Hjukrun.is-print-version

Tungumálið er veigamesta atriðið: Hugleiðingar hjúkrunarfræðinga af erlendum uppruna

1. tbl. 2021

Það krefst hugrekkis að fara úr sínu kunnuglega umhverfi og því öryggi sem því fylgir og flytja til nýs lands, læra nýtt tungumál og kynnast nýju fólki og nýrri menningu fjarri fjölskyldu og vinum. Það eru margar hindranir sem hjúkrunarfræðingar af erlendum uppruna þurfa að yfirstíga þegar þeir flytja hingað búferlum. Flestir finna fyrir óöryggi og kvíða þegar byrjað er í nýju starfi. Umhverfið er nýtt og andlitin ókunnug. Og það er nýtt og framandi tungumál. Nokkrir hjúkrunarfræðingar af ólíkum uppruna deila með okkur reynslu sinni og hvaða erfiðleikum þeir stóðu frammi fyrir.

Holly frá Bandaríkjunum

Þegar ég hugsa til baka þá var það í fjöldamörg skipti sem ég lagði ekki í að segja að ég skildi ekki íslensku. Það tók mig marga mánuði að öðlast það öryggi að geta sagt með öryggi: „Ég skil ekki,“ án þess að röddin titraði eða ég roðnaði upp í hársrætur. Þetta er einhver viðkvæmni sem ég á erfitt með að koma í orð – brothætt samband sem ég á við Ísland sem ég þarf að meðhöndla með mikilli varúð – þetta hárfína jafnvægi sem ég berst við að halda. Ég vil vera fullgildur meðlimur í mikilsmetinni hjúkrunarstétt og ég vil ekki vera byrði á samstarfsfóki mínu eða ógna á einhvern hátt öryggi sjúklinga minna.

Tungumálið eitt er heilmikil hindrun fyrir okkur sem komum hingað. Þar fyrir utan er fólkið okkar ekki með okkur, fjölskylda og vinir, en það að vera fjarri kunnugleikanum veldur innri baráttu. Þrátt fyrir að ég sé óendanlega þakklát fyrir að fá tækifæri til að búa hér og starfa þá finnst mér oft að ég sé ein. Að eiga samskipti í gegnum samfélagsmiðla og í síma við ástvini sína er háð takmörkunum. Það er ekki eins og að vera með fólkinu sínu.

Kórónufaraldurinn hefur síðan því miður haft margvísleg félagsleg áhrif. Sem útlendingur í fjarlægu landi hef ég ekki þann stuðning sem ég bjó við áður og hef þurft að feta mig í gegnum það, t.a.m. hvernig ég ætti að panta mat og koma mér til vinnu. Þrátt fyrir að það sé ákveðin eftirvænting í að búa til nýjar hefðir og vana og uppgötva nýja staði (besta mjólkurkaffið er í Sandholtsbakaríi) þá sakna ég oft kunnugleikans heiman frá. Þá fer mikið af andlegri orku í að viðhalda sambandi við fjölskyldu og vini og að ganga úr skugga umað allt sé í lagi heima og allir heilbrigðir.

Það koma tímar þar sem mig langar aftur heim. Ég hef grátið eftir vinnudag og ég hef fundið vanmátt minn að geta ekki tengst sjúklingum mínum eins og ég hefði viljað vegna tungumálaörðugleika. Mér finnst ég alltaf standa einu skrefi fyrir aftan samstarfsfélaga mína þegar þeir ganga áhyggjulausir til og frá vöktum. Það að þreifa sig áfram í þoku framandi tungumáls (þrátt fyrir að ég geri mitt besta til að læra það) veldur því að manni miðar hægar en óskandi hefði verið í þeim verkefnum sem maður tekur sér fyrir hendur. En það mun koma að því að ég þarf ekki lengur að biðja fólk um að tala hægar eða endurtaka það sem það sagði. Og sömuleiðis kemur að því að ég þurfi ekki að hefja símtal á því að biðja viðkomandi að tala hægt og á eins einföldu máli og unnt er. Ég veit að sá dagur mun koma en þangað til ætla ég að halda áfram að bæta við þekkingu mína í starfsþróunarverkefninu á Landspítala. Ég mun halda áfram að biðja um aðstoð frá samstarfsfólkinu mínu og reyna að gleyma ekki að ég er ekki ein.

Jessica frá Brasilíu

Það er flókið að búa í fjarlægu landi og það eru margar hindranir sem hjúkrunarfræðingar af erlendum uppruna þurfa að yfirstíga. Persónulega þykir mér erfiðast að geta ekki átt fullnægjandi samskipti vegna tungumálaörðugleika. Það er svo margt sem ég sakna: maturinn, sólin og fjölskylda mín, svo ekki sé minnst á faðmlög á tímum kórónuveirufaraldursins. En þrátt fyrir allt er ég mjög þakklát fyrir minn vinnustað og allt það frábæra fólk sem er í kringum mig. Ég legg mig fram um að halda í jákvæðnina og gera mitt besta að vera góð manneskja, og ekki síst góður hjúkrunarfræðingur.

River frá Filippseyjum

Það er ekki tekið út með sældinni að flytja til Íslands og starfa hér en það skiptir miklu máli hve vel maður er undirbúinn. Mig langar að deila hér nokkrum atriðum frá þessari vegferð minni við að festa hér rætur svo vel að vindhviðurnar nái ekki að feykja mér út í buskann.

Tungumálið er veigamesta atriðið hjá öllum sem ákveða að fara úr sínum þægindahring yfir til hins ókunna. Mörgum finnst vissulega erfitt að læra nýtt tungumál en mér finnst það beinlínis spennandi.

Við fyrstu kynni mín af vinnustaðnum leið mér eins og ég væri sífellt að leita að nál í heystakki við að finna réttu orðin. Það koma tímar þar sem ég hef leitt hugann að því hví í ósköpunum ég var að flytja hingað? En tíminn vann með mér og áður en ég vissi af var ég búin að læra meira og meira og komast áfram í völundarhúsi íslenskunnar. Í gegnum starfsþróunarnám á vegum Landspítalans var okkur boðið upp á mismunandi leiðir í íslenskunámi og þar fengum við efni til að dýpka þekkingu okkar.

Í hreinskilni sagt var ég eiginlega skelkuð að flytja hingað, sér í lagi vegna vanmáttar af því að koma frá Asíu. Ég hugsaði með mér að ég yrði fyrir áreitni vegna húðlitar míns þar sem flestir þeir sem hér búa eru hvítir. Þær áhyggjur voru ekki á rökum reistar. Þrátt fyrir að Íslendingar geti verið fálátir á stundum hafa þeir verið hlýir við mig og mér hefur þótt ég velkomin hér. Rasismi er því miður veruleiki víðast hvar en þær móttökur, sem ég hef fengið, hristu fljótt þá hræðslutilfinningu af mér.

„Þú verður að aðlagast veðrinu því það getur breyst á næsta andartaki.“ Þessi setning hefur fylgt mér allar götur frá því að ég flutti hingað og eins undarlegt og það kann að hljóma þá er ég mjög hrifinn af honum. Ég hef aldrei borðað eins hollan mat og frá því að ég flutti hingað enda úrvalið af heilsusamlegum mat frábært og það hefur sannarlega gert mér gott.

Vinnuaðstæður hér á landi eru með því besta sem ég hef nokkurn tíma kynnst. Hvernig stéttarfélögin og yfirvöld vernda sitt fólk er til fyrirmyndar. Í lokin: Lífið hér er eins og rússíbani, það fer upp og niður og það er undir hverjum og einum komið hvernig þeir njóta ferðarinnar.

Reina frá Filippseyjum

Hvar á ég eiginlega að byrja? Ég er svolítið innhverf manneskja og þá er það átak að hefja samtal við innfædda. En ef maður stekkur bara í djúpu laugina kemst maður að því að hve hlýtt fólkið er og reiðubúið að bjóða mann velkominn.

Tungumálið! Það er á brattann að sækja alla daga fyrir alla útlendinga. En það er spennandi að læra nýtt og nýtt orð, að heyra ný máltæki og að búa til nýjar setningar. Þetta er lærdómsríkt ferðalag en um leið og maður nær tökum á málinu og verður fær í munnlegum samskiptum þá er ferðalagið svo sannarlega þess virði. Og svo er það veðrið! „Ef þér líst ekki á veðrið skaltu bara bíða bara í fimm mínútur.“ Fyrir útlending frá hitabeltislandi er það afar fjarlæg hugsun að gá til veðurs til að ákveða í hvað maður á að fara áður en lagt er í hann.

Ég hef heldur betur vanmetið hve veðrið getur verið breytilegt hér og staðið frammi fyrir að vera með frosna fingur eftir að ég fór út í glaða sólskini. Fyrir alla náttúruunnendur ætti Ísland að vera á óskalistanum vegna hinnar ægifögru náttúru.

Pistlar og viðtöl

Erlendir hjúkrunarfræðingar

Mál og menning

Samskipti

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála