Æ algengara er að ráðist sé á sjúkrahús, sjúkrabíla og heilbrigðisstarfsfólk í þeim stríðsátökum sem nú eru í heiminum, til dæmis í Sýrlandi, Írak, Gaza-svæðinu og Súdan. Einnig virðist sem virðing fyrir þeim sem sinna mannúðarstörfum sé almennt minnkandi. Í Pakistan og Nígeriu hefur nýlega verið ráðist á heilbrigðisstarfsfólk sem sinnir bólusetningum.
Í dag, 19. ágúst, er alþjóðlegi mannúðardagurinn og hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin af þessu tilefni sent út tilkynningu þar sem bent er á mikilvægi þess að vernda þá sem sinna slösuðum og veikum við erfiðar aðstæður. Árásir á heilbrigðisstofnanir og heilbrigðisstarfsfólk dregur úr aðgangi að heilbrigðisþjónustu, kemur í veg fyrir forvarnarstarf og getur leitt til útbreiðslu smitsjúkdóma.
Fjallað verður um þetta vandamál í næsta tölublaði Tímarits hjúkrunarfræðinga sem kemur út um miðjan október.