Hjukrun.is-print-version

Móttaka og starfsþróun hjúkrunarfræðinga af erlendum uppruna á Landspítala

1. tbl. 2021
Hrund Sch. Thorsteinsson og Kristín Salína Þórhallsdóttir

Það krefst mikillar þrautseigju og dugnaðar að hefja störf sem hjúkrunarfræðingur í nýju landi, framandi starfsumhverfi og þar sem tungumálið er erfitt. Á undanförnum árum hefur hjúkrunarfræðingum af erlendum uppruna fjölgað jafnt og þétt á Landspítala og líklegt er að svo verði áfram. Landspítali, eins og aðrar heilbrigðisstofnanir, þarf á þessum hjúkrunarfræðingum að halda til að manna stöður hjúkrunarfræðinga á spítalanum. Því er mikilvægt að þeir séu ánægðir og haldist í starfi. Hvernig staðið er að ráðningu, móttöku og aðlögun að starfi, þ.m.t. starfsþróun, ræður þar miklu um. Ljóst er að mikill fengur er í erlendum hjúkrunarfræðingum sem vilja starfa á Íslandi.

Starfsþróun íslenskumælandi hjúkrunarfræðinga á Landspítala

Hjúkrunarfræðingum í starfi á Landspítala hefur um árabil staðið til boða ýmiss konar starfsþróun í formi fyrirlestra, námskeiða, verklegrar þjálfunar og fleira. Starfsþróun á spítalanum er annars vegar miðlæg á vegum menntadeildar og hins vegar deildarbundin. Starfsþróunartækifæri fyrir íslenskumælandi hjúkrunarfræðinga á vegum menntadeildar hafa aukist verulega á síðustu árum, m.a. með auknu framboði á rafrænum námskeiðum og með tilkomu kennslu- og hermiseturs Landspítala. Þegar erlendir hjúkrunarfræðingar hafa náð góðum tökum á íslensku og þeir eru tilbúnir til taka þeir þátt í starfþróun með íslenskumælandi kollegum sínum.

Síðan 2014 hefur menntadeild Landspítala jafnframt boðið upp á starfsþróunarár fyrir nýútskrifaða hjúkrunarfræðinga. Markmið starfsþróunarársins er að tryggja öryggi sjúklinga og bæta gæði hjúkrunar með því að efla þekkingu og færni nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga. Aðlögun þeirra að starfsumhverfi er þannig flýtt með skipulagðri starfsþróun, vinnusmiðjum, hermikennslu, jafningjastuðningi o.fl.

Móttaka og starfsþróun erlendra hjúkrunarfræðinga á Landspítala

Á annað hundrað erlendir hjúkrunarfræðingar starfa nú á Landspítala, 32 karlar og 100 konur, og eru 8% allra hjúkrunarfræðinga sem þar starfa. Til samanburðar voru innflytjendur á Íslandi 15% í september 2020 skv. upplýsingum frá Hagstofu. Erlendir hjúkrunarfræðingar, sem starfa á Landspítala nú, eru frá alls 23 löndum. Þau eru:

Albanía Danmörk Lettland Sviss,
Ástralía Filippseyjar Litháen, Svíþjóð,
Bandaríkin Frakkland Noregur, Tæland
Belgía Ítalía Pólland,, Ungverjaland
Brasilía Kanada Slóvakía Þýkaland
Bretland Kína Spánn

Haustið 2019 óskuðu deildarstjórar eftir að ferli ráðningar, móttaka og starfsþróun erlendra hjúkrunarfræðinga yrði bætt. Brýnt var talið að bregðast hratt við þeirri ósk, ekki síst vegna erlendu hjúkrunarfræðinganna sjálfra, en einnig vegna samstarfsfólks þeirra og stjórnenda. Sett var af stað verkefni innan menntadeildar sem hafði það að markmiði að

• Skýra og samræma verklag við ráðningu og móttöku erlendra hjúkrunarfræðinga
• Jafna aðstöðumun erlendra og íslenskra hjúkrunarfræðinga hvað varðar starfsþróun
• Tryggja móttöku og aðlögun við hæfi, byggða á þekkingu og reynslu
• Flýta aðlögun að starfi á Landspítala
• Auka hæfni erlendra hjúkrunarfræðinga til að takast á við það sem reynir á í starfinu við nýjar aðstæður
• Auka öryggi sjúklinga og starfsmanna, bæta gæði þjónustu, auka starfsánægju og festu

Starfsþróun erlendra hjúkrunarfræðinga

Auk íslenskunámskeiða, sem erlendum hjúkrunarfræðingum standa til boða, er starfsþróun erlendra hjúkrunarfræðinga nú tvíþætt. Annars vegar hefur verið boðið upp á námskeið eða þjálfun fyrir erlenda hjúkrunarfræðinga sem hafa starfað hér í meira en 1-2 ár, hafa reynslu af starfi innan Landspítala og hafa náð nokkrum tökum á íslensku. Þeim er boðið upp á námskeið þar sem töluð er íslenska, en farið hægar yfir og enska notuð til útskýringar eftir þörfum. Markmið námskeiðanna er að erlendir hjúkrunarfræðingar fái tækifæri til að tala um hjúkrun og þjónustu við sjúklinga á íslensku. Innihaldi starfsþróunarinnar svipar til þess sem er í boði fyrir íslenska hjúkrunarfræðinga, en einnig var haft samráð við erlenda hjúkrunarfræðinga um val á efni ogefnisþáttum. Þá standa þeim einnig til boða rafræn námskeið á ensku.
Markmið starfsþróunarársins var að auka öryggi þeirra í starfi og leggja grunn að farsælum starfsferli. … Ólíkt íslenskum hjúkrunarfræðingum á starfsþróunarári eru erlendir hjúkrunarfræðingar sem hingað koma með mismikla starfsreynslu og ólíkt grunnnám.
Í janúar 2020 hófst starfsþróunarár fyrir hóp erlendra hjúkrunarfræðinga sem höfðu starfað á Landspítala innan við ár. Kennt var á ensku. Markmið starfsþróunarársins var að auka öryggi þeirra í starfi og leggja grunn að farsælum starfsferli. Á þessu fyrsta starfsþróunarári fyrir erlenda hjúkrunarfræðinga voru skráðir 40 þátttakendur. Í heildina var starfsþróunarárið sjö fræðsludagar sem dreifðust yfir árið og lauk í janúar 2021. Fræðslan á starfsþróunarárinu fólst í fyrirlestrum, kennslu á rafræn kerfi spítalans, handleiðslu reyndra hjúkrunarfræðinga, jafningjastuðningi og færniþjálfun. Innihald starfþróunarárs fyrir nýútskrifaða íslenska hjúkrunarfræðinga var haft til hliðsjónar auk þess sem haft var samráð við deildarstjóra og erlendu hjúkrunarfræðingana sjálfa um hvaða efni væri mest þörf fyrir. Ólíkt íslenskum hjúkrunarfræðingum á starfsþróunarári eru erlendir hjúkrunarfræðingar sem hingað koma með mismikla starfsreynslu og ólíkt grunnnám. Taka þarf tillit til þess þegar innihald fræðslu og þjálfunar er ákveðið. Í lok hvers starfsþróunardags voru þátttakendur beðnir um að meta daginn, kennsluaðferðir og gefa ábendingar um hvað mætti betur fara ásamt því að benda á hvaða fræðslu eða þjálfun þeir töldu sig hafa mest gagn af. Þannig var hægt að sníða starfsþróunarárið að þátttakendum.
Á starfsþróunarárinu voru allir hjúkrunarfræðingarnir í stuðningshópum sem var stýrt af reyndum íslenskum hjúkrunarfræðingum sem allir höfðu reynslu af því að flytjast búferlum og starfa sem hjúkrunarfræðingur í öðru landi. Kostir þess að hafa stuðningshópa líkt og þessa eru að hjúkrunarfræðingar fá rými til þess að deila sinni reynslu með öðrum sem eru að kljást við svipaða reynslu.
Ásamt þeim markmiðum sem áður er getið er eitt af markmiðum starfsþróunarárs erlendra hjúkrunarfræðinga að tengja hópinn saman, en rannsóknir hafa sýnt að jafningastuðningur er mikilvægur þegar verið er að taka fyrstu skrefin á nýjum vinnustað. Á starfsþróunarárinu voru allir hjúkrunarfræðingarnir í stuðningshópum sem var stýrt af reyndum íslenskum hjúkrunarfræðingum sem allir höfðu reynslu af því að flytjast búferlum og starfa sem hjúkrunarfræðingur í öðru landi. Kostir þess að hafa stuðningshópa líkt og þessa eru að hjúkrunarfræðingar fá rými til þess að deila sinni reynslu með öðrum sem eru að kljást við svipaða reynslu.

Í heildina kom starfsþróunarárið vel út og voru þátttakendur sammála um að starfsþróunarárið hjálpaði þeim að takast á við starfið, jók starfsánægju, kynnti þeim betur starfsemi spítalans ásamt því að hvetja til frekari starfsþróunar í hjúkrun. Deildarstjórar lýsti einnig ánægju sinni með þetta fyrirkomulag. Nú í febrúar hófst nýtt starfsþróunarár fyrir nýlega ráðna erlenda hjúkrunarfræðinga á Landspítala. Þátttakendur eru liðlega tuttugu. Skipulag og innihald þess byggist að miklu leyti á fyrra starfsþróunarári og niðurstöðum úr könnun meðal þátttakenda á fyrra starfsþróunarári.

Niðurstaða okkar á Landspítala er að starfsþróun eins og hér er lýst, sem er sérsniðin að fræðsluþörfum hjúkrunarfræðinga sem hingað koma til starfa, sé forsenda farsæls starfs og samvinnu við íslenskumælandi hjúkrunarfræðinga og sjúklinga. Það er enn fremur mikilvægt að veita formlegan stuðning og hvatningu, bæði miðlægt og á deildinni sem viðkomandi starfar ár. Við treystum því að hjúkrunarfræðingar taki vel á móti erlendum hjúkrunarfræðingum, aðstoði þá við að komast inn í starfið og sýni þeim tillitssemi og sanngirni fyrstu mánuðina í starfi. Það er trú okkar að til framtíðar muni störf þeirra hér auðga og efla hjúkrun á Íslandi.



Pistlar og viðtöl

Erlendir hjúkrunarfræðingar

Fagleg málefni

Forvarnir og fræðsla

Stuðningur

Upplýsingar og ráðgjöf

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála