Verð er ekki það sama og virði
1. tbl. 2021
Janúar 2020. Ég sit inni í sjúkrabíl sem ekur með blikkandi ljós og vælandi sírenur eftir götum Lundúna. Þetta er í fyrsta sinn sem ég kem inn í slíkan bíl. Vera mín í bílnum vekur með mér furðu. Einhvern veginn hafði ég staðið í þeirri trú að sjúkrabílar væru fyrir annað fólk.
Klukkustund fyrr hafði ég setið við tölvuna í vinnunni með tíu metra langan tossalista eins og snöru um hálsinn við afgreiðslu verkefna sem ég áleit kraftinn sem tryggði að jörðin snerist um möndul sinn, heltekin af tölvupóst-innhólfinu þar sem sendingar flugu fram og til baka af jafnmiklum ofsa og boltar í úrslitaleik á Wimbledon. En krísur gera okkur gjarnan kleift að sjá hvað það er sem raunverulega skiptir máli.
Þegar sex ára dóttir mín var flutt með sjúkrabíl á Great Ormond Street-barnaspítalann í London með sprunginn botnlanga áttum við fjölskyldan ekki von á öðru en að við yrðum komin aftur heim eftir nokkra daga. Raunin varð önnur. Í kjölfar fylgikvilla og sýkinga eftir skurðaðgerð ílentumst við á spítalanum. Í hátt á þriðju viku dvöldum við innilokuð í ókunnugri spítalaveröld í móki óvissu og ótta. En þrátt fyrir það sá ég tilveruna skýrar en nokkru sinni fyrr.
Þar sem ég sat við rúmstokk dóttur minnar fylgdist ég vanmáttug með hjúkrunarfræðingum og öðru starfsfólki spítalans bregða sér í líki bjargvætta, skemmtikrafta, sálusorgara og allsherjarreddara. Lamandi uppgötvun sló mig: Við sem samfélag erum á algjörum villigötum.
Tilgangur lífsins var ekki vistaður í tölvunni; tékklistar voru ekki hreyfiafl jarðar; eftirsókn eftir vindi gerði ekki annað en að rugla hárgreiðslunni. En röntgensjónin risti dýpra en undir yfirborð eigin nafla. Þar sem ég sat við rúmstokk dóttur minnar fylgdist ég vanmáttug með hjúkrunarfræðingum og öðru starfsfólki spítalans bregða sér í líki bjargvætta, skemmtikrafta, sálusorgara og allsherjarreddara. Lamandi uppgötvun sló mig: Við sem samfélag erum á algjörum villigötum.
Þegar við mæðgur gengum loks út af spítalanum sólríkan vetrardag í London taldi ég mig eina um opinberunina. En örlögin höguðu því svo að brátt yrði lexían allri heimsbyggðinni ljós.
Eindálkur á innsíðum dagblaða
Haft er eftir Oscari Wilde að sú sé kaldlynd manneskja sem veit verðið á öllu en virði einskis. Samfélag okkar er orðið þessi kaldlynda manneskja. Æ oftar trompar verð virði. Óttinn við slíkt kaldlyndi breiðist hratt út.Í metsölubók lögfræðingsins Michaels Sandel, What Money Can't Buy: The Moral Limits of Markets, færir höfundur rök fyrir því að við búum ekki lengur við markaðshagkerfi heldur lifum við í markaðssamfélagi. Stjörnuhagfræðingurinn Mariana Mazzucato segir hagkerfi heimsins í kreppu. Ástæðan: Við erum hætt að ræða um það sem eitt sinn var þungamiðja hagfræðinnar, virði – hvað er virði og hvað er það sem er okkur einhvers virði? Meira að segja fyrrverandi bankastjóri Englandsbanka, seðlabanka Bretlands, er sammála. Í desember síðastliðnum hlaut Mark Carney þann heiður að flytja Reith-fyrirlestrana, árlega fyrirlestraröð breska ríkisútvarpsins, þar sem fremstu hugsuðum samtímans er boðið að tala. Í fjórum fyrirlestrum rökstuddi Carney að samfélag okkar hefði villst af leið; við værum farin að leggja of mikla áherslu á fjárhagslegt virði vöru og þjónustu og of litla áherslu á siðferðilegt og samfélagslegt virði.
Fyrir ári, þegar ég sat við sjúkrabeð dóttur minnar, las ég frétt um nýja veiru sem hefði fundist í Kína. Við upphaf 2020 var kórónuveiran aðeins eindálkur á innsíðum dagblaða. Fáir töldu mikla hættu á ferðum. Því rétt eins og ég hafði alltaf talið sjúkrabíla þjónustu við annað fólk áleit heimsbyggðin pestarfaraldur atburð sem gerðist á öðrum tímaskeiðum. En svo, skyndilega, öllum að óvörum, en samt ekki, gerist það versta.
Samfélagið hefur löngum verið heltekið af virðingu fyrir ferilskrárdyggðum: framkvæmdastjórum, framámönnum og mektarfólki. En það hriktir í stoðum þeirrar heimsmyndar.
Líkræður og ferilskrár
Fyrir nokkrum árum skipti David Brooks, dálkahöfundur New York Times, mannlegum dyggðum í tvo flokka, annars vegar í ferilskrárdyggðir – afrek, prófgráður og launaflokk, hins vegar líkræðudyggðir – varstu góðhjartaður, heiðvirður, hjálpsamur? Samfélagið hefur löngum verið heltekið af virðingu fyrir ferilskrárdyggðum: framkvæmdastjórum, framámönnum og mektarfólki. En það hriktir í stoðum þeirrar heimsmyndar.Kórónuveirufarsóttin, sem nú geisar, afhjúpaði meira en nokkru sinni fyrr virði mismunandi starfsstétta. Í ljós kom að það voru ekki launahæstu hóparnir með flestar ferilskrárdyggðir sem reyndust mikilvægastir þegar á reyndi. Við áttum skyndilega allt okkar undir heilbrigðisstarfsfólki, starfsfólki í matvælaframleiðslu, afgreiðslufólki verslana, fólki í umönnunarstörfum og ræstingum.
Gríski heimspekingurinn Plató hélt því fram að sögumenn stýrðu heiminum. Persónuleg kreppa mín á spítalanum með dóttur minni þar sem ég sat ráðalaus, komin upp á náð og miskunn heilbrigðisstarfsfólks, varð til þess að ég endurskrifaði þær sögur sem ég lifði eftir. Kórónuveirufarsóttin er kreppa sem sent hefur veröldina í sömu vegferð.
Kórónuveirufaraldurinn skilur eftir sig sviðna jörð. En í eyðileggingunni má líka finna tækifæri. Yfirstandandi kreppa hefur svipt hulunni af hinu augljósa: Verð er ekki það sama og virði. Við stöndum á tímamótum. Ætlum við að lyppast áfram inn í framtíðina af andleysi og skrifa þar sömu gömlu sögurnar og við skrifuðum í gær?Heimsbyggðin fylgist nú með ykkur, hjúkrunarfræðingum, berjast í fremstu víglínu gegn covid-19. Á sama tíma er „hetjulegt“ framlag okkar hinna til baráttunnar gegn útbreiðslu kórónuveirunnar – þar með talið mannanna með stærstu verðmiðana – að halda okkur heima og hámhorfa á Netflix yfir sneið af heimabökuðu súrdeigsbrauði.
Kórónuveirufaraldurinn skilur eftir sig sviðna jörð. En í eyðileggingunni má líka finna tækifæri.
Yfirstandandi kreppa hefur svipt hulunni af hinu augljósa: Verð er ekki það sama og virði. Við stöndum á tímamótum. Ætlum við að lyppast áfram inn í framtíðina af andleysi og skrifa þar sömu gömlu sögurnar og við skrifuðum í gær? Eða ætlum við að henda gamla handritinu á haugana og, með sannleikann sem kórónuveiran afhjúpaði að leiðarljósi, leggja drög að nýjum veruleika þar sem líkræðudyggðir trompa innantómar ferilskrárdyggðir, samfélag fólks ákveður söguþráðinn en ekki ósýnileg markaðsöfl og þeir sem vinna störf sem mest hafa virði eru metnir að verðleikum?