Að ná tökum á kvíðanum: Reynsla kvenna með andlega vanlíðan af áhrifum hugrænnar atferlismeðferðar sem veitt er á heilsugæslu
Tilgangur: Hugræn atferlismeðferð (HAM) er árangursrík meðferð sem er notuð við andlegri vanlíðan, streitu og kvíða. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna reynslu kvenna með andlega vanlíðan af áhrifum HAM-námskeiða sem haldin eru á heilsugæslunni og kanna hvaða áhrif námskeiðin hafði á líðan þeirra.
Aðferð: Notast var við aðferð Vancouver-skólans í fyrirbærafræði. Þátttakendur voru átta konur valdar með tilgangsúrtaki á tveim heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu og notast við hálfstaðlaðan viðtalsramma. Konurnar voru á aldrinum 26-47 ára og glímdu við andlega vanlíðan og höfðu lokið sex vikna hópnámskeiði í HAM á heilsugæslustöð. Samtals voru tekin átta einstaklingsviðtöl.
Niðurstöður: Yfirþema rannsóknarinnar var: að ná tökum á kvíðanum og láta hann ekki stjórna. Það lýsir reynslu kvenna með andlega vanlíðan af hugrænni atferlishópmeðferð. Alls voru greind fimm meginþemu; að reyna að gera það besta úr sínum aðstæðum; að ná tökum á kvíðanum og láta hann ekki stjórna; að hafa meiri stjórn á huganum og líkamanum; stuðningurinn og eftirfylgnin skiptir öllu máli; bjargráðin að nýta sér alls konar hluti. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa vísbendingu um að upplifun kvenna af gagnsemi námskeiðsins í hugrænni atferlismeðferð sé góð og flestar lýsa jákvæðri upplifun við að ná tökum á kvíðanum og láta hann ekki stjórna sér. Konurnar reyndu að nýta sér það sem þær höfðu lært á HAM-námskeiðunum og áframhaldandi stuðning heilbrigðisstarfsfólks til að bæta líðan sína og aðstæður. Eftir námskeiðin náðu þær margar meiri stjórn á líðan sinni og í kjölfar meðferðar voru þær einnig meðvitaðri um að grípa til eigin bjargráða til að bæta líðan sína og félagsleg virkni þeirra
jókst.
Ályktun: Mikilvægt er að heilsugæslan haldi áfram að bæta og styrkja geðheilsuverndina sem veitt er á heilsugæslustöðvum fyrir konur sem glíma við andlega vanlíðan eða kvíða en hugræn atferlismeðferð virðist vera árangursrík meðferð.
Lykilorð: Hugræn atferlismeðferð (HAM), reynsla, konur, andleg vanlíðan, heilsugæsla.