Hjúkrunarráð Landspítala ályktar um stöðu hjúkrunar á Landspítala
Hjúkrunarráð hefur ítrekað bent á að álag á hjúkrunarfræðinga spítalans er viðvarandi of mikið og mönnun víða ekki í takt við fjölda sjúklinga og mælingar á hjúkrunarþyngd.
Sérhæfing innan hjúkrunar hefur aukist með flóknari meðferðum og veikari sjúklingum. Með auknu álagi og skorti á hjúkrunarfræðingum kreppir að þróun fagmennsku og þekkingar í starfi sem skilar sér í minni starfsánægju og verri þjónustu. Fyrirsjáanlegur skortur á hjúkrunarfræðingum er áhyggjuefni en vaxandi landflótti hjúkrunarfræðinga og ónóg nýliðun stéttarinnar er staðreynd, sem verður að bregðast við.
Hjúkrunarráð tekur undir nýlegar ábendingar Embættis landlæknis að gera þurfi starfsgreiningu á störfum hjúkrunarfræðinga og annarra starfstétta og manna í samræmi við það.
Fjársvelti Landspítalans er ekki á ábyrgð heilbrigðisstarfsmanna og ótækt að gera kröfur um að þeir tryggi örugga þjónustu við ófullnægjandi aðstæður.
Hjúkrunarráð skorar á stjórnvöld að auka fjárveitingar til að bæta kjör og starfsaðstæður hjúkrunarfræðinga og tryggja þannig betri og öruggari þjónustu til framtíðar.
F.h. hjúkrunarráðs Landspítala
Guðný Friðriksdóttir formaður hjúkrunarráðs