14.
janúar 2014
Fimmtudaginn 10. október sl. fjölgaði um einn doktor í hjúkrunarstétt en þá varði Hrund Scheving Thorsteinsson doktorsritgerð sína „Hjúkrunarfræðingar og gagnreyndir starfshættir: Virkni og spáþættir.“ Í rannsókninni er lýst hversu vel íslenskir hjúkrunarfræðingar eru í stakk búnir til að veita hjúkrun sem byggist á gagnreyndri þekkingu. Niðurstöður sýna að svigrúm er til umbóta hvað varðar gagnreynda starfshætti, og jafnframt að innviði, sem styðja við þá, vanti á vinnustaði hjúkrunarfræðinga. Doktorsnefndin var skipuð Jóni Gunnari Bernburg prófessor og Friðrik H. Jónssyni prófessor. Leiðbeinendur voru Herdís Sveinsdóttir prófessor og Connie Delaney prófessor. Hrund Scheving Thorsteinsson er fædd 1957. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1977, BS-prófi í hjúkrunarfræði frá námsbraut í hjúkrunarfræði HÍ 1982 og MS-prófi frá háskólanum í Wisconsin, Madison, 1990. Hrund hefur starfað á ýmsum deildum Landspítala frá 1982, lengst af við stjórnun. Hún var árum saman í hlutastarfi sem lektor við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Eiginmaður Hrundar er Gunnar Ingimundarson viðskiptafræðingur og eiga þau fjögur börn. |