Cecilie B.H. Björgvinsdóttir, sviðstjóri kjara- og réttindasviðs Fíh hefur sagt starfi sínu lausu. Hún mun taka við stöðu mannauðsstjóra á Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU). Cecilie hefur starfað af miklum heilindum fyrir hjúkrunarfræðinga á áttunda ár og þökkum við henni vel unnin störf í þágu hjúkrunarfræðinga og óskum henni velfarnaðar í nýju starfi. Cecilie mun láta af störfum þann 28. febrúar.
Í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru í samningsumhverfi á vinnumarkaði og þess að samningaviðræður eru þegar hafnar hefur framkvæmdaráð í samráði við stjórn Fíh ákveðið að skipa Gunnar Helgason, gjaldkera stjórnar, í stöðu sviðstjóra kjara- og réttindasviðs til 1. september. Gunnar hefur margra ára reynslu af setu í stjórn Fíh auk þess sem hann hefur átt sæti í samninganefnd félagsins s.l. ár. Hann hefur því víðtæka þekkingu á kjaramálum, samningsgerð, réttindum og skyldum hjúkrunarfræðinga, tölulegri úrvinnslu auk þess sem hann hefur mikla reynslu af verkefnastjórnun á LSH. Eins hefur Gunnar unnið að ýmsum verkefnum fyrir félagið. Gunnar hefur lokið meistaraprófi í hjúkrun frá Háskóla Íslands.
Skipun Gunnars í starfið er til 1. september 2015 en staðan verður auglýst til umsóknar þegar kjarasamningagerð við alla viðsemjendur Fíh er lokið. Dragist samningar á langinn áskilur framkvæmdaráð sér rétt til að framlengja ráðningu hans þar til kjarasamningagerð er lokið.
Gunnar mun fara í leyfi frá stjórn félagsins á meðan hann gegnir starfi sviðstjóra. Hann mun einnig fá leyfi sem gjaldkeri stjórnar og þar af leiðandi ganga úr framkvæmdarráði félagsins tímabundið. Stjórn mun á næsta fundi sínum kjósa nýjan gjaldkera til afleysinga.
Við bjóðum Gunnar velkomin til starfa.
Með vinsemd og virðingu,
Ólafur G. Skúlason, formaður Fíh