Erla Kolbrún Svavarsdóttir er heiðursvísindamaður Landspítala árið 2014. Erla Kolbrún er prófessor við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og formaður fagráðs í fjölskylduhjúkrun við Landspítala, en hún hlaut viðurkenninguna á Vísindum á vordögum síðastliðinn miðvikudag.
Árið 1987 lauk Erla Kolbrún BSc gráðu í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands 1987, og hélt utan í framhaldsnám í Wisconsin í Bandaríkjunum eftir fjögurra ára störf við Landspítalann. 1993 útskrifaðist Erla Kolbrún með MSc gráðu frá Háskólanum í Wisconsin í Madison og lauk doktorsprófi þaðan árið 1997, en ritgerð hennar bar titilinn: „Family Adaptation for Families of an Infant or a Young Child with Asthma“. Sama ár var hún ráðin við námsbraut í hjúkrunarfræði Háskóla Íslands og hefur verið prófessor við Háskóla Íslands síðan 2006. Auk þess hefur hún verið formaður fagráðs í fjölskylduhjúkrun á Landspítala síðan 2008. |
Helstu áherslur í rannsóknum Erlu Kolbrúnar hafa snúið að fjölskyldurannsóknum, og þá sérstaklega að fjölskyldumeðlimum sem fást við langvinna sjúkdóma. Um þessar mundir vinnur Erla Kolbrún með rannsóknarhópi í Kanada að innleiðingu fjölskyldumiðaðrar heilbrigðisþjónustu á háskólasjúkrahúsi í Montreal. Hér á landi snýst starf hennar og samstarfsmanna að þróun stuttra meðferðarsamræðna og fjölskylduhjúkrunarmeðferða í tengslum við innleiðingu fjölskylduhjúkrunar á Landspítala, sem og að þróun þriggja mælitækja sem mæla upplifaðan stuðning, fjölskylduvirkni og viðhorf fjölskyldumeðlima til sjúkdóma.
Erla Kolbrún hefur einnig unnið að rannsóknum um ofbeldi í nánum samböndum, þar sem hún hefur ásamt samstarfsaðilum kannað áhrif slíks ofbeldis á líkamlega og andlega heilsu kvenna og þróun einkenna áfallastreituröskunar.
Erla Kolbrún og samstarfsmenn hennar hafa þegar hlotið viðurkenningu vegna vinnu sinnar, en rannsóknir þeirra hafa þrívegis verið valdar sem áhugaverðar á alþjóðavísu af ritstjórum tímaritanna Journal of Family Nursing og af ritstjóra tímaritsins Journal of Advanced Nursing.
Ritrýndar tímaritsgreinar og bókarkaflar Erlu Kolbrúnar eru yfir 60 og ágrip nokkur hundruð, auk þess sem hún er ritstjóri tveggja fræðibóka.