Hjukrun.is-print-version

ICNP, alþjóðlegt flokkunarkerfi í hjúkrun

1. tbl. 2021
Ásta Thoroddsen

International Classification for Nursing Practice®, dagsdaglega kallað ICNP, er flokkunarkerfi í hjúkrun sem verður notað til skráningar í hjúkrun á Íslandi. Það mun taka við af flokkunarkerfunum NANDA-I fyrir hjúkrunargreiningar og NIC (Nursing Interventions Classification) fyrir hjúkrunarmeðferð. Embætti landlæknis ákvað árið 2010 að ICNP skuli notað á landsvísu sem aðalflokkunarkerfið til að skrá hjúkrun í rafrænni sjúkraskrá. Það var gert samkvæmt tillögu frá stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Í gildi eru fyrirmæli frá embættinu um að ICNP skuli notað til að skrá hjúkrunarvandamál og -meðferð sjúklinga á öllum heilbrigðisstofnunum. Sjá einnig greinina Saga hjúkrunarskráningar á Íslandi sem birtist á öðrum stað í blaðinu.

Hvað er ICNP?

ICNP er flokkunarkerfi eða fagorðaskrá sem er safn samþykktra orða og er fagmál í hjúkrun. Segja má að um sé að ræða orðalista með hugtökum sem tilheyra hjúkrun. Markmið fagmáls er að tryggja sameiginlegan skilning á hugtökum innan hjúkrunar og heilbrigðisþjónustunnar. Fagmál hjúkrunarfræðinnnar með flokkuðum og stöðluðum hugtökum, sem eru kóðuð, eykur líkur á sameiginlegum skilningi hjúkrunarfræðinga á inntaki fræðigreinarinnar. Til eru mörg flokkunarkerfi á sviði heilbrigðisþjónustu sem eru sértæk fyrir hjúkrun, til dæmis NANDA-I og NIC sem áður voru nefnd. Með ICNP er hægt að skrá hjúkrunargreiningar, útkomur og hjúkrunarmeðferð sem er uppistaðan í daglegri skráningu hjúkrunarfræðinga. ICNP styður almenna og sérhæfða hjúkrunarþjónustu þvert á svið.

Sérstaða ICNP felst í að það er byggt upp hjá Alþjóðaráði hjúkrunarfræðinga, ICN (International Council of Nurses) og því ætlað hjúkrunarfræðingum um allan heim. ICNP tilheyrir jafnframt WHO-fjölskyldu flokkunarkerfa (Family of International Classifications) eins og sjúkdómsflokkunarkerfið ICD-10. Embætti landlæknis hefur landsleyfi fyrir notkun ICNP hér á landi. ICNP hefur nú þegar verið þýtt á íslensku af Ástu Thoroddsen prófessor og Brynju Örlygsdóttir, dósent við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, og er þýðingin í stöðugri endurskoðun. Þýðingu á ICNP 2019 má sjá á vefsíðu Rannsókna- og þróunarseturs um ICNP, http://icnp.hi.is. Kerfið er í stöðugri þróun og kemur ný útgáfa út annað hvert ár. Sem alþjóðlegt kerfi auðveldar ICNP að unnt sé að skiptast á gögnum um hjúkrun innanlands sem utan, þvert á lönd og svið.

Faglegur ávinningur af því að nota ICNP

Sjúkraskráin er mikilvæg í allri þjónustu við sjúklinga og þarf að vera vel skipulögð til að hún þjóni þeim tilgangi að veita yfirsýn um sögu, ástand, greiningu, meðferð og framvindu sjúklinga og að upplýsingarnar séu aðgengilegar fyrir klíníska ákvarðanatöku. Þeim mun betri sem skráning um ástand og meðferð sjúklinga er því betri er yfirsýn um ástand og meðferð þeirra og slíkt eykur öryggi sjúklinga. Hjúkrunarferlið er notað á alþjóðavísu til að skrá og skipuleggja hjúkrun. Á Íslandi er uppbygging á skráningu hjúkrunar í sjúkraskrá nokkuð skipuleg með upplýsingum um sjúkling, hjúkrunargreiningum og -meðferð með verkþáttum en ekki markmið eða útkomu. Talsvert hefur verið kallað eftir útkomumælingum og ætti ICNP að auðvelda þá vinnu.
Við betri skráningu er auðveldara að miðla upplýsingum milli heilbrigðisstarfsmanna og það leiðir til betri samskipta og samfella í þjónustu eykst innan og milli heilbrigðisstofnana. Rannsóknir sýna hins vegar að nokkuð vantar á nákvæmni í skráningu þannig að það sem skráð er endurspegli raunverulegt ástand sjúklinga hverju sinni.
Við betri skráningu er auðveldara að miðla upplýsingum milli heilbrigðisstarfsmanna og það leiðir til betri samskipta og samfella í þjónustu eykst innan og milli heilbrigðisstofnana. Rannsóknir sýna hins vegar að nokkuð vantar á nákvæmni í skráningu þannig að það sem skráð er endurspegli raunverulegt ástand sjúklinga hverju sinni. Það getur leitt til þess að sjúkraskráin verður ekki áreiðanleg heimild til rannsókna eða til að fylgjast með samfellu í meðferð (Ásta Thoroddsen, 2011).

Stöðluð hugtök og kóðar fyrir hjúkrunargreiningar, útkomur og hjúkrunaríhlutuneða -meðferð í sjúkraskrá auðvelda vistun gagna. Tölfræði og skýrslur um ástand sjúklingahópa, heilsufar þeirra og hjúkrun sem skráð hefur verið gefur tækifæri til að fylgjast náið með heilsu og hjúkrunarþörfum um tiltekinn tíma. Það getur gefið tilefni til að aðlaga og breyta hjúkrunarmeðferð til að uppfylla betur þarfir fólks sem glímir við heilsufarsvanda. Upplýsingar sem skráðar eru með flokkunarkerfum henta vel til rannsókna sem og við að velja viðmið í gæða- og umbótaverkefnum. Á hinn bóginn er ekki unnt að nota frjálsan texta, til dæmis úr framvindunótum, í þessum tilgangi nema með ærinni fyrirhöfn. Með því að tengja gögn úr hjúkrun við upplýsingar úr öðrum upplýsingakerfum verða stjórnunarupplýsingar enn fyllri, gefa ítarlegri tölur og meiri upplýsingar. Gögnin eru þá notuð ópersónugreinanleg til að stjórnendur geti tekið saman skýrslur og upplýsingar um þjónustu eða starfsemi til að kostnaðargreina, skipuleggja eða byggja ákvarðanir á. Slík gögn auka sýnileika hjúkrunar. Jafnframt verður auðveldara að nota tölur og skýrslur til að skoða starfsemi þar sem hjúkrunarþjónusta er veitt, meta gæði, faglega ábyrgð og ávinning þeirrar hjúkrunar sem veitt er. ICNP er einnig hægt að nota til að fella gagnreynda starfshætti inn í rafræna sjúkraskrá.

Stöðluð og kóðuð hugtök í hjúkrun eru dæmi um upplýsingastaðal sem jafnframt er gæðastaðall fyrir gögn. Upplýsingastaðal má skilgreina á þann hátt að unnt er að deila gögnum og bera þau saman milli heilbrigðisstofnana vegna þess að gögnin eru skráð á sambærilegan hátt, meðal annars með því að sama flokkunar- og kóðakerfið er notað. Gögn úr sjúkraskrá eru grunnurinn að heilbrigðistölfræði landsins.

Til eru mörg flokkunarkerfi í hjúkrun í heiminum og ICNP hefur sameinað mörg þeirra. Í ICNP má til dæmis finna nær öll hugtök sem eru í NANDA-I og NIC. Frá og með árinu 2021 verður ICNP gefið út í samvinnu við SNOMED-CT sem er stærsta kóðakerfi sem til er innan heilbrigðisvísinda. Í SNOMED-CT eru hundruð þúsunda hugtaka og í því sameinast mismunandi flokkunarkerfi í hjúkrun enn frekar. Það er mikill akkur í því fyrir hjúkrun að njóta samvinnu við SNOMED-CT og það mun flýta uppbyggingu áICNP. ICNP verður engu að síður áfram á forræði ICN og verður uppbyggingu þess haldið áfram þar en í samvinnu við SNOMED-CT.

Sjúkraskráin er þverfagleg. Við skráningu í sjúkraskrá nota læknar flokkunarkerfin ICD-10 og NCSP (Nordic Classification for Surgical Procedures), lyf eru skráð með ATC og hjúkrun verður skráð með ICNP. Með notkun alþjóðlegra flokkunarkerfa er auðveldara að draga fram framlag hjúkrunar á sambærilegan hátt og hjá öðrum fagaðilum. Það er því faglegur ávinningur af því að hjúkrunarfræðingar tali og skilji fagmálið.

Hvernig er ICNP uppbyggt?

Flokkunarkerfið ICNP er byggt upp af um 4500 hugtökum á sjö mismunandi ásum sem raða má saman til að mynda hjúkrunargreiningar, -útkomur og -meðferð eða -íhlutun. Ásarnir eru: aðalhugtak, afstaða eða ákvörðun, hjúkrunarþegi, framkvæmd, aðferðir, staðsetning á líkama eða í rúmi og tími. Hugtökin geta staðið ein og sér (t.d. sár) eða tengst öðrum hugtökum (t.d. sykursýkifótasár) til að ná fram sértækari merkingu. Ávallt þarf hugtök úr tveimur ásum hið minnsta, oftast eru ásarnir aðalhugtak og afstaða/ákvörðun notaðir fyrir hjúkrunargreiningu og aðalhugtak og framkvæmd fyrir hjúkrunarmeðferð. Dæmi um þetta eru:

Hjúkrunargreining: Skert (afstaða) hreyfigeta (aðalhugtak)
Hjúkrunaríhlutun/-meðferð: Mæla (framkvæmd) blóðþrýsting (aðalhugtak)
Ákvörðun hefur verið tekin um að ICNP verði notað í framtíðinni við skráningu í hjúkrun á Íslandi. ICNP kemur því til með að snerta alla starfandi hjúkrunarfræðinga. Rannsókna- og þróunarsetur um ICNP mun leggja fram ýmiss konar fræðsluefni, til dæmis örnámskeið og greinar, á næstu vikum á vefsíðu setursins, https://icnp.hi.is
Í töflu 2 má sjá dæmi um hjúkrunargreiningar, útkomur og -meðferð eða íhlutun sem lýst hefur verið hjá börnum með verki (Coenen o.fl., 2017). Flestar hjúkrunargreiningar sem þarna koma fram ættu að koma hjúkrunarfræðingum kunnuglega fyrir sjónir enda keimlíkar NANDA-greiningum. Hjúkrunarmeðferð og -íhlutuneru einnig áþekkar því sem er í NIC-flokkunarkerfinu, til dæmis súrefnismeðferð og vökvagjöf í æð, en þó er ýmis meðferð skráð á svipaðan hátt og hjúkrunarfræðingar þekkja sem verkþætti. Í töflu 2 hafa ásar verið settir saman til að mynda hjúkrunargreiningar og -meðferð. Á vefsíðu Rannsókna- og þróunarseturs um ICNP, https://icnp.hi.is, má finna fræðsluefni og dæmi um hjúkrunargreiningar og -meðferð samkvæmt ICNP.

Hvernig verður ICNP notað?

Í dagsdaglegu starfi ættu hjúkrunarfræðingar ekki að verða varir við miklar breytingar þegar ICNP verður komið inn í sjúkraskrá. Talsverða undirbúningsvinnu þarf að inna af hendi áður en til þess kemur. Hún felst meðal annars í því að deildir og sérsvið hjúkrunar þurfa að taka þátt í því að velja viðeigandi hjúkrunargreiningar og -meðferð sem oftast er notuð svipað og nú er í Sögu undir Ferli á deild.

Nánari upplýsingar um ICNP

Ákvörðun hefur verið tekin um að ICNP verði notað í framtíðinni við skráningu í hjúkrun á Íslandi. ICNP kemur því til með að snerta alla starfandi hjúkrunarfræðinga. Rannsókna- og þróunarsetur um ICNP mun leggja fram ýmiss konar fræðsluefni, til dæmis örnámskeið og greinar, á næstu vikum á vefsíðu setursins, https://icnp.hi.is. Einnig má finna efni á vefsíðu Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga, ICN, http://icn.ch. Þeim sem hafa áhuga á að kynna sér ICNP betur eða vinna að efni því tengdu er velkomið að hafa samband á netfangið icnp@hi.is.

Heimildir

Ásta Thoroddsen. (2011). Eru hjúkrunargreiningar nægilega lýsandi? Tímarit hjúkrunarfræðinga, 87(4), 12-16
Coenen, A., Feetham, S., Hinds, P.S., Jansen, K., Keller, S., Kim, T.Y. og fleiri. (2017). Pain Management for Paediatric Population. Genf, International Council of Nurses.

Fagið

Fagleg málefni

Menntunarmál

Skráning

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála