5.
febrúar 2014
Þann 3. Febrúar s.l. dæmdi Félagsdómur Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) í vil, fyrir hönd hjúkrunarfræðings á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, gegn íslenska ríkinu vegna Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSu).
Dómkröfur stefnanda (Fíh) voru þær að viðurkennt yrði fyrir dómi að stefndi (HSu) hefði brotið gegn gr. 3.4.3 í kjarasamningi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, með því að hafa ekki greitt hjúkrunarfræðingi hjá stefnda fæðispeninga þegar hún var á vakt en matstofa vinnustaðar var ekki opin, frá og með 1. mars 2012.
gr. 3.4.3 - nýtt frá 1. mars 2012:
„Starfsmaður á vakt þegar matstofa vinnustaðar er ekki opin skal fá það bætt með fæðispeningum sem nema 380 kr. enda sé vinnuskylda starfsmanns a.m.k. 1 klst. fyrir og 1 klst. eftir umsamda matartíma á viðkomandi vakt sbr. tímasetningar matartíma í gr. 3.2.1"
Það er mat dómsins að þeirri aðstöðu sem lýst var og stefnanda stendur til boða fullnægi ekki því að geta talist vera matstofa. Verður því að líta svo á að matstofa sé ekki opin þegar stefnandi er við störf á kvöld- og næturvöktum.
Dómurinn viðurkennir að Heilbrigðisstofnun Suðurlands, hafi brotið gegn gr. 3.4.3 í kjarasamningi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og fjármálaráðherra f.h. ríkisins, með því að greiða ekki viðkomandi hjúkrunarfræðingi á HSu fæðispeninga þegar hún var á vakt og matstofa vinnustaðar ekki opin, frá og með 1. Mars 2012.
Auk þess var íslenska ríkinu var gert að greiða Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, kr. 250.000 í málskostnað.