17.
nóvember 2014
Alþjóðaráð hjúkrunarfræðinga sendi frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:
Alþjóðaráð hjúkrunarfræðinga (ICN) biðlar til allra yfirvalda að veita hjúkrunarfræðingum öruggt vinnuumhverfi á ebóluherjuðum svæðum.
14. nóvember 2014: ICN er mjög umhugað um að yfirvöld veiti hjúkrunarfræðingum er starfa á ebóluherjuðum svæðum öruggt vinnuumhverfi og biðla því til yfirvalda.
Í kjölfar fundar ICN 4.-6. nóvember 2014 vakti stjórn ICN athygli á alvarlegri heilsufarshættu, brýnni nauðsyn á að styrkja öryggisreglur og mikilvægi þess að veita fullnægjandi þjálfun og búnað. Auk þess lagði stjórnin áherslu á mikilvægi þess að hjúkrunarfræðingar séu hafðir með í ráðum í stefnumótun á öllum sviðum.
Paul Pace, stjórnarmaður í ICN, segir: „Stjórnmálamenn og alþjóðastofnanir hafa meiri áhuga á pólitískum framgangi og að róa almenning en að tryggja hag þeirra hjúkrunarfræðinga sem standa í fremstu víglínu og sinna ebólusjúklingum.“
Í nær öllum löndum er þjónusta hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra 80% af allri heilbrigðisþjónustu sem veitt er. Það leiðir til þess að hjúkrunarfræðingar eru í mestri hættu á ebólusmiti þegar kemur að aðhlynningu sjúklinga. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) höfðu 564 smit heilbrigðisstarfsmanna af ebólu verið skráð 10. nóvember 2014. Af þeim voru 320 látnir.
Stjórn ICN lýsir yfir samstöðu og stuðningi við alla hjúkrunarfræðinga sem veita heilbrigðisþjónustu nú þegar lýðheilsu er ógnað sökum ebóluveiru.
ICN vekur sérstaka athygli á mikilvægi þess að styðja fjölskyldur heilbrigðisstarfsmanna sem misst hafa ástvini sína. Ósérhlífnin í að veita aðhlynningu hefur skilið eftir aðstandendur og börn án öruggs framtíðarfjárhags.