Hjukrun.is-print-version

Fagmönnun framtíðar

RSSfréttir
30. október 2014
Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, talaði á málþingi Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu síðastliðinn þriðjudag. Málþingið bar yfirskriftina:

Fagmönnun framtíðar – Hverjir munu vinna á heilbrigðisstöfnunum framtíðarinnar?

Í ávarpi Ólafs kom meðal annars fram að starfandi hjúkrunarfræðingar í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga eru 2.885 talsins, þar af eru 1.400 á Landspítala. Um 95% allra hjúkrunarfræðinga eru í félaginu.

Á næstu þremur árum geta 900 hjúkrunarfræðingar farið á eftirlaun en það er um þriðjungur starfandi hjúkrunarfræðinga. Samkvæmt mannaflaspá sem gerð var árið 2007 útskrifast 145 hjúkrunarfræðingar á ári sameiginlega bæði úr Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri. Það gerir um 435 hjúkrunarfræðinga á þessum þremur árum. Augljóst er því að ekki mun nást að fylla skó þess fjölda sem má fara á eftirlaun.

Ljóst er að gera verður átak í því að fá ungt fólk til þess að hefja nám í hjúkrunarfræði, síðastliðið ár útskrifuðust einungis 134 hjúkrunarfræðingar. Ofannefndar tölur eru sláandi en staðan er verri en þær segja til um því þar teljast ekki þeir hjúkrunarfræðingar sem hætta í hjúkrun, flytja erlendis eða velja sér annað nám.

Mikil aukning hefur orðið á að hjúkrunarfræðingar sæki um hjúkrunarleyfi í Noregi og Svíþjóð. Sem dæmi má nefna að árið 2011 sóttu hátt í þrjú hundruð íslenskir hjúkrunarfræðingar um hjúkrunarleyfi í Noregi, en það eru um 10% starfandi hjúkrunarfræðinga. Sífellt fleiri hjúkrunarfræðingar taka vinnuskorpur erlendis og jafnvel minnka vinnuhlutfall á Íslandi í staðinn. Auk þess virðist sem að aukinn fjöldi flytji erlendis, þar sem hærri laun að fá og betri starfsaðstæður.

Ólafur nefndi einnig að nema megi aukningu á því að hjúkrunarfræðingar séu að sækja í önnur störf en hjúkrun því þeir telji hjúkrunarstarfið ekki samkeppnishæft hvað varðar laun, vinnuaðstæður og álag.

Nýútskrifaður hjúkrunarfræðingur hjá hinu opinbera er með 297.634 krónur í byrjunarlaun eftir fjögurra ára háskólanám og er launamunur viðskiptafræðinga og hjúkrunarfræðinga hjá hinu opinbera 18%. Fátt skýrir þennan launamun annað en að hjúkrunarfræði er hefðbundin kvennastétt.

Þó er ekki lengur hægt að ganga að því vísu að konur sæki í störf hjúkrunarfræðinga. Aðsókn kvenna í nám á borð við tölvunarfræði, verkfræði og læknisfræði hefur aukist til muna, en karlmönnum í hefðbundnum kvennastörfum fjölgar hægt hér á landi. Athyglisvert er að erlendis er algengt að karlkyns hjúkrunarfræðingar eru á bilinu 8 til 25 prósent en hér á landi eru þeir hins vegar 2%.

Ljóst er að aðgerða er þörf til að sporna við þessari alvarlegu þróun.

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála