Þann 20. janúar síðastliðinn ályktaði hjúkrunarráð Landspítala eftirfarandi:
Ályktun hjúkrunarráðs Landspítala um yfirlýsingu um betra heilbrigðiskerfi
“Yfirlýsingin yfir markmið sem aðilar eru sammála um að vinna að”
Hjúkrunarráð Landspítalans tekur undir orð Ólafs G. Skúlasonar, formanns Fíh í grein sinni í Fréttablaðinu þann 20. janúar sl. Þar fagnar hann undirritun yfirlýsingar forsætisráðherra, fjármálaráðherra, heilbrigðisráðherra og formanna læknafélaganna tveggja þess efnis að auka gæði heilbrigðisþjónustu og bæta aðstæður heilbrigðisstarfsmanna.
Eins og fram kemur í fréttatilkynningu RÚV 8. janúar sl. er yfirlýsingin í átta liðum og tekur meðal annars til mönnunar, aukins fjármagns, aukinna gæða þjónustu, byggingu nýs spítala og endurnýjunar tækja. Auk þess er boðuð heildstæð skoðun á skipulagi, uppbyggingu og fjármögnun heilbrigðiskerfisins. Ólafur bendir réttilega á að endurskilgreining á hlutverkum heilbrigðisstétta eigi að vera hluti af þeirri stefnumótun sem um ræðir. Á síðasta ári lagði Embætti landlæknis til í úttekt sinni á lyflækningasviði Landspítala að gera þurfi greiningu á störfum heilbrigðisstétta og að mönnun sé í samræmi við það. Hjúkrunarráð Landspítalans hefur áður ályktað um mikilvægi þess að gera það hið fyrsta.
Hjúkrunarráð vekur athygli á mikilvægi og ekki síður gagnsemi samvinnu stjórnvalda við allar heilbrigðisstéttir þegar kemur að stefnumótun innan heilbrigðiskerfisins og hvetur stjórnvöld til að nýta sér krafta, þekkingu og reynslu innan hjúkrunarfræðistéttarinnar. Styrkur Landspítalans byggir á mannauði hans.
Með kveðju,
_________________________________
Guðríður Kristín Þórðardóttir
Formaður hjúkrunarráðs Landspítalans