Nýtt tölublað Tímarits hjúkrunarfræðinga er nú komið á vefinn og verður prentútgáfan borin út eftir viku. Í því má lesa um heilsufarslegar afleiðingar ofbeldis en einnig um úrræði bæði fyrir gerendur og þolendur. Sérstaklega áhugavert er námskeiðið Gæfusporin fyrir þolendur en það hefur nú verið haldið í nokkur ár og árangurinn er eftirtektarverður. Árangurinn af Karlar til ábyrgðar, meðferðarúrræði fyrir gerendur, er sömuleiðis mjög góður.
Í fræðigrein um afleiðingar ofbeldis í æsku segja nokkrar konur frá og er það á köflum átakanlegur lestur. Ítarleg fræðslugrein tekur svo saman hvað hefur komið fram í rannsóknum undanfarin ár og niðurstaðan er skýr: Ofbeldi er kostnaðarsamt fyrir einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið allt.