Hvað eiga kóngulær og kafbátar sameiginlegt? Vafalaust ekkert nema að vekja ótta meðal fólks. „Ég hræðist mest að drukkna í kafbát,“ segir Jónína Eir Hauksdóttir og „kóngulær eru líka eitthvað til að hræðast,“ svarar Nanna Kristín Johansen en þær sátu fyrir svörum ásamt Maríu Vigdísi Sverrisdóttur um lífið og tilveruna. María hræðist mest þá tilhugsun að valda öðrum skaða. Fyrir utan að vera hjúkrunarfræðingar eiga þær það allar sameiginlegt að hafa sömu bókina á náttborðinu, sem er Snerting eftir Ólaf Jóhann Ólafsson, og kannski sitthvað fleira.
„Nei er bara vitlaust svar!“
- Jónína Eir Hauksdóttir
Fullkomin hamingja er ... að vita fólkið mitt öruggt og ánægt og þar með talið sjálfa mig. Hvað hræðist þú mest? Að eitthvað komi fyrir fólkið mitt og að drukkna í kafbát, enda er ég ekkert að þvælast í svoleiðis. Fyrirmyndin? Ég á nokkrar sem snúa að ýmsum þáttum í lífinu en efstur á toppnum er pabbi minn. Eftirlætismáltækið? Hahaha. Ég spurði manninn minn hvað hann héldi að það væri og hann sagði að það væri „Nei er bara vitlaust svar“ og ég held að það stemmi bara ágætlega. Ég nota þetta víst dálítið. Hver er þinn helsti kostur? Ég held að það sé bara almenn jákvæðni. Svo er ég alltaf að reyna að temja mér góða hluti, eins og umburðarlyndi og þolinmæði, sem eru mér alls ekki meðfæddir. Hvað vildirðu verða þegar þú varst ung? Mig langaði mest að leika í dans- og söngvamyndum. Helst í Holliwood eða Broadway. Eða vera í sirkus, loftfimleikakona eða línudansari. Áttaði mig nokkuð fljótt á því að það mundi ekki gerast. Eftirlætismaturinn? Ís. Hvaða löst áttu erfiðast með að þola í fari annarra? Einstrengingshátt og húmorsleysi. Hverju ertu stoltust af að hafa áorkað? Ég veit ekki hvort ég hef áorkað einhverju sérstöku, en í augnablikinu er ég afar ánægð með að hafa lokið jógakennaranáminu mínu í Yoga Shala. Það er að skila sér vel til mín og vonandi fólksins í kringum mig. Eftirminnilegasta ferðalagið? Fyrsta skíðaferðin til Austurríkis með pabba mínum, Valdimari Örnólfssyni, og félögum. Það var líka æðislegt í Víetnam og á Kúbu og ... Ofmetnasta dyggðin? Stolt. Hver er þinn helsti löstur? Úff … ég á marga. Óstundvísi kannski. Hef afar lélegt tímaskyn og fer alltaf allt of seint að sofa. Hverjum dáist þú mest að? Barnabörnunum mínum. Eftirlætishöfundurinn? Isabel Allende. Elska andrúmsloftið í bókunum hennar. Ofnotaðasta orðið eða orðatiltækið? „Að vera með böggum hildar.“ Mikið í tísku hjá fjölmiðlafólki og fleirum og ég held að ekki nokkur maður viti alveg hvað það þýðir. Mjög fyndið. Mesta eftirsjáin? Tilgangslaust að sjá eftir neinu. Veldur bara tilgangslausri vanlíðan. Eftirlætisleikfangið? Skíðin mín. Bókin á náttborðinu? Yfir höfin eftir Isabel Allende, Snerting eftir Ólaf Jóhann og bók um öndunartækni. Stóra ástin í lífinu? Drengirnir mínir. Jafnast ekkert á við þá ást. Hvaða eiginleika vildirðu helst hafa? Einbeitingu Þitt helsta afrek? Enn þá óunnið. Eftirlætisdýrið? Fuglar. Hvar vildir þú helst búa? Ítalíu og að kunna ítölsku. Hvað er skemmtilegast? Það er svo margt skemmtilegt. Ég elska jóga og svo líður mér hvergi betur en í góðra vina hópi úti í náttúrunni. Hvaða eiginleika metur þú mest í fari vina? Væntumþykju og hlátur. Eftirlætiskvikmyndin? Held að ég verði að segja Shawshank Redemption. Markmið í lífinu? Að vera sátt og ánægð með hvað sem lífið býður upp á. Nægjusemi. Eftirminnilegasti sjúklingurinn? Þeir eru nú nokkrir eftir öll þessi ár. En eftir hrun vann ég mikið í Noregi. Á bráðamóttöku í Ósló var ég að hjúkra lítilli yndislegri 7 ára stúlku sem var fótbrotin. Hún var frá Pakistan minnir mig. Stórfjölskyldan var með henni til stuðnings. Ég var búin að setja gifs á hana upp í nára og var svo að hjálpa henni á klósettið. Hún spyr mig þá hvort ég sé múslimi eins og hún. Ég hváði aðeins en svaraði svo, að ég yrði víst að teljast kristin. Þá varð hún mjög hissa og sagði það vera skrítið. Ég væri svo góð að hún hélt að ég væri múslimi. Ég velti því lengi fyrir mér hvað henni hefði eiginlega verið sagt. Hvaða starfsvettvang myndirðu kjósa annan en núverandi? Mig hefur oft dreymt um að eiga lítinn veitingastað eða gistiheimili. Núna veit ég ekki hvort ég myndi nenna því. Ég er líka að telja í mig kjark að gera eitthvað við jóganámið mitt og læra meira í því sambandi. Eitthvað að lokum? Vona bara að þetta covid-ástand í heiminum fari að líða undir lok og vona líka að við höfum lært sitthvað af því og gleymum því ekki strax.
Markmiðið „að lifa af eða deyja ella“
- María Vigdís Sverrisdóttir
Fullkomin hamingja er … Að vera sáttur við sjálfan sig og aðra. Hvað hræðist þú mest? Ég bara veit það ekki ... En að valda öðrum skaða er hræðileg tilhugsun. Fyrirmyndin? Margar en líklega er það fólkið sem stendur mér næst sem eru mínar fyrirmyndir. Foreldrar mínir sem kenndu mér svo margt. Amma mín sem var ótrúleg kona sem tókst að standa upprétt og halda í lífsgleði þrátt fyrir mörg áföll í lífinu og svo eru það systkini mín sem hafa tekist á við margt og staðið sig framúrskarandi í leik og starfi. Fyrirmyndir mína í hjúkrun eru margar og þar eru margar af mínum bestu vinkonum sem eru flottir og faglegir hjúkrunarfræðingar. Ég verð þó að nefna nokkra hjúkrunarfræðinga sem ég hef lært mikið af. Hildur Helgadóttir, nú verkefnastjóri á Landspítala, sem ég vann fyrst með á smitsjúkdómadeildinni, og Pálína Ásgeirsdóttir sem var deildarstjóri á slysadeildinni þegar ég vann þar. Ég var svo heppin að fá að vinna með báðum þessum konum þegar ég var nýútskrifuð og voru þær miklar fyrirmyndir í faglegri vinnu og góðir kennarar. Svo verð ég að fá að minnast á nöfnurnar Sigríði Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóra hjúkrunar á Landspítala, og Sigríður Gunnarsdóttir, prófessor á Bifröst. Þessar konur kveikja einhvern neista í hjúkrunarhjartanu í hvert sinn sem ég hlusta á þær tala um hjúkrun. Eftirlætismáltækið? Hver er sinnar gæfu smiður. Hver er þinn helsti kostur? Jákvæðni, ég tek mig ekki of hátíðlega og tel mig hafa þokkaleg tilfinningagreind. Hvað vildirðu verða þegar þú varst ung? Að vera flugfreyja eins og Didda frænka eða hjúkrunarkona eins og María Maack frænka. Eftirlætismaturinn? Ég borða allt og elska góðan mat ... ákveðið vandamál ... Hvaða löst áttu erfiðast með að þola í fari annarra? Óheilindi, lygar og hroka. Hverju ertu stoltust af að hafa áorkað? Börnin mín þrjú sem ég er óendanlega stolt af. Svo eru það verkefnin sem hafa reynt mikið á og ég e.t.v. efaðist um að mér tækist að klára. Það eru nokkur slík verkefni sem mér hafa verið falin í vinnunni, eins og að takast á við flóknar breytingar. Eins er ég ótrúlega stolt og þakklát fyrir samstarfsfólkið sem hefur farið í þessa leiðangra með mér, án þessa fólks hefðu verkefnin ekki farið eins vel. Eftirminnilegasta ferðalagið? Úff ... þau eru svo mörg og erfitt að gera upp á milli þeirra fjölmörgu ferðalaga innanlands og utan með góðum vinum og fjölskyldu ... margar alveg frábærar ferðir. En langar þó að nefna hjólaferð sumarið 2019 þegar við hjóluðum hluta af Jakobsstígnum á Spáni með góðum vinum. Ofmetnasta dyggðin? Úff ... jú líklega er það að halda að maður sé ómissandi. Hver er þinn helsti löstur? Að færast of mikið í fang og gera of margt í einu ... ákveðinn athyglisbrestur. Hverjum dáist þú mest að? Fólki sem tekst á við erfiðleika í lífinu af æðruleysi og kemur út sem sterkari einstaklingar. Eftirlætishöfundurinn? Ragnar Jónsson, Yrsa Sigurðardóttir og Kim Leine. Ofnotaðasta orðið eða orðatiltækið? Þetta reddast! Mesta eftirsjáin? Ég sé ekki eftir neinu. Vissulega hefur maður tekið misgáfulegar ákvarðanir í lífinu en þær ákvarðanir hafa þá kennt manni eitthvað eða leitt mann á nýjar slóðir. Ef eitthvað er gæti ég sagt að stundum hef ég látið vinnuna stýra of miklu í lífi mínu. Eftirlætisleikfangið? Núna eru það hjólin mín, dansskórnir og myndavélin (í símanum). Sem barn var það dúkka sem systkini mín kölluðu Bollubínu til að hrella mig. Mér fannst það agalegt nafn fyrir fallegu dúkkuna mína og grét yfir þessu miskunnarleysi þeirra en svo fór ég sjálf að nota nafnið, það festist við hana og varð hið besta nafn. Bókin á náttborðinu? Snerting eftir Ólaf Jóhann Ólafsson og Óstýrláta móðir mín eftir Sæunni Kjartansdóttur. Stóra ástin í lífinu? Maðurinn minn, hann Raggi minn, og nýjasta ástin í lífi mínu er lítill yndislegur ömmustrákur. Hvaða eiginleika vildirðu helst hafa? Að geta séð fram í tímann ... og að hafa þrautseigju og seiglu. Þitt helsta afrek? Börnin mín þrjú sem eru ótrúlega flottir og vandaðir einstaklingar. Og í vinnu er það líklega þegar hringt var í mig frá slysadeildinni kl. 23.00 og ég beðin að koma til að fara með sjúkling, sem hafði verið endurlífgaður eftir drukknun, í súrefniskútinn. Þegar mér var sagt að enginn annar gæti gert þetta og maðurinn yrði að komast í kútinn þá dreif ég mig auðvitað af stað, ósofin, búin með fullan vinnudag og ekki á bakvakt ... nema hvað. Það runnu reyndar á mig tvær grímur þegar ég kom á staðinn og sá að sjúklingurinn var „intuberaður“ og svæfður og mér sagt að ég yrði í kútnum með honum í 8 klukkutíma. Sumsé að handventilera hann, gefa lyf, setja upp vökva, tæma þvagpoka, soga, snúa og hagræða, fylgjast með lífsmörkum og sjúklingnum sjálfum við aðstæður þar sem ég var ein og ekki var hægt að standa uppréttur í klefanum eða fara á klósettið ... í 8 klukkutíma ... ekki málið! En Guði sé lof, við lifðum þetta bæði af og sjúklingurinn náði fullum bata. Í viðtali sem tekið var við hann í fjölmiðlum nokkru síðar þakkaði hann læknunum fyrir að bjarga lífi sínu ... Hann vissi ekki betur ... ósýnilegu störf hjúkrunarfræðinganna. En ég fékk mína viðurkenningu síðar þegar ég var heiðruð á ársfundi spítalans fyrir þetta. Eftirlætisdýrið? Hundurinn minn, hann Dreki. Hvar vildir þú helst búa? Það er gott að búa á Íslandi og líklegast allra best núna en það eru margir staðir sem væri spennandi að búa á um tíma. Hvað er skemmtilegast? Að ferðast, dansa, hjóla, syngja og hlæja með skemmtilegu fólk ... að vera með góðu fólki, fjölskyldu minni, vinum og vinnufélögum. Hvaða eiginleika metur þú mest í fari vina? Traust, umhyggju og gleði. Eftirlætiskvikmyndin? Mjög margar og mismunandi eftir tímabilum í lífinu. Það eru þó þrjár myndir sem höfðu mikil áhrif á mig þegar ég sá þær sem mig langar að nefna. Jakten, Breaking the Waves og Babel. Markmið í lífinu? „Að lifa af eða deyja ella“ eins og maðurinn sagði ... En annars að njóta líðandi stundar, gera sitt besta, læra og þroskast. Eftirminnilegasti sjúklingurinn? Það eru mjög margir eftirminnilegir sjúklingar sem koma upp í hugann og líklega skilja þeir mest eftir sem reyna mest á mann sem hjúkrunarfræðing og manneskju eins og við alvarleg slys, veikindi og andlát. Það eru þó þrír ungir menn með alnæmi sem eru mér ofarlega í huga, ég hjúkraði þeim á smitsjúkdómadeildinni þegar ég var nýútskrifuð. Ungir menn í blóma lífsins sem voru mjög veikir og stóðu frammi fyrir nýjum lífshættulegum sjúkdómi. Á sama tíma og þeir voru að berjast fyrir lífi sínu þurftu þeir að takast á við mikla fordóma og hræðslu við sjúkdóminn í samfélaginu. Mjög flókin hjúkrun, ekki bara vegna þess hve veikir þeir voru heldur líka vegna þess að fjölskylduaðstæður þeirra voru ótrúlega flóknar. Ég lærði mikið af því að hjúkra þessum mönnum. Hvaða starfsvettvang myndirðu kjósa annan en núverandi? Ætli ég hefði ekki látið listagyðjuna taka völdin ... Ljósmyndun, leirlist, leiklist eða unnið við það sem ég lærði fyrst, leikhús og kvikmyndaförðun. Eitthvað að lokum? Hverjum hefði dottið í hug að árið sem var tileinkað hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum yrði svona. Að það væri árið sem reyndi meira á þessar stéttir en nokkru sinni. Ég hef alltaf verið stolt af því að vera hjúkrunarfræðingur en líklega aldrei meira en núna og sjaldan fundið fyrir meiri skilningi og aðdáun almennings á störfum okkar. Kannski vita fleiri núna hvað hjúkrunarfræðingar gera. Takk fyrir mig.
Horfir fram á veginn og eftirsjá er einungis tímaeyðsla
- Nanna Kristín Johansen
Fullkomin hamingja er ... Vera í kringum fólkið mitt og í góðra vina hópi. Það er líka hægt að finna hamingjuna í göngutúr í fallegri náttúru með heitt kakó og teppi. Golf er auðvitað best. Hvað hræðist þú mest? Að missa heilsuna er ekki góð tilhugsun en kóngulær eru líka eittvað til að hræðast. Fyrirmyndin? Hver önnur en Florence. Eftirlætismáltækið? Milt er móðurhjartað. Hver er þinn helsti kostur? Þrautseig og skipulögð. Hvað vildirðu verða þegar þú varst ung? Bóndi. Eftirlætismaturinn? Beef bourguignon og sushi. Hvaða löst áttu erfiðast með að þola í fari annarra? Hroka og sjálfselsku. Hverju ertu stoltust af að hafa áorkað? Að eiga börnin mín fjögur. Eftirminnilegasta ferðalagið? Brúðkaupsferð til Parísar með tvo drengi í eftirdragi og einn í bumbunni. Drengirnir afklæddust í gosbrunn við Louvre-safnið en var vísað upp úr af lögreglu. Þann sama dag gekk ég niður Eiffelturninn vegna lyftubilunar, þá komin sex mánuði á leið. Ofmetnasta dyggðin? Kannski hugrekki. Vaða áfram án þess að sjá heildarmyndina. Hver er þinn helsti löstur? Smámunasemi og óþolinmæði. Hverjum dáist þú mest að? Dáist mest að fólki sem er drífandi, hefur trú á sjálfu sér og lætur drauma sína rætast. Eftirlætishöfundurinn? Halldór Laxness. Ofnotaðasta orðið eða orðatiltækið? Ertu sátt við mig! Mesta eftirsjáin? Ég horfi fram á veginn og eftirsjá er einungis tímaeyðsla. Eftirlætisleikfangið? Golfsettið mitt. Bókin á náttborðinu? Er að hefja lestur á nýrri bók, Snertingu eftir Ólaf Jóhann. Stóra ástin í lífinu? Eyvi. Eftirlætisdýrið? Hundur. Hvar vildir þú helst búa? Ef ekki á Íslandi þá á Ítalíu eða í Danmörku þar sem ég er Kvartbauni Hvað er skemmtilegast? Ég er svo heppin að ég vinn við það sem mér finnst skemmtilegt en auðvitað eru ferðalög með fjölskyldu nærandi og eitt það skemmtilegasta sem ég geri er að fara í golf og á skíði. Hvaða eiginleika metur þú mest í fari vina? Vinsemd, hlýju, kærleika og þá helst heiðarleika. Eftirlætiskvikmyndin? Love Actually er mynd sem maður getur alltaf horft á um jólin. La vita è bella er líka mynd sem skilur mikið eftir sig. Markmið í lífinu? Lifa til fulls, lækka forgjöfina næsta sumar. Eiga margar góðar stundir með fjölskyldu og skoða landið okkar betur. Klára diplómanám í bráðahjúkrun nú í vor og huga að heilbrigði líkama og sálar. Eftirminnilegasti sjúklingurinn? Margir sjúklingar mjög eftirminnilegir og draga má mikinn lærdóm af þeim. Get ekki dregið einn fram fremur en annan en margir sem maður gleymir aldrei. Hvaða starfsvettvang myndirðu kjósa annan en núverandi? Líklega væri ég til í að vinna við garðrækt, arkitektúr eða vera syngjandi glaður bóndi með helling af krökkum og dýrum í kringum mig. Kannski bara margt sem maður gæti hugsað sér. Hjúkrunarfræðingur er samt besta starfið. Eitthvað að lokum? Carpe diem.