Hjukrun.is-print-version

Doktorsvörn í hjúkrunarfræði

RSSfréttir
27. ágúst 2014

 

Jóhanna Bernharðsdóttir ver doktorsritgerð sína í hjúkrunarfræði föstudaginn 29. ágúst kl. 13.00, Aðalbyggingu HÍ

 

Ritgerðin ber heitið: „Þróun og mat á stuttri hugrænni atferlismeðferð í hópum til að draga úr sálrænni vanlíðan meðal íslenskra kvenstúdenta. Development and evaluation of a brief cognitive-behavioral group therapy program for reducing psychological distress in Icelandic female university students.“
Andmælendur eru dr. Ann Peden prófessor við Capital University, Colombus, Ohio og dr. Eiríkur Örn Arnarsson prófessor við Læknadeild, Háskóla Íslands.
Leiðbeinendur í verkefninu voru dr. Rúnar Vilhjálmsson, prófessor við Hjúkrunarfræðideild, Háskóla Íslands og dr. Jane Dimmit Champion, prófessor við Háskólann í Texas.

Dr. Helga Jónsdóttir, forseti Hjúkrunarfræðideildar, stjórnar athöfninni.


Ágrip

Erlendar rannsóknir sýna að sálræn vanlíðan í formi þunglyndis og/eða kvíða er algeng meðal kvenstúdenta. Tilgangur þessa doktorsverkefnis er að kanna tíðni sálrænnar vanlíðunar meðal íslenskra kvenstúdenta, þörf þeirra fyrir þjónustu og að meta árangur af hópmeðferð sem veitt er af sérfræðingum í geðhjúkrun og byggir á hugrænni atferlismeðferð. Doktorsverkefnið byggir á þremur rannsóknum, þversniðskönnun, meðferðarrannsókn með hálf-tilraunasniði og lýsandi eigindlegri rannsókn

Niðurstöður sýndu að 22,5% kvenstúdentanna glímdu við þunglyndiseinkenni og 21,2% við kvíðaeinkenni. Aðeins 26-29% þeirra sem fundu fyrir aukinni sálrænni vanlíðan fengu faglega aðstoð. Niðurstöður í meðferðarrannsókninni sýndu marktæka fækkun á þunglyndis- og kvíðaeinkennum hjá meðferðarhópi borið saman við samanburðarhópinn. Í eigindlegu rannsókninni, sem byggði á hálf-stöðluðum viðtölum við kvenstúdentana, komu fram fjögur þemu: ,,Að öðlast þekkingu og skilning”, ,,Aukin jákvæðni og jafnvægi í hugsun”, ,,Efling sjálfsöryggis og mats á eigin færni”, ,,Þörf fyrir æfingu og ígrundun”.

Háskólasamfélagið þarf að vera meðvitað um sálræna líðan námsmanna og áhrif á heilsu og árangur í námi. Niðurstöður sýndu að stutt hugræn atferlismeðferð sem veitt er í hópum getur dregið úr vanlíðaninni. Slík meðferð ætti að standa íslenskum námsmönnum til boða í náinni framtíð.

Í doktorsnefnd sátu: Dr. Rúnar Vilhjálmsson, prófessor við Hjúkrunarfræðideild H.Í., dr. Jane Dimmit Champion, professor við University of Texas at Austin, dr. Ingela Skärsäter, professor við Halmstad University og Sahlgrenska Academy, Gautaborgarháskóla og dr. Marga Thome Prófessor emerita, Hjúkrunarfræðideild H.Í.

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála