinnar. Greinin er byggð á erindi sem hún hélt á málþingi á vegum jafnréttisdaga HÍ um kynjað starfsval. Hrafnhildur hefur rannsakað reynslu kvenna í hefðbundnum karlagreinum, s.s. í stærðfræði, eðlisfræði og rafmagns- og tölvuverkfræði. Það hefur gengið betur að fjölga konum í raunvísinda- og tæknigreinum en það hefur gengið að fjölga körlum innan hjúkrunar. Hvað veldur? Af hverju er hlutfall karlmanna eins lágt í hjúkrun og raun ber vitni og hverju hafa átaksverkefni skilað?
Átaksverkefni, sem ætlað er að vinna gegn viðteknum hugmyndum, eiga það til að rata ofan í hjólför annarra íhaldssamra hugmynda og jafnvel stuðla að því að festa í sessi kynjaðar hugmyndir og staðalmyndir. Í versta falli getum við, í átaksverkefnum, unnið að því að endurskapa og viðhalda mismunun og valdatengslum sem vanmeta framlag ákveðinna hópa, og hampa sumum umfam aðra.Stofnað hefur verið til fjöldamargra átaksverkefna í því skyni að sporna gegn kynjuðu starfsvali, svo sem að fjölga konum í raun- og tæknigreinum og körlum í heilbrigðistengdum greinum. Verkefnin hafa hins vegar verið gagnrýnd fyrir að virka ekki sem skyldi og að árangur af þeim sé skammvinnur. Fræðafólk hefur bent á að aðgerðirnar hafi oft ekki verið nægilega vel ígrundaðar og beinist ekki gegn raunverulegri rót vandans. Þá er áhugavert að velta fyrir sér hver sé raunveruleg rót vandans.

Kynjaðar hugmyndir um menntun

Hugmyndir um jafnrétti og hvernig við náum árangri á því sviði hafa þróast mikið undanfarna áratugi. Fjöldi rannsókna hefur varpað ljósi á hvernig hugmyndir okkar um menntun hafa í gegnum tíðina verið kynjaðar. Það er arfleifðin sem við þurfum að horfast í augu við. Lengi vel var áhersla lögð á að halda konum fyrir utan samfélagsleg völd og menntun. Kynjaðar hugmyndir um árangur og færni eiga sér ýmsar birtingarmyndir og hefur fræðafólk meðal annars fjallað um slík viðhorf með tilvísan í eignunarkenninguna (attribution theory). Kenningin lýsir því hvernig við útskýrum velgengni eða árangur, bæði okkar eigin og annarra. Rannsóknir sýna að slælegur árangur drengja er almennt talinn stafa af ytri þáttum, t.d. stuðningsleysi í umhverfi. Hjá stúlkum er hins vegar hæfni og þekking oft dregin í efa.
Ef planta nær ekki að vaxa og dafna í garðinum þá byrjum við ekki á því að kenna plöntunni sjálfri um heldur leitum við ástæðna í umhverfi hennar, jarðveginum, vatninu, veðurfarinu og áburðinum (Eileen Byrne).Slík viðhorf endurspeglast jafnvel í átaksverkefnum og umræðum í kringum slík verkefni. Lágt hlutfall kvenna í raun- og tæknigreinum er oft skýrt með því að stelpur þori ekki í raunvísindi, að þær hafi ekki nægjanlegt sjálfstraust til þess og ekki næga þekkingu til að ná árangri í greinunum. Þetta er mjög ólíkt umræðunni um fjölgun karla innan hjúkrunar og kennslugreina í gegnum tíðina en þar hefur vandinn yfirleitt verið talinn felast í umhverfinu og ytri þáttum, svo sem þáttum í náminu, staðblæ, verklagi og viðhorfa innan deildanna og staðalmynda sem ríkja í garð starfsins. Aðilar í forsvari slíkra verkefna hafa bent á mikilvægi þess að skipuleggjendur námsins líti gagnrýnið í eigin barm og athugi hvort eitthvað í námsefni, uppbyggingu náms ríkjandi viðhorfum og verklagi geri það að verkum að körlum finnist þeir ekki eiga heima innan greinanna.

Ég tel að flestir séu þeirrar skoðunar að það sé alla jafna vænlegra til árangurs að einblína á ytra umhverfið, stuðninginn og ríkjandi viðhorf. Ef planta nær ekki að vaxa og dafna í garðinum þá byrjum við ekki á því að kenna plöntunni sjálfri um heldur leitum við ástæðna í umhverfi hennar, jarðveginum, vatninu, veðurfarinu og áburðinum (Eileen Byrne). Í auknum mæli felast áherslur átaksverkefna í gagnlegri rýni á námsumhverfiið og ríkjandi staðalmynda í garð greinanna.

Staðalmyndir eiga djúpar rætur í lífseigum og rótgrónum þankagangi

Það er ekki hægt að neita því að það ríkja mjög kynjaðar staðalmyndir um hjúkrunarfræðinga. Staðalmyndir eru ekki tilviljunarkenndar heldur samofnar ríkjandi valdatengslum og eiga djúpar rætur í lífseigum og rótgrónum þankagangi. Rétt eins og alltaf þá verða staðalmyndir til þess að smætta og einfalda og við nánari greiningu endurspegla þær gjarnan gagnkynhneigðarrembu, kynjaðar, rasískar og „ableískar“ hugmyndir. Það er af því að staðalmyndir spretta upp úr og vinna að því að viðhalda ríkjandi valdatengslum.
Karlinn (lesist einnig læknirinn) er yfirvegaður, rökfastur, hlutlaus, hefur frumkvæði og sýnir jafnvel fálæti. Þetta er sum sé hið sígilda tvenndarpar: karlar og konur, læknar og hjúkrunarfræðingar. Í tvíhyggjunni felst ávallt stigveldi því andstæðir þættir tvenndarparsins eru mishátt metnir. Framlag kvenna er vanmetið. Þetta er arfleifðin okkar, partur af sögu okkar og bergmálar enn í dag.Hugmyndir um hjúkrunarfræðinga hafa lengst af, ef ekki alltaf, verið nátengdar hugmyndum um konur. Hjúkrunarkonur eru umhyggjuríkar og styðjandi. Þær eru undirbúnar undir alvarlegustu verkefni lífsins (sem lúta að heilsu) og þær eru ráða- og skilningsgóðar. Þetta er sannarlega ekki ljót mynd sem er dregin þarna upp en við megum ekki gleyma að þetta er einn hluti tvíhyggjunnar. Á hinum enda ássins eru hugmyndir okkar um karlmennsku, því þetta er jú andstæðupar. Karlinn (lesist einnig læknirinn) er yfirvegaður, rökfastur, hlutlaus, hefur frumkvæði og sýnir jafnvel fálæti. Þetta er sum sé hið sígilda tvenndarpar: karlar og konur, læknar og hjúkrunarfræðingar. Í tvíhyggjunni felst ávallt stigveldi því andstæðir þættir tvenndarparsins eru mishátt metnir. Framlag kvenna er vanmetið. Þetta er arfleifðin okkar, partur af sögu okkar og bergmálar enn í dag.
Rætur þessarar tvíhyggju liggja djúpt í menningu okkar og sögu og litar hvernig framlag og vinna er metin, hvaða störf eru talin meira virði og hvaða störf eru minna metin. Af því að þessar hugmyndir eiga sér svo djúpar rætur eru þær jafnframt svo kunnuglegar, við rennum einhvern veginn svo ljúflega inn í þessi þrástef óafvitandi ef við gætum okkar ekki.

Orðræða sem viðheldur valdamisræmi

Það er ákveðin hætta á að átaksverkefni, sem ætlað er að stemma stigu við kynjuðu mynstri, tali inn í þessar staðalmyndir. Í versta falli geta þau haldið þessum kynjuðu staðalmyndum á lofti og veitt þeim aukið rými. Þá erum við í raun að endurskapa og styrkja kynjuð valdatengsl. Stundum hafa átaksverkefni gengið út á að reyna að kveikja áhuga nemenda á störfum með fræðsluherferðum, svo sem bæklingum eða kynningum, og þá er valið myndefni og umfjöllun sem er talin höfða til kynsins sem um ræðir í þeirri von um að það breyti ásýnd námsins í augum tilvonandi nemenda.
Vandinn er að við vanmetum störf kvenna og berum ekki sambærilega virðingu fyrir þeim og störfum karla. Ef þetta misræmi væri ekki fyrir hendi væri það ekki álitið ógn við karlmennsku að ganga inn í störf sem unnin hafa verið af konum.

Með þessu er ég ekki að leiða rök að því að það eigi ekki að sýna fjölbreyttar birtingarmyndir starfsins, því hjúkrunarfræði er sannarlega fjölbreytt og skemmtilegt starf sem býður upp á marga möguleika. En hér er verið að gefa það til kynna að það sé karlmönnum ekki samboðið að starfa við sams konar störf og konur, að það sé þeim eðlislægt að hafa önnur áhugasvið. Jafnvel að það grafi undan karlmennsku og virðingu karla að sinna kvenlægum störfum. Við erum að tala inn í orðræðu sem viðheldur valdamisræmi og lítilli virðingu í garð framlags og starfa kvenna. Það er mannlegt að vilja fjölbreytni í starfi og spennandi starfsvettvang en ekki kynjað.

Vandinn er ekki að hjúkrunarfræðistarfið er gjarnan tengt við konur. Vandinn er að við vanmetum störf kvenna og berum ekki sambærilega virðingu fyrir þeim og störfum karla. Ef þetta misræmi væri ekki fyrir hendi væri það ekki álitið ógn við karlmennsku að ganga inn í störf sem unnin hafa verið af konum. Í stað þess að byggja fleiri staðalmyndir í kringum störfin þá þurfum við að afbyggja þær.

Störf og framlag karla meira virði en kvenna

Stalaðmyndir eiga djúpar rætur í menningu okkar, eru smættandi og skaðlegar og vinna að því að skýra, réttlæta og viðhalda aðstöðumun kynjanna. Þótt staðalmyndir séu eitt einkenni meinsins er þar ekki rót vandans. Rót vandans er sú að við metum störf og framlag karla meira virði en kvenna.

Það er mikilvægt að draga upp fjölbreyttar myndir af hjúkrunarstarfinu en við þurfum að gera það á ábyrgðafullan hátt og hafa myndirnar grundaðan í veruleika starfsins. Starf hjúkrunarfræðingsins felst í að vera undirbúinn undir alls kyns aðstæður, sýna festu og vera tilbúinn að starfa í mikilli nánd við samstarfsfólk og skjólstæðinga. Þær lífseigu hugmyndir eru alltumlykjandi að konur séu körlum fremri þegar kemur að nánd og nærgætni. Ef við viljum stuðla að jafnrétti og berjast gegn kynjuðu starfsvali er mikilvægt að vinna gegn þeirri kynjuðu síbylju að umönnun, nánd og nærgætni séu ekki karllægir eiginleikar.

Í nýlegu upplýsingamyndbandi Landspítalans um jafnréttisstarf kom fram að mikilvægt sé að spítalinn endurspegli samfélagið. Við getum öll verið sammála um það. Það er hins vegar tímabært að ræða um jafnrétti í þessum efnum í víðari skilningi og leggja aukna áherslu á fjölbreytileika. Síðastliðin ár hafa jafnréttismál þróast mikið og fleiri breytur en kyn skipta máli í þessu samhengi. Það er ekki síður mikilvægt að við lítum til annarra hópa. Ef við gefum okkur það að það sé erfitt fyrir karla að ganga inn í núverandi fyrirkomulag hjúkrunarnámsins, hvernig er staðan þá gagnvart fötluðum nemendum, hinsegin nemendum og nemendum af erlendum uppruna?
Ég leyfi mér að fullyrða að kynjaðar væntingar og viðhorf sem má hugsanlega greina í náminu eru einungis brotabrot af því sem nemendur munu kynnast að námi loknu þegar út á starfsvettvang er komið.

Hvar er vandinn?

Í ljósi þess hve vandinn er útbreiddur og rótgróinn má draga í efa að lausnin felist eingöngu í breyttri námstilhögun og ásýnd námsins. Ég leyfi mér að fullyrða að kynjaðar væntingar og viðhorf sem má hugsanlega greina í náminu eru einungis brotabrot af því sem nemendur munu kynnast að námi loknu þegar út á starfsvettvang er komið.

Ég hef starfað í þó nokkur ár á Landspítalanum og þykir vænt um vinnustaðinn. En rétt eins og á öðrum vinnustöðum fyrirfinnast þar fordómar og kynjuð viðmið. Eitt af því fyrsta sem ég þurfti að læra sem hjúkrunarfræðingur á sjúkrahúsi var að starfa innan um hið mikla stigveldi sem þar á sér stað. Þarna ríkir ákveðin virðingarröð sem gengur út á að aðgreina störf og ábyrgð og meta til virðingar. Störf eru sannarlega misvel metin og það endurspeglast ekki bara í launaumslaginu heldur gegnsýrir líka samskipti og starfshætti. Þetta er ekki bundið við Landspítalann sérstaklega, þetta er ekki einu sinni séríslenskt fyrirbæri heldur alþekkt vandamál. Heilbrigðisstofnanir eru oft mjög stórir vinnustaðir og þar fyrirfinnast sannarlega sömu fordómar og annars staðar í samfélaginu.

Niðurstöður erlendra rannsókna hafa leitt í ljós að hinsegin karlar og konur í hjúkrunarstarfi upplifi gjarnan neikvæð viðhorf og mismunun og verða jafnvel fyrir ofbeldi, sem byggist á hómófóbíu, í starfi sínu. Þá hefur lesbískum hjúkrunarfræðingum verið meinað að sinna ákveðnum hluta starfa eftir að þær komu út úr skápnum, þ.e.a.s. að sinna líkamlegri umönnun kvenna. Aðrar rannsóknir sýna að karlkynshjúkrunarfræðingum hafi verið meinað að sinna umönnun kvenna af ótta við að snerting þeirra væri túlkuð sem kynferðisleg. Við höfum ekki gert sambærilegar rannsóknir á Íslandi en það væri ábyrgðarlaust að ganga út frá því að mismunun fyrirfinnist ekki innan sjúkrastofnana hérlendis.

Víðsýni fremur en rótgróið og kynjað gildismat

Ég held að það hljóti að vera forgangsatriði að beina sjónum í auknu mæli að starfsumhverfinu og viðteknu verklagi á vinnustöðum og að þar sé unnið markvisst gegn rótgrónu gildismati sem endurspeglar og viðheldur ríkjandi valdamisræmi. Að vinna sé lögð í að stuðla að jákvæðum viðhorfum og gildum sem endurspegla víðsýni og þar sem fjölbreytileiki starfsfólks er álitinn kostur og honum er fagnað, þar sem vel er tekið á móti starfsfólki sem ekki fellur innan ramma viðtekinna staðalmynda.

Ég tel að kynningarstarf sé jákvætt og mikilvægt að karlar finni að það sé talað sérstaklega til þeirra, án þess þó að það sé gert með þeim hætti að aðgreina störf þeirra frá störfum og framlagi kvenna. Þá er enn fremur tímabært að líta til fleiri hópa í þessu samhengi. Loks þarf að breyta viðhorfum í garð hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstétta þar sem konur eru í miklum meirihluta, því það er sannarlega kerfislægt vanmat á þessum störfum. Það endurspeglast m.a. í launum hjúkrunarfræðinga sem hafa alltaf verið lág í samanburði við viðmiðunarstéttir með sambærilega menntun og ábyrgð.

Pistlar og viðtöl

Forvarnir og fræðsla

Kynheilbrigði

Mál og menning

Samskipti

Vinnumarkaður

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála