Hjukrun.is-print-version

Doktorsvörn í hjúkrunarfræði

RSSfréttir
12. desember2014

Þorbjörg Jónsdóttir mun verja doktorsritgerð sína í hjúkrunarfræði þriðjudaginn 16. desember næstkomandi. Athöfnin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl.13.00. 

Ritgerðin ber heitið: Langvinnir verkir, heilsutengd lífsgæði, notkun á heilbrigðisþjónustu og samskipti við heilbrigðisstarfsmenn vegna langvinnra verkja meðal íslensks almennings - Chronic Pain, Health-Related Quality of Life, Chronic Pain-Related Health Care Utilization and Patient-Provider Communication in the Icelandic Population.

Andmælendur eru dr. Tone Rustøen, prófessor við Háskólann í Ósló, og dr. Stefán Hrafn Jónsson, dósent við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands.

Sameiginlegir leiðbeinendur og umsjónarkennarar í verkefninu voru dr. Sigríður Gunnarsdóttir, dósent við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri hjúkrunar á LSH, og dr. Helga Jónsdóttir, deildarforseti Hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands.


Auk þeirra sátu í doktorsnefnd dr. Eiríkur Líndal, sálfræðingur og sérfræðingur í klínískri sálfræði, dr. Thor Aspelund, dósent í lýðheilsufræðum við Háskóla Íslands, og dr. Harald Breivik, prófessor í svæfingalækningum við Háskólann í Ósló.

Dr. Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs, stjórnar athöfninni.


Ágrip
Tilgangur rannsóknarinnar var að lýsa eðli langvinnra verkja meðal almennings á Íslandi ásamt tengslum þeirra við notkun á heilbrigðisþjónustu og mat á samskiptum við heilbrigðisstarfsmenn.

Doktorsverkefnið byggir á tveimur rannsóknum. Í þeirri fyrri voru próffræðilegir eiginleikar íslenskrar þýðingar mælitækisins Patients’ Perceived Involvement in Care Scale (I-PICS) metnir, en I-PICS mælir mat einstaklinga á samskiptum við heilbrigðisstarfsmenn.
Seinni rannsóknin, sem var þverskurðarrannsókn á landsvísu, fjallaði um áhrif langvinnra verkja á daglegt líf og heilsutengd lífsgæði. Einnig var skoðað hvaða þættir hafa forspárgildi um það hvort einstaklingar með langvinna verki nýta sér heilbrigðisþjónustu vegna þeirra. Jafnframt var mat einstaklinga á samskiptum við heilbrigðisstarfsmenn og tengsl þess við lýðfræðilega og verkjatengda þætti skoðuð.

Niðurstöður sýna að mynstur og styrkur langvinnra verkja ráða mestu um hversu mikil áhrif þeir hafa á daglegt líf og heilsutengd lífsgæði. Mynstur verkja ásamt neikvæðum áhrifum þeirra á daglegt líf og lífsgæði hafa mest forspárgildi um hvort einstaklingurinn nýti sér heilbrigðisþjónustu vegna þeirra.

Mikilvægt er að hvetja fólk með langvinna verki til að nýta sér heilbrigðisþjónustu áður en þeir valda meiri háttar truflun á daglegu lífi og lífsgæðaskerðingu. Við mat á langvinnum verkjum er mikilvægt að einblína ekki eingöngu á verkina sjálfa, heldur þarf einnig að meta áhrif þeirra á daglegt líf og viðhorf einstaklinga til verkja.
Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála