22.
apríl 2015
Þann 1. apríl 2015 vísaði samninganefnd Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) viðræðum sínum við fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs til Ríkissáttasemjara. Ákvörðunin var tekin í ljósi þess að of mikið bar á milli samningsaðila. Hvorki viðbrögð né svör bárust frá ríkinu varðandi þær kröfur sem Fíh hafði lagt fram.
Nú hefur verið fundað tvisvar sinnum með aðstoð Ríkissáttasemjara. Lítið hefur þokast í viðræðunum. Báðir aðilar hafa gert grein fyrir stöðunni eins og hún lítur út fyrir þeim, en bilið á milli aðila hefur ekki minnkað.
Næsti fundur hefur verið boðaður mánudaginn 27. apríl.
Kjarasamningur Fíh og ríkisins rennur út þann 30. apríl næstkomandi. Samkvæmt viðræðuáætlun samninganefndar Fíh og samninganefndar ríkisins, sem undirrituð var samhliða síðasta kjarasamningi, var markmiðið að nýr samningur yrði tilbúin við lok núgildandi samnings. Þetta markmið hefur ekki náðst og ólíklegt er að svo verði.
Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga íhugar nú næstu skref í stöðunni. Ljóst er að leiðrétta þarf dagvinnulaun hjúkrunarfræðinga svo þau endurspegli menntun og ábyrgð hjúkrunarfræðinga og séu jöfn öðrum háskólastéttum. Þurfi að grípa til aðgerða til að ná fram þeirri leiðréttingu þá er stjórn Fíh reiðubúin að leita eftir samþykki félagsmanna fyrir því þegar þar að kemur.
Stjórn Fíh hvetur hjúkrunarfræðinga til að fjölmenna í kröfugöngu verkalýðsins þann 1. maí næstkomandi. Sýnum samstöðu og tökum þátt.