Hjukrun.is-print-version

Starfsmenntunarsjóður úthlutar 15 milljónum

RSSfréttir
10. desember2014

Stjórn starfsmenntunarsjóðs kom saman 10. desember og úthlutaði styrkjum, samanlagt að upphæð 15 milljónum króna. Einnig voru teknar nokkrar mikilvægar ákvarðanir sem sjóðsfélagar geta kynnt sér á vefsíðu sjóðsins.

Stjórnin ræddi fjárhagsstöðu sjóðsins og ákvað í framhaldinu að hætta að styrkja kynnisferðir til útlanda. Ákvörðunin tekur gildi þann 11. desember 2014. Sjóðurinn hefur verið rekinn með tapi í nokkur ár til þess að eyða uppsöfnuðu fé en nú er það að verða uppurið og nauðsynlegt er að gera breytingar á úthlutunarreglum. Umsóknum um kynnisferðir hefur fjölgað gífurlega síðan 2011 og sjóðurinn stendur því ekki lengur undir slíkum fjölda. Almennar umsóknir eru einnig talsvert fleiri nú en áður. Fleiri sækja um um styrk vegna háskólagjalds en áður. 

"Kynnisferðir geta verið mjög fróðlegar en þær eru dýrar," segir Christer Magnusson, formaður stjórnar starfsmenntunarsjóðs. "Þegar við þurfum að velja milli þess að styrkja fjögurra klukkustunda heimsókn eða meistaranám í heilan vetur um 50.000 kr. þá er valið auðvelt. Við hefðum getað búið til flókið matskerfi til þess að ákveða hvaða kynnisferðir okkur hugnast en best er að forðast matskenndar ákvarðanir og þess vegna ákváðum við að styrkja engar erlendar kynnisferðir."

Stjórnin ákvað einnig að setja skýrari reglur varðandi akstursstyrk. Umsækjandinn þarf ekki lengur sjálfur að reikna út styrkupphæðina heldur einungis að skila einni eldsneytisnótu. Styrkurinn byggist á vegalengd að heiman og til námskeiðsstaðar í öðru bæjarfélagi. Ekki er greitt fyrir innanbæjarakstur og ekki fyrir viðhald, slit og þess háttar eins og gert er þegar menn nota bíl að staðaldri í vinnu.

Á síðu starfsmenntnarsjóðs er nánari upplýsingar að finna: 

Starfsmenntunarsjóður og úthlutunarreglur

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála