19.
maí 2015
Ályktun stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um mat á menntun og ábyrgð til launa.
Aðalfundur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, haldinn 18. maí 2015, hvetur stjórnvöld til að ganga til samninga við hjúkrunarfræðinga um réttmæt launakjör svo ekki þurfi að koma til boðaðs verkfalls þeirra þann 27. maí.
Hjúkrunarfræðingar eru burðarstoðin í íslensku heilbrigðiskerfi. Fjögurra ára háskólanám og mikil ábyrgð í starfi endurspeglast ekki í kjörum þeirra sem eru umtalsvert lakari en annarra háskólamenntaðra opinberra starfsmanna. Enn eru laun hefðbundinna kvennastétta ekki sambærileg við laun hefðbundinna karlastétta.Við þetta verður ekki unað lengur.
Sífellt fleiri hjúkrunarfræðingar leita nú í önnur störf eða flytja af landi brott þar sem í boði eru hærri laun og betra starfsumhverfi. Öflugt, öruggt, hagkvæmt og skilvirkt heilbrigðiskerfi verður ekki tryggt án aðkomu hjúkrunarfræðinga. Stjórnvöld verða því að meta menntun og ábyrgð þeirra til hærri launa.
Hjúkrunarfræðingar telja boðaðar verkfallsaðgerðir óhjákvæmilegar til að ná fram leiðréttingu á þeirra kjörum. Engu að síður lýsir aðalfundur Fíh yfir miklum áhyggjum af yfirvofandi verkfalli hjúkrunarfræðinga og afleiðingum þess á heilbrigðiskerfið.
Ályktun stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og fagdeildar öldrunarhjúkrunarfræðinga um hjúkrun og heilbrigðisþjónustu aldraðra
Aðalfundur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, haldinn 18. maí 2015, lýsir yfir þungum áhyggjum af þeirri heilbrigðisþjónustu sem öldruðum stendur til boða í dag.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hvetur heilbrigðis- og fjármálaráðherra til að tryggja öldruðum góða, örugga og sómasamlega heilbrigðisþjónustu með auknu samráði og samstarfi við fagaðila og fjármagni til stofnana svo fjölga megi hjúkrunarfræðingum og öðru fagfólki í öldrunarþjónustu.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga bendir á að hjúkrun er og verður lykilþáttur öldrunarþjónustu. Hjúkrunarfræðingar stýra hjúkrunarþjónustunni og bera faglega ábyrgð á henni. Þeim ber að tryggja að aldraðir og aðstandendur þeirra fái þá
hjúkrun sem þeir þarfnast á réttum stað á réttum tíma.
Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hvetur stjórnvöld til að leggja fram heildræna stefnu um málefni aldraðra innan fimm ára og lýsir sig tilbúið til samstarfs um það verkefni.