Fræðsluþarfir og sjúkdómstengd þekking einstaklinga með kransæðasjúkdóm: Þversniðsrannsókn við útskrift af sjúkrahúsi
Tilgangur: Vegna forvarna og betri meðferðar lifa fleiri með kransæðasjúkdóm en áður og eykur það þörf fyrir fræðslu frá heilbrigðisstarfsfólki. Tilgangur rannsóknarinnar var að lýsa sjúkdómstengdri þekkingu og fræðsluþörfum sjúklinga með kransæðasjúkdóm við útskrift af sjúkrahúsi.
Aðferð: Í þessari lýsandi þversniðsrannsókn, sem gerð var 2017-2018, tóku þátt fullorðnir einstaklingar sem lögðust inn á sjúkrahús vegna bráðs kransæðaheilkennis, kransæðavíkkunar eða kransæðahjáveituaðgerðar. Við útskrift af sjúkrahúsi var gögnum safnað úr sjúkraskrá, með mælingum og þátttakendur svöruðu spurningalistum. Sjúkdómstengd þekking var metin með mælitækinu Þekking-KRANS sem inniheldur 20 fullyrðingar, flokkaðar í fimm þekkingarsvið. Möguleg stig á heildarkvarða eru 0-20 og á hverju þekkingarsviði 0-4. Þátttakendur voru einnig beðnir um að meta fræðsluþarfir sínar varðandi 15 atriði er tengjast kransæðasjúkdómi á 4 stiga kvarða (1 = mjög lítil þörf, til 4 = mjög mikil þörf).
Ályktun: Við útskrift af sjúkrahúsi mældist sjúkdómstengd þekking einstaklinga með kransæðasjúkdóm viðunandi en þó höfðu þeir enn miklar fræðsluþarfir sem mikilvægt er að uppfylla. Við sjúklingafræðslu þurfa hjúkrunarfræðingar að hafa í huga að aldur, menntun, fyrri saga um kransæðasjúkdóm, reykingar og trú á eigin getu eru þættir sem geta haft áhrif á hvernig fræðsla skilar sér í betri þekkingu.
Eftirfylgd hjúkrunarfræðinga á göngudeild og aukin fjarheilbrigðisþjónusta gætu verið fýsilegir kostir til að uppfylla fræðsluþarfir eftir útskrift af sjúkrahúsi.
Lykilorð: Fræðsluþarfir, kransæðasjúkdómur, sjálfsumönnun, sjúklingafræðsla, þekking.
2.tbl. 2021: Fræðsluþarfir og sjúkdómstengd þekking einstaklinga með kransæðasjúkdóm: Þversniðsrannsókn við útskrift af sjúkrahúsi