Hjukrun.is-print-version

Stytting vinnuvikunnar

1. tbl. 2021
Harpa Júlía Sævarsdóttir, Guðbjörg Pálsdóttir og Eva Hjörtína Ólafsdóttir

Mikilvægum áfanga var náð í kjarasamningum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga vorið 2020 þegar samið var um styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar. Um er að ræða stórt framfaraskref í kjarabaráttu hjúkrunarfræðinga. Útfærslan á styttingu vinnuvikunnar verður ólík hjá hjúkrunarfræðingum í dagvinnu og þeim sem starfa í vaktavinnu en innleiðingu á dagvinnustöðum lauk um síðustu áramót.

Í vaktavinnu verður vinnuvikan stytt að lágmarki um fjórar klukkustundir, en að hámarki um átta klukkustundir miðað við fullt starf hjá þeim sem vinna mikla vaktabyrði. Með þessu er stigið stórt skref í átt að kröfu hjúkrunarfræðinga – sem og fjölmargra annarra vaktavinnustétta – að 80 prósent vinna í vaktavinnu jafngildi 100 prósenta vinnu í dagvinnu. Breytingin fyrir vaktavinnufólk krefst meiri undirbúnings og flóknari samtala á vinnustöðum en breytingarnar fyrir dagvinnufólk og því tekur hún ekki gildi fyrr en 1. maí næstkomandi.
Vinna á óreglulegum tímum sólarhringsins gerir fólki einnig erfiðara fyrir að eiga eðlilegt líf utan vinnutíma. Breytingarnar, sem nú eru að verða að veruleika, eru gerðar með það að leiðarljósi að bæta heilsu, öryggi og auka jafnvægi milli vinnu og einkalífs starfsfólks, ásamt öryggi skjólstæðinga þess.
Rannsóknir á vaktavinnu hafa leitt í ljós ýmsar neikvæðar afleiðingar sem geta hlotist af vaktavinnu, einkum á heilsu starfsfólks, öryggi starfsfólksins sjálfs og þeirrar þjónustu sem það veitir. Vaktavinnufólk er jafnframt talið í meiri hættu á að fá ýmsa sjúkdóma, t.a.m. getur vinna á mismunandi tímum sólarhringsins haft slæm áhrif á svefn fólks og það hefur síðan áhrif á heilsu þess. Vinna á óreglulegum tímum sólarhringsins gerir fólki einnig erfiðara fyrir að eiga eðlilegt líf utan vinnutíma. Breytingarnar, sem nú eru að verða að veruleika, eru gerðar með það að leiðarljósi að bæta heilsu, öryggi og auka jafnvægi milli vinnu og einkalífs starfsfólks, ásamt öryggi skjólstæðinga þess. Með breytingunum verður vaktavinna vonandi eftirsóknarverðari og er breytingunum einnig ætlað að auka stöðugleika í mönnun hjá stofnunum ríkis og sveitarfélaga, sem og bæta öryggi og þjónustu við almenning.

Nýtt fyrirkomulag vaktavinnu

Kerfisbreytingin felur í sér að greiðslur fyrir vinnutíma vaktavinnufólks og þ.m.t. hjúkrunarfræðinga verða sanngjarnari og taka þá mið af því hvenær sólarhrings er unnið með tilliti til heilsu og öryggis starfsfólks. Tilkoma nýs vaktavinnukerfis mun fyrst og fremst umbuna þeim hjúkrunarfræðingum sem eru í háu starfshlutfalli og hafa þunga vaktabyrði. Í undirbúningnum og samningaviðræðum um nýtt kerfi voru yfir 300 starfshópar mátaðir inn í kerfið og niðurstaðan var sú að með nýju kerfi er verið að umbuna mest fyrir fjölda skipta sem mætt er í vinnu og mikla vaktabyrði utan dagvinnutíma.

Fyrir hjúkrunarfræðinga í 100 prósent starfi, með þyngstu vaktabyrðina og fjölbreyttustu vaktirnar, mun vinnustundum fækka úr 173,3 klukkustundum á mánuði allt niður í 139 klukkustundir. Mánaðarleg stytting getur því orðið rúmlega 34 klukkustundir hjá hjúkrunarfræðingum frá því sem nú er.

Um það bil 70 prósent alls vaktavinnufólks, sem starfar hjá ríkinu, er í hlutastarfi. Um 80-85% allra hjúkrunarfræðinga starfa í hlutastarfi og því hafa þessar breytingar gífurleg áhrif á vinnuumhverfi stéttarinnar. Hjúkrunarfræðingar, sem hafa fram að þessu valið að vera í hlutastarfi, geta því eftir breytingarnar unnið áfram jafnmargar klukkustundir. Við það eykst starfshlutfallið og þar með hækka launin. Tæplega 80 prósent vaktavinnufólks, sem starfa hjá hinu opinbera, eru konur í heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Þær eru líklegri til að velja sér hlutastörf og er því augljóst að um tímabæra og mikilvæga jafnréttisaðgerð er um að ræða, sérstaklega fyrir stétt eins og hjúkrunarfræðinga þar sem 97% þeirra eru konur.

Kostnaður tryggður vegna styttri vinnuviku

Á mörgum vinnustöðum hjúkrunarfræðinga þarf að manna vaktir hluta úr sólarhring eða allan sólarhringinn og er ljóst að styttingin mun kalla á aukin útgjöld frá launagreiðendum. Það hefur legið ljóst fyrir frá upphafi og var gert ráð fyrir því í kostnaðarmati kjarasamningsins líkt og hjá öðrum stéttum. Kerfisbreytingin er slík að þau verðmæti sem þegar voru inni í kerfinu eru nýtt á annan hátt með viðbótarfjármagni sem fylgir kjarasamningum vegna þessa. Úr því verður til nýtt kerfi með styttri vinnuviku og auknum möguleikum á því að vera í fullu starfi í vaktavinnu, fá hærra vaktaálag á nóttunni og vaktahvata. Það er tekið sérstaklega fram að hjúkrunarfræðingar eiga ekki að lækka í launum við þessar breytingar, enda stytting vinnuvikunnar án launaskerðingar ófrávíkjanleg krafa Fíh í samningsferlinu.
Á flestum vaktavinnustöðum verður til svokallað mönnunargat og því þarf að fjölga stöðugildum hjúkrunarfræðinga. Á sama tíma vantar fleiri hjúkrunarfræðinga til starfa þó það sé ekki algilt á öllum vinnustöðum.Á einstaka vinnustöðum, sem ekki eru með vaktir allan sólarhringinn eða aðra sérstöðu, þarf að bregðast sérstaklega við til að tryggja að starfshópar lækki ekki í launum við kerfisbreytinguna. Um það er full sátt milli aðila í stýrihóp verkefnis um betri vinnutíma og hefur verið stofnaður starfshópur með fulltrúum samningsaðila, þ.á m. Fíh og launagreiðendum, til að meta og bregðast við slíkum hópum. Dæmi um slíkan hóp eru hjúkrunarfræðingar sem eru í 49,9% starfi samhliða töku lífeyris.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og önnur samtök launafólks og launagreiðenda hafa sameinast í að veita fræðslu, leiðbeiningar og stuðning við vinnustaði við innleiðingu nýs vaktavinnukerfis. Þá fræðslu má til dæmis finna inni á vefnum betrivinnutimi.is en það er sameiginlegur vettvangur fyrir alla til að fá frekari upplýsingar og fræðslu, þ.m.t. hjúkrunarfræðinga. Einnig er þessar upplýsingar að finna á Mínum síðum á vef Fíh. Á flestum vaktavinnustöðum verður til svokallað mönnunargat og því þarf að fjölga stöðugildum hjúkrunarfræðinga. Á sama tíma vantar fleiri hjúkrunarfræðinga til starfa þó það sé ekki algilt á öllum vinnustöðum. Stjórnendur á hverjum vinnustað standa frammi fyrir því verkefni að meta þörfina fyrir hjúkrunarfræðinga og annað starfsfólk, breyta vaktakerfum og auglýsa eftir nýju starfsfólki til að bregðast við styttingunni þar sem þörf er á.

Tækifærin eru mikil

Stytting vinnuvikunnar í vaktavinnu gerist ekki sjálfkrafa. Það er sameiginlegt verkefni stjórnenda og hjúkrunarfræðinga að finna hvaða útfærslur á vinnutíma henta best á hverjum vinnustað. Oftast þarf að breyta vaktaskipulagi og er þá nauðsynlegt að taka fyrst mið af þörfum starfseminnar og starfsmannahópsins og óskum starfsfólks. Mikilvæg forsenda er virkt samtal á milli stjórnenda og hjúkrunarfræðinga á meðan á innleiðingunni stendur og góð samvinna um að finna bestu leiðina til að bæta vinnutímann.

Það felast gífurleg tækifæri í styttingu vinnuvikunnar í vaktavinnu, rétt eins og í dagvinnu. Þetta eru tækifæri sem hjúkrunarfræðingar í vaktavinnu, sem og þeirra stjórnendur, munu vonandi nýta sér í endurbætt skipulag sem gagnast öllum vel. Því er nauðsynlegt að allir hjúkrunarfræðingar nýti þetta tækifæri vel og leggist á eitt að tryggja sem bestan ávinning af styttingu vinnuvikunnar.

Félagið

Kjör

Mönnunarmál

Stjórnvöld

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála