Hjukrun.is-print-version

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga vinnur mál fyrir félagsdómi gegn íslenska ríkinu

RSSfréttir
5. febrúar 2014

Þann 3. Febrúar s.l. dæmdi Félagsdómur Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) í vil, fyrir hönd hjúkrunarfræðings á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, gegn íslenska ríkinu vegna Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSu).

Dómkröfur stefnanda (Fíh) voru þær að viðurkennt yrði fyrir dómi að stefndi (HSu) hefði brotið gegn gr. 3.4.3 í kjarasamningi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, með því að hafa ekki greitt hjúkrunarfræðingi hjá stefnda fæðispeninga þegar hún var á vakt en matstofa vinnustaðar var ekki opin, frá og með 1. mars 2012.

gr. 3.4.3 - nýtt frá 1. mars 2012:
„Starfsmaður á vakt þegar matstofa vinnustaðar er ekki opin skal fá það bætt með fæðispeningum sem nema 380 kr. enda sé vinnuskylda starfsmanns a.m.k. 1 klst. fyrir og 1 klst. eftir umsamda matartíma á viðkomandi vakt sbr. tímasetningar matartíma í gr. 3.2.1"

Framkvæmdin hjá HSu var þannig að starfsmönnum gafst kostur á að panta mat fyrir kvöld -eða næturvakt á innra neti stofnunarinnar en pöntun þurfti að berast fyrir kl. 13:00. Matarbakkinn fór upp á deild viðkomandi starfsmanns með kvöldmatnum fyrir deildina. Á öllum deildum er hægt að hita matinn upp og aðstaða til að setjast niður og borða, eins er matstofan/matsalurinn alltaf opin og hægt að matast þar ef fólk vill, en þar er ekki hægt að nálgast leirtau eða hnífapör.

Það er mat dómsins að þeirri aðstöðu sem lýst var og stefnanda stendur til boða fullnægi ekki því að geta talist vera matstofa. Verður því að líta svo á að matstofa sé ekki opin þegar stefnandi er við störf á kvöld- og næturvöktum.

Dómurinn viðurkennir að Heilbrigðisstofnun Suðurlands, hafi brotið gegn gr. 3.4.3 í kjarasamningi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og fjármálaráðherra f.h. ríkisins, með því að greiða ekki viðkomandi hjúkrunarfræðingi á HSu fæðispeninga þegar hún var á vakt og matstofa vinnustaðar ekki opin, frá og með 1. Mars 2012.

Auk þess var íslenska ríkinu var gert að greiða Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, kr. 250.000 í málskostnað.
Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála