Hjukrun.is-print-version

Heilsueflandi hjúkrunarmóttaka tekur á sig mynd segir Arna Borg Einarsdóttir, hjúkrunarfræðingur

3. tbl. 2021
Kristín Rósa Ármannsdóttir

- Viðtal við Örnu Borg Einarsdóttur, hjúkrunarfræðing á Heilsugæslunni Seltjarnarnesi og Vesturbæ

,,Það er óásættanlegt að fordómar í samfélaginu komi í veg fyrir að foreldrar þiggi stuðning áður en vandinn fer að hafa neikvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu barnsins. Það þarf vitundarvakningu í samfélaginu til að hægt sé að nálgast sjúkdóminn offitu eins og aðra sjúkdóma.“

Heilsugæslan á að vera fyrsti viðkomustaður fólks sem þarf á heilbrigðisþjónustu að halda. Í þróun eru heilsueflandi móttökur innan heilsugæslunnar sem meðal annars er ætlað að styrkja heilsugæsluna til að sinna heilsueflingu og forvörnum fyrir ákveðna hópa. Leitast verður við að veita einstaklingsmiðaða þjónustu með fjölþættum aðgerðum þar sem markmiðið verður að bæta heilsu og auka lífsgæði.
Arna Borg Einarsdóttir er hjúkrunarfræðingur á Heilsugæslunni Seltjarnarnesi og Vesturbæ. Hún hefur um árabil haldið utan um sykursýkismóttökur á stöðinni en þar er einnig boðið upp á lífsstílsráðgjöf. Arna er einn af stofnendum nýlegrar fagdeildar innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga sem sinnir einstaklingum með sykursýki og er jafnframt í stjórn Félags fagfólks um offitu. Auk þess er Arna í þróunarhóp um heilsueflandi móttöku innan heilsugæslunnar. Við heyrðum í Örnu og fengu hana í viðtal.

Hvernig kom það til að þú fórst að vinna hjá heilsugæslunni?

,,Ég vissi frekar lítið um heilsugæsluna þegar ég útskrifaðist úr hjúkrun fyrir 36 árum síðan og hafði árin eftir útskrift engin áform um að vinna við heilsugæslu, fannst það eiginlega vera fyrir þá sem nenntu ekki að vinna á spítalanum. Það má segja að það hafi verið fyrir hálfgerða tilviljun að ég byrjaði að vinna innan heilsugæslunnar en hér er ég búin að vera í 21 ár. Það var mjög áhugavert og í raun mikill lærdómur fyrir mig að fara úr gjörgæsluumhverfi spítalans inn í umhverfi þar sem unnið er að fyrsta- og annars stigs forvörnum, að reyna að hafa áhrif á að fólk þrói ekki með sér sjúkdóma og kvilla. Sem hjúkrunarfræðingur innan skólaheilsugæslunnar, en ég starfaði lengi á þeim vettvangi, fannst mér mjög áhugavert að vinna að forvörnum og fræðslu. Það er skólaskylda og auðvelt að ná til allra barna Í skólanum með fræðslu sem hæfir aldri og þroska. Fræðsla innan skólaheilsugæslunnar hefur verið í stöðugri þróun og er aðgengileg skólahjúkrunarfræðingum um allt land. Segja má að reynsla mín af skólaheilsugæslunni hafi leitt mig út í meistaranám í lýðheilsufræðum sem ég lauk frá Háskólann í Reykjavík árið 2009. Með því að starfa náið með börnum á öllum aldri, foreldrum og skólasamfélaginu áttar maður sig vel á hvaða áhrifaþættir heilbrigðis skipta mestu máli, ekki síst þegar horft er til framtíðar.“

Arna segir að sem heilbrigðisstarfsmaður innan skólakerfisins hafi bakland hennar alltaf verið heilsugæslan og samstarfsfólkið hennar þar. ,,Eftir að ég færði mig úr skólaheilsugæslunni og kom alveg inn á heilsugæslustöðina varð þróunin sú að ég tók að mér að halda utan um hóp þeirra einstaklinga sem voru greindir með sykursýki. Segja má að sykursýkismóttakan hafi verið með því fyrsta sem heilsugæslan gerði í þessum móttökum en þá var nú frekar langt í hugtakið heilsueflandi móttaka. Vísindalegar rannsóknir höfðu staðfest að ef við héldum vel utan um þennan tiltekna hóp með reglulegum innköllunum og eftirliti þá myndi fólki vegna betur. Þetta er samt frekar flókið þar sem fólk með sykursýki finnur oft ekki mikið fyrir einkennum sem eiga svo jafnvel eftir að ágerast og verða mjög alvarleg. Það hefur verið áskorun að halda fólki við efni en það má segja að galdurinn við heilsueflingu sé að finna áhugahvötina hjá hverjum og einum. Finna út hvort fólk sé tilbúið til að gera breytingar á sínum lífsstíl með það að markmiði að bæta heilsuna, og í framhaldi hvaða breytingar. Þetta er ekki einfalt. Við þekkjum öll hvað það getur verið erfitt að breyta til, jafnvel þó við vitum að það sé bráðnauðsynlegt,“ segir Arna.

Hvernig er heilsugæslan ólík annarri þjónustu innan heilbrigðiskerfisins?

,,Heilsugæslan ætti að vera fyrsti viðkomustaður fólks ef eitthvað bjátar á tengt heilsunni. Minniháttar slys, veikindi og andleg vanlíðan eru dæmi um það. Eins og ég nefndi áður er það einnig hlutverk heilsugæslunnar að sjá um eftirlit og heilsueflingu í grunnskólum, mæðravernd og í ung- og smábarnavernd. Hjúkrunarfræðingar sjá að miklu leyti um þessa þjónustu í góðri samvinnu við annað heilbrigðisstarfsfólk stöðvarinnar. Við erum með öfluga hjúkrunamóttöku, þar sem við tökum á móti fólki sem kemur inn á stöðina með ýmiskonar vandamál, auk þess sem fólk hringir mikið til okkar og leitar ráða. Okkur finnst við vera í góðu sambandi við fólkið á svæðinu, erum aðgengileg og reynum að klára flest erindi innan heilsugæslunnar eða koma þeim í farveg.“

 

Hverjir eru kostirnir við að vera heilsugæsluhjúkrunarfræðingur?

,,Kostirnir eru ótvíræðir. Vinnutíminn er fjölskylduvænn því við vinnum ekki á vöktum, starfið er líka mjög fjölbreytt en það eru þó ekki allir hjúkrunarfræðingar sem vinna á öllum póstum. Ég er til dæmis ekki í ungbarnavernd en ég er aftur á móti í heilsueflingunni, bæði í sykursýkis- og lífsstílsmóttöku, auk þess að sinna hjúkrunarvaktinni. Við erum síðan að byrja að skipuleggja aukna þjónustu við aldraða sem verður hluti af heilsueflandi móttöku. Verkefnin eru fjölbreytt og það er auðvelt að vera sjálfstæður í starfi. Ég er mjög heppin með samstarfsfólk og ég upplifi jafnræði á vinnustaðnum,“ útskýrir hún.

 

Hvernig hefur síðasta ár verið frábrugðið og hvaða lærdóm má draga af því?

,,Þegar ég lít til baka, þetta eina og hálfa ár síðan COVID-19 byrjaði finnst mér langt um liðið síðan við stóðum hér í norðanáttinni fyrir utan heilsugæsluna og tókum sýni hjá fólki í gegnum bílglugga. Þetta var í byrjun faraldursins, áður en við fórum að sinna þessu miðlægt á Suðurlandsbrautinni og síðar í Laugardalshöllinni með bólusetningarnar. Hér innanhúss voru gerðar ráðstafanir sem miðuðu að því að vernda starfsemina. Vinnustaðnum var skipt upp í sóttvarnarhólf og unnið var að heiman. Við héldum uppi ungbarna- og mæðravernd en í rauninni kom nánast enginn inn á stöðina öðruvísi en að tala fyrst við hjúkrunarfræðing. Erindin voru leyst, eins og hægt var, í gegnum símann og þjónusta eins og sykursýkismóttakan með reglubundnu eftirliti varð að bíða.“ Arna segir að þetta hafi verið mjög skrýtinn tími en líka lærdómsríkur. ,,Við lærðum margt af þessari reynslu og munum halda áfram með ýmislegt sem við þurftum að taka upp. Við byrjuðum til dæmis alla daga á að taka stöðuna á stuttum fundi; hver voru nýjustu tilmæli frá sóttvarnaryfrvöldum og hvaða reglur giltu þann daginn. Við höfum haldið í þessa örfundi í byrjun vinnudags og förum yfir stöðuna þó að COVID sé ekki lengur aðalmálið. Það er almenn ánægja með fundina og þeir eru örugglega komnir til að vera. Við lærðum líka hvað teymisvinnan er okkur mikilvæg. Við unnum mikið hvert í sínu horninu á þessum tíma og ég held við séum flest sammála um að við viljum öll meiri teymisvinnu,“ segir hún.

Hvernig er forvörnum sinnt innan heilsugæslunnar?

Strax á meðgöngu fá foreldrar fræðslu og upplýsingar og reynt er að styðja við verðandi foreldra eins og hægt er. Ung- og smábarnaverndin tekur síðan við með áframhaldandi eftirliti og fræðslu. Skólaheilsugæslan tekur við keflinu þegar börnin byrja í grunnskóla. Þar fylgjumst við með vexti og þroska barna; í fyrsta, fjórða, sjöunda og níunda bekk. Hæð, þyngd og sjón er mæld og staðan metin. Haft er samband við foreldra ef barnið beygir upp eða niður af kúrfu og þeim boðinn stuðningur og aðstoð. Þetta getur verið viðkvæmt en það er mikilvægt að ræða við foreldra og bjóða aðstoð. Einnig er fjölbreytt fræðslu- og forvarnarvinna í gangi í skólunum sem tengist meðal annars geðrækt, öryggi og kynþroskanum svo eitthvað sé nefnt. Því miður er þessi fræðsla einungis í boði fyrir nemendur upp í 10. bekk. Að mínu mati er mikil þörf fyrir hjúkrunarfræðinga í framhaldsskólunum, en ég held að það sé eingöngu hjúkrunarfræðingur í tveimur framhaldsskólum í dag. Það er mikið að gerast hjá unglingum á þessum aldri og viðfangsefnin margvísleg; svefn, næring, hreyfing, geðvernd og mál sem tengjast neyslu. Listinn er langur. Allt í einu eru unglingar sem byrja í framhaldsskóla komnir úr skólamötuneytinu og þurfa að passa upp á sig sjálfir, það þykir kannski ekki lengur töff að mæta á æfingar eins og áður og rannsóknir sýna að svefninn er ekki nógu góður hjá þessum aldurshópi. Börn eru börn til 18 ára aldurs og ættu að fá þjónustu frá skólaheilsugæslunni þangað til að mínu mati. Þarna er sóknarfæri.“

Arna segist hafa mikla trú á skólaheilsugæslunni og þeim tækifærum sem þar eru til að hafa heilsueflandi áhrif á skólasamfélagið. ,,Þegar ég var skólahjúkrunarfræðingur í Hagaskóla fyrir nokkrum árum fékk ég einmitt tækifæri til að leiða verkefnið Heilsueflandi grunnskóli sem var á vegum Embættis landlæknis. Hagaskóli er stór unglingaskóli og voru skólastjórnendur spenntir fyrir verkefninu. Við fengum styrk úr Lýðheilsusjóði og ég fékk til liðs við mig íþróttakennara skólans, lífsleiknikennarann, kokkinn og fulltrúa frá nemendum. Í sameiningu lögðum við línurnar og settum markmið um heilsueflingu næstu ára. Þetta var uppbyggileg vinna og það tóku allir þátt. Ég held að þetta verkefni sé ennþá í gangi hjá Embætti landlæknis og hægt er að sækja um að gerast heilsueflandi grunnskóli, framhaldsskóli og jafnvel heilsueflandi samfélag. Markmið verkefnisins er að samfélagið sem um ræðir, hvort sem það er skóli, vinnustaður eða eitthvað annað samfélag, verði að betri og heilsusamlegri vinnustað fyrir alla. Unnið er með eitt þema eða verkefni á ári og yfirleitt er byrjað á næringunni, síðan er hreyfingin í brennidepli og að lokum geðræktin í sinni fjölbreyttu mynd.“ segir Arna.

,,Forvarnarstarf innan heilsugæslustöðvarinnar beinist, eins og fram hefur komið, með skipulögðum hætti að mæðravernd og ungbarnavernd. Forvarnir og fræðsla til skjólstæðinga okkar sem leita á heilsugæsluna með sín vandamál er rauður þráður, hvort sem vandinn er lítill eða stór. Við ræðum um heilsueflandi þætti eins og svefn, næringu og streitu og reynum að vekja löngun og áhuga hjá hverjum og einum til að bera ábyrgð á sjálfum sér og heilsu sinni. Það eru ekki bara við heilbrigðisstarfsmenn sem getum læknað, hjúkrað og lagað eins og margir hafa væntingar um. Við getum gert svo margt sjálf.“

Hvað er heilsueflandi hjúkrunarmóttaka?

,,Lífsstílstengdir sjúkdómar, eins og fullorðinssykursýki og offita eru að aukast. Þjóðin er að eldast og við lifum lengur og oft með fleiri en einn sjúkdóm á efri árum. Heilsugæslan þarf að bregaðst við þessari þróun og hefur þróunarhópur tekið til starfa fyrir heilsueflandi móttöku innan heilsugæslunnar undir forystu Jórlaugar Heimisdóttur hjúkrunarfræðings. Markmiðið með heilsueflandi móttöku er að samræma heildræna, þverfaglega og framvirka heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða einstaklinga með fjölþættan og /eða langvinnan heilsuvanda.“
Arna segir að hægt sé að líta á heilsueflandi móttöku sem regnhlífarhugtak yfir svo margt. ,,Sykursýkismóttakan hefur á mörgum heilsugæslustöðvum fest sig í sessi sem hluti þjónustunnar. Sýnt hefur verið fram á að með innköllun einstaklinga með sykursýki af tegund 2 , fræðslu, ávísun á hreyfingu, stuðningi og hvatningu næst betri árangur. Með þessa vitneskju hafa áhugasamir hjúkrunarfræðingar tekið að sér að þróa verklag með sínu samstarfsfólki, bætt við þekkingu sína og haldið utan um þennan sjúklingahóp. Þessi vinna er í stöðugri þróun og mikilvægt er að unnið verði að því að samræma skipulag og verklag, ekki síst í skráningu þannig að hægt sé að fylgjast með árangri í meðferð við sykursýki. Uppbygging á heilsueflandi móttökum í heilsugæslunni ætti að byggja á reynslu okkar af sykursýkismóttökunni.“
Hún segir að í þeirri vinnu sem nýlega sé farin af stað í þróun á heilsueflandi móttöku verði annars vegar tekið mið af öldruðum og hins vegar einstaklingum með fjölþættan og/eða langvinnan heilsuvanda óháð aldri. ,,Leitast verður við að tryggja heildræna og einstaklingsmiðaða þjónustu með fjölþættum aðgerðum. Það verður spennandi að taka þátt í þeirri vinnu sem er framundan, ekki síst hvernig við nálgumst þessa einstaklinga og skipuleggjum þjónustuna þegar vandinn er fjölþættur. Eins og fram hefur komið hef ég haldið utan um hópinn okkar á heilsugæslunni sem er með sykursýki af tegund 2. En ég hef líka í vaxandi mæli sinnt fólki sem er með offitu og sit í stjórn fagfólks um offitu vegna þess að ég vil að við hlúum betur að þessum hópi. Vandinn er viðkvæmur og úrræðin því miður ekki mörg. Við heilbrigðisstarfsfólk verðum að geta opnað umræðuna við skjólstæðinga okkar og sýnt stuðning ef viðkomandi þiggur aðstoð. Í móttökuna okkar koma einstaklingar, jafnvel viku- eða hálfsmánaðarlega, til að fá stuðning. Mörgum tekst með slíkum stuðningi að ná góðum tökum á sínum sjúkdómi, sérstaklega ef vandinn er ekki orðinn stór. Heilsugæslan er fyrsta stigið í þessari þjónustu en okkur vantar sárlega úrræði að vísa í þegar á þarf að halda. Biðlistinn á Reykjalund er langur og þangað fara eingöngu þeir sem verst eru staddir. Offita hjá börnum er líka heilsufarslegt vandamál sem þarf að sinna betur innan heilsugæslunnar með markvissum stuðningi við barnið og foreldra þess. Það er óásættanlegt að fordómar í samfélaginu komi í veg fyrir að foreldrar þiggi stuðning áður en vandinn fer að hafa neikvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu barnsins. Það þarf vitundarvakningu í samfélaginu til að hægt sé að nálgast sjúkdóminn offitu eins og aðra sjúkdóma.

 

Þarf að koma með tilvísanir í þessar móttökur?

,,Ég fæ flestar tilvísanir í sykursýkismóttökuna og lífsstílsmóttökuna frá læknum stöðvarinnar. Það er oftast búið að vinna upp skjólstæðinginn, taka blóðprufu og taka góða heilsufarssögu. Þar með er viðkomandi kominn á lista í móttökunni hjá okkur. Ég reyni að bjóða fyrsta viðtal innan tveggja til þriggja vikna frá greiningu og eru flestir mjög jákvæðir fyrir því að koma. Við tökum nákvæma fæðissögu og förum yfir hvar væri hægt að gera betur. Sumir fara beint á lyf, á meðan aðrir, vilja láta reyna á að taka lífsstílinn föstum tökum. Eftirlitið í framhaldinu ræðst svolítið af því hvernig gengur í byrjun. Sjúkraþjálfarinn okkar sem sér um hreyfiseðlana hittir einstaklinginn oftast á svipuðum tíma. Þetta er teymisvinna, læknis, hjúkrunarfræðings og sjúkraþjálfara. Við reynum að taka vel utan um skjólstæðinginn og koma hans málum í farveg. Svo er það einstaklingsbundið hvað fólk þarf mikla þjónustu.“

Hvað með heilsueflandi hjúkrunarmóttöku fyrir fólk með andlega veikindi? ,,Í þessu módeli um heilsueflandi móttöku sem við ræddum áðan er ekki talað sérstaklega um einstaklinga með geðraskanir, sem er miður, en vonandi verður það í framtíðinni,“ segir Arna að endingu og við þökkum henni fyrir upplýsandi viðtal.

 

Pistlar og viðtöl

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála