Samninganefnd Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur frá því í desember 2013 unnið að endurnýjun kjarasamninga fyrir hönd félagsmanna. Viðræður eru hafnar við alla viðsemjendur að undanskildum Reykjalundi. Fíh. hefur lagt fram þær kröfur sem áhersla verður lögð á í þessari samningalotu. Kröfugerðin var unnin í samráði við kjararáð félagsins en í því eiga sæti um 40 hjúkrunarfræðingar víðs vegar að úr heilbrigðiskerfinu. Hlutverk kjararáðs er að vera samninganefnd til ráðgjafar ásamt því að vera tengiliður hennar við aðra félagsmenn. Kjararáð kaus úr sínum hópi 4 einstaklinga til setu í samninganefndinni auk formanns og sviðsstjóra kjara –og réttindasviðs Fíh. Meðlimir samninganefndarinnar verða sérstaklega kynntir á næstu dögum. |
Hugmyndir eru uppi um að gera stuttan, einfaldan kjarasamning, eða aðfararsamning sem spannar eitt ár og tekur einungis til nokkurra þátta. Vinna við gerð hins eiginlega kjarasamnings myndi hefjast strax í kjölfar þess samnings. Allt árið 2014 yrði svo notað til endurskoðunar á öllum kjarasamningum félagsins, gildistími þeirra yrði til a.m.k. tveggja ára. Í þeim samningum yrði farið í heildarendurskoðun á samningnum. Markmiðið með þessari vinnu er að næsti kjarasamningur sé tilbúinn og taki gildi við lok þess stutta.
Frá og með 1. febrúar eru hjúkrunarfræðingar líkt og aðrir opinberir starfsmenn, með lausa kjarasamninga, en núverandi kjarasamningar Fíh runnu út þann 31. janúar. Það er markmið okkar að tryggja að nýr samningur líti dagsins ljós sem allra fyrst. Atburðir síðustu vikna á almenna vinnumarkaðnum setur þó strik í reikninginn og mun tefja samningsviðræður hins opinbera að einhverju leiti. Þar sem hið opinbera telur einungis um 12% af vinnumarkaði munu þeir ekki vera leiðandi í launasetningu frekar en áður.
Samninganefnd félagsins hvetur hjúkrunarfræðinga til að fylgjast með umræðunni um kjarasamninga. Gott er að heyra frá félagsmönnum hvað á þeim brennur og er hægt að senda inn hvatningarorð, fyrirspurnir og tillögur til formanns félagsins á netfangið olafur@hjukrun.is eða á sviðstjóra kjara –og réttindasviðs á netfangið cissy@hjukrun.is