Hjukrun.is-print-version

Doktorsvörn í hjúkrunarfræði

RSSfréttir
21. október 2014

Sigríður Zoëga ver doktorsritgerð sína í hjúkrunarfræði föstudaginn 7. nóvember kl. 13:00 í Hátíðasal Háskóla Íslands




Ritgerðin ber heitiðGæða verkjameðferð á sjúkrahúsi - Quality Pain Management in the Hospital Setting

Andmælendur eru dr. Gwen Sherwood, prófessor við Chapel Hill School of Nursing - University of North Carolina, og dr. Tómas Guðbjartsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands.

Leiðbeinandi var dr. Sigríður Gunnarsdóttir, dósent við Hjúkrunarfræðideild HÍ og umsjónarkennari var dr. Herdís Sveinsdóttir, prófessor við sömu deild. Dr. Helga Jónsdóttir, prófessor og forseti Hjúkrunarfræðideildar, stjórnar athöfninni.    
                   







Ágrip
Verkir eru algengir á sjúkrahúsum og ófullnægjandi verkjameðferð hefur neikvæð áhrif á líðan og bata sjúklinga. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða, skilgreina og meta gæði verkjameðferðar á sjúkrahúsum.

Verkefnið byggir á þremur rannsóknum. Í þeirri fyrstu var hugtakagreining notuð til að skilgreina hugtakið gæða verkjameðferð. Í annarri rannsókninni voru próffræðilegir eiginleikar endurskoðaðs spurningalista bandaríska verkjafræðafélagsins (APS-POQ-R) kannaðir. Í þeirri þriðju, sem var með stundaralgengissniði, var annars vegar innihald verkjameðferðar og hins vegar árangur verkjameðferðar metinn hjá sjúklingum á 23 legudeildum Landspítala.

Gæða verkjameðferð byggir á stofnanatengdum þáttum, meðferðarferlinu og árangri meðferðar hjá sjúklingum. Gæða verkjameðferð tekur mið af óskum og þörfum sjúklinga, er örugg, skilvirk, árangursrík, veitt á réttum tíma og byggir á jafnræði. Íslensk útgáfa APS-POQ-R reyndist áreiðanleg og réttmæt til að meta árangur verkjameðferðar á íslenskum sjúkrahúsum. Tíðni verkja reyndist 83% og 35% sjúklinga hafði upplifað mikla verki undanfarinn sólarhring þegar spurt var. Verkjameðferðin var að mörgu leyti í samræmi við leiðbeiningar um meðferð verkja. Þó fengu margir sjúklingar ekki verkjalyf í samræmi við styrk verkja og skráningu og mati verkja var ábótavant. Ánægja sjúklinga og þátttaka í ákvarðanatöku tengdust betri árangri meðferðar.

Virkja þarf þátttöku sjúklinga í ákvarðanatöku, meta verki markvisst með kvörðum og nýta þau meðferðarúrræði sem eru til staðar til að bæta gæði verkjameðferðar á sjúkrahúsum.

Rannsóknin var styrkt af Rannsóknasjóði Rannís, B-hluta vísindasjóðs Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og Vísindasjóði Landspítala.

Um doktorsefnið
Sigríður Zoëga er fædd árið 1973 og lauk BS prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 2002, viðbótardiplóma í krabbameinshjúkrun árið 2006 og MS prófi í hjúkrunarfræði frá sama skóla tveimur árum síðar. Sigríður, sem hóf doktorsnám við HÍ árið 2011, hefur starfað sem sérfræðingur í hjúkrun á Landspítala og sem stundakennari við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Hún er gift Sigurði Eyþórssyni.

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála