Hjukrun.is-print-version

14 hjúkrunarfræðingar látnir

RSSfréttir
15. ágúst 2014

Yfir 80 heilbrigðisstarfsmenn, þar af að minnsta kosti 14 hjúkrunarfræðingar, hafa látist í ebólufaraldrinum sem nú stendur yfir í Vestur-Afríku. Samkvæmt nýjustu tölum hafa samtals 1975 manns smitast og 1069 látist.

Faraldurinn er sá versti síðan veiran fannst fyrst 1976. Hann byrjaði í Gíneu í desember sl. en hefur nú breiðst til Líberíu, Sierra Leone og Nígeríu. Magna Björk Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur og Elín Jónasdóttir sálfræðingur fóru nýlega til Síerra Leone á vegum Alþjóðaráðs Rauða krossins. Aðalverkefni þeirra er að fræða almenning um smitleiðir ebólu og leiðir til að koma í veg fyrir smit. Vanþekking og vantraust á heilbrigðisstarfsmönnum er stór ástæða þess að veiran hefur breiðst út eins og raun ber vitni. Gunnhildur Árnadóttir hjúkrunarfræðingur er nýkomin heim frá Síerra Leóne þar sem hún gegndi yfirmannsstöðu á meðhöndlunarmiðstöð á vegum Lækna án landamæra.

Alþjóðasamfélagið er nú farið að átta sig á alvarleika málsins og lýsti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin 8. ágúst sl. yfir alþjóðlegu neyðarástandi. Í því felst að öll aðildarríki þurfa að bregðast við með ákveðnum hætti. Embætti landlæknis hefur birt frétt um ebólu og einnig gefið út leiðbeiningar til ferðamanna.

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála